Samþykkt fyrir Vatnsveitufélag Laugaráshverfis

Skáletraður hluti textans eru síðari viðbætur, sem aldrei voru staðfestar af ráðuneyti, svo sem lög gerðu ráð fyrir.

  1. grein
    Félagið heitir Vatnsveitufélag Laugaráshverfis. Heimili þess og varnarþing er Biskupstungnahreppur í Árnessýslu.

  2. grein
    Tilgangur félagsins er að sjá hverfinu fyrir neysluvatni.

  3. grein
    Stofnendur eru Sláturfélag Suðurlands, héraðslæknisbústaður, sumardvalarheimili R.K.Í. og ábúendur eftirtalinna býla: Sólveigarstaða, Laugargerðis, Hveratúns, Ásholts, húss og garðyrkjustöðvar Ólafs Einarssonar og Einars Ólafssonar, svo og garðyrkjustöð Harðar Sigurðssonar. Auk þess Biskupstungnahreppur vegna 10 óbyggðra leigulóða.
    Stofngjald greiði Sláturhúsið kr. 110 þúsund, læknisbústaðirnir og sumardvalarheimili R.K.Í kr. 20 þúsun hver, aðrir stofnendur 4 þúsund kr. hver og Biskupstungnahreppur 4 þúsund kr. vegna hverrar leigulóðar. (samþ. 11. apríl 1965)

  4. grein
    Vatnsveitan byggir dælustöð og vatnsgeymi og lætur leggja stofnæð að fyrstu greiningu. Biskupstungnahreppur leggur aðalæð allt að Auðsholtsvegi.
    Frá og með árinu 1970 kostar vatnsveitan aukningu og viðhald allra stofna vatnsveitunnar frá fyrstu greiningu að heimæðum notenda. (11. sept. 1971)

  5. grein
    Hver aðili á rétt á vatni til heimilisþarfa.
    Stjórninni er þó heimilt að leyfa notkun vatns til græðlingaræktunar svo og blómaræktunar í þeim tilfellum þar sem hveravatn er sannanlega ónothæft. (11. sept. 1971)

  6. grein
    Skylt er félaginu að taka í félagið nýja ábúendur sé nægilegt vatnsmagn fyrir hendi.
    Ef notandi byggir fleiri en eina íbúð á landi sínu, ber honum að greiða til vatnsveitunnar fyrir hverja íbúð sem sjálfstæðan notanda. (2. apríl, 1970)

  7. grein
    Vatnsskatt skal innheimta árlega af hverjum aðila í félaginu og skal hann ákveðinn þannig:
    I. Til greiðslu vaxta og afborgunar stofnkostnaðar í hlutfalli við stofngjald.
    II. Til greiðslu á rekstrarkostnaði og viðhaldi veitunnar, eftir vatnsnotkun.
    III. Félögum er skylt að greiða fast lágmarksgjald þegar skilyrðum til tengingar er fullnægt frá hendi vatnsveitunnar. Óleigðar lóðir skulu þó undanskildar.
    Vatnsskatt má taka lögtaki ásamt áföllnum innheimtukostnaði ef ekki er staðið í skilum með greiðslu hans til félagsins.
    Gjalddagi vatnsskatts er 1. september. (11. apríl, 1965)

  8. grein
    Stjórn félagsins skipa 3 menn: formaður, ritari og gjaldkeri, kosnir á aðalfundi til eins árs í senn, og einn til vara.
    Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum.
    Ennfremur skulu kosnir tveir endurskoðendur til eins árs.

  9. grein
    Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en 1. apríl, ár hvert. Til hans skal boðað bréflega eða persónulega, með viku fyrirvara.
    Aðalfundur er lögmætur hafi réttilega verið til hans boðað og þriðjungur félagsmanna mætir. (11. desember, 1976)
    Hafi aðalfundur fallið niður vegna ónógrar fundarsóknar, telst næsti löglega boðaður aðalfundur lögmætur, án tillits til fundarsóknar.

  10. grein
    Félagsfundur er lögmætur ef helmingur félagsmanna sækir hann, enda hafa hann verið boðaður á sama hátt og aðalfundur.
    Á félagsfundi hafa allir félagsmenn jafnan rétt og ræður afl atkvæða úrslitum.

  11. grein
    Formaður félagsins kveður stjórnina saman til fundar og boðar félagsfundi og aðalfund. Stjórnarfundur er því aðeins lögmætur, að allir stjórnarmenn séu mættir.
    Færa skal fundarbók og skal fundarritari lesa upp fundargjörð í lok hvers fundar og undirrita hana, ásamt formanni.

  12. grein
    Stjórn félagsins hefur umsjón með vatnsveitunni, annast reikningshald hennar og innheimtu á gjöldum til félagsins. Hún sér um viðhald og viðgerðir á vatnsbóli og aðalleiðslu.
    Viðhald heimlagna og umbúnað í húsum annast félagsmenn hver hjá sér, undir eftirliti félagsstjórnar.

  13. grein
    Samþykkt þessar má ekki breyta nema á aðalfundi, enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði og séu að minnsta kosti 2/3 félagsmanna samþykkir þeim.