Slátrun hætt, það sem við tók

Lok starfseminnar

Páll Lýðsson

Páll Lýðsson

Síðast var slátrað í Sláturhúsinu í Laugarási haustið 1988, ári síðar en til stóð. Páll Lýðsson greinir frá því hvernig það kom til að ákveðið var að fresta lokun um eitt ár, í minningargrein um Jón Ólafsson í Eystra-Geldingaholti.

Jón Ólafsson

Jón Ólafsson

Á  fundi í Aratungu sumarið 1988 voru saman komnir deildarstjórar Uppsveita Árnessýslu og margir félagsmenn, ásamt forstjóra SS, Jóni Bergs og stjórn. Tilefnið var, að ætlunin var að leggja niður slátrun í Laugarási frá og með komandi hausti. Jón í Geldingaholti sat þá í varastjórn SS og Jón var þessu andvígur.

Síðan segir Páll:

 En það var með ráði Jóns að ég fór í kaffihléinu inn í búrkompu inn af eldhúsinu með alla fjóra deildarstjórana. Þar var samþykkt að fresta lokun hússins um eitt ár.

Það varð þannig úr að slátrun fór fram haustið 1988 í síðsta sinn.

Ástæður þess að þetta var ákveðið eru sjálfsagt fleiri en ein, en sú veigamesta mun hafa verið fækkun sauðfjár á svæðinu. 

Sláturfélagið átti þó húsið áfram og var það nýtt sem geymsla fyrir ýmsan búnað utan sláturtíðar. Þá voru þangað fluttar gærur til söltunar, aðallega frá Selfossi í ein fjögur haust. Við söltunina og síðan flutninginn til frekari vinnslu á vorin störfuðu hjónin Sigurður Erlendsson og Jóna Ólafsdóttir á Vatnsleysu og Margrét Guðmundsdóttir og Ingólfur Jóhannsson á Iðu, ásamt Georg Franzsyni úr Laugarási.

Snæbjörn og Hlíf (Mynd úr Degi 12. ág. 1998)

Eftir að gærusöltun var hætt var húsið nýtt eitthvað áfram sem geymsla, sem fyrr, en 1996 seldi félagið þeim Snæbirni Magnússyni og Hlíf Pálsdóttur húsið og lóðina. Þau breyttu því í veitinga- og gististað. Sá rekstur var í húsinu í rúm tíu ár en reyndist þá ekki hafa borið sig og var því hætt.

Sláturhúsið rifið í desember 2016 (Mynd PMS)

Eftir það komst húsið í eigu Byggðastofnunar og fékk að grotna niður smám saman þar til  Norverk keypti það árið 2015 og hafði áform uppi um að byggja hótel á lóðinni.  Undir lok árs 2016 var hafist handa við að rífa sláturhúsið, en síðar var ákveðið að leyfa því að standa í grunninn og nýta það sem hluta af fyrirhuguðu hóteli.

Á fyrri hluta árs 2017 voru miklar jarðvegsframkvæmdir fyrir sunnan húsið þar sem grafið var fyrir fyrirhugaðri hótelbyggingu. Þessum framkvæmdum var síðan hætt eða frestað vegna forsendubreytinga.

Þegar þetta er ritað, haustið 2018, hefur ekkert gerst sem sjáanlegt er á sláturhúslóðinni og frekar óvíst virðist, eins og staða ferðaþjónustur er nú, að einhver gangur í þetta verkefni á næstunni.

Umhverfisáhrif og framtíðin

Þó sláturhúsið væri ekki starfrækt nema hluta úr ári, hafði það mikil áhrif á Laugarás. Þar liggur fyrst fyrir að nefna stofnun Vatnsveitufélags Laugaráss 1964, en þá var leitt kalt vatn úr lind í Vörðufelli í dæluhús skammt frá brúnni Laugarásmegin. Auðvitað hefði sláturhúsið aldrei orðið ef ekki hefði verið nægt kalt og heitt vatn. Hitaveita Laugaráss var einnig stofnuð þetta ár og má víst telja að fyrirhugað sláturhús skipti þar sköpum.

Sannarlega hafa margir Laugarásbúar alið þá von í brjósti undanfarin ár, að öflug atvinnustarsemi kæmi inn til að efla Þorpið í skóginum til framtíðar. Þar hefur ekki síst verið horft til hótelbyggingar á sláturhúslóðinni. Fátt bendir til þess að sveitarfélögin sem eiga Laugarásjörðina, hafi áhuga á að efla Laugarás, þann stað í uppsveitum sem stendur í hjarta byggðarinnar.

uppf. 09.2018