Starfsemi

Ólafur Jónsson

Ólafur Jónsson

Sláturhússtjórar

Sláturhússtjórar urðu tveir á þeim árum sem húsið var starfrækt: Ólafur Jónsson í Skeiðháholti frá 1964-77, eða í 14 ár. Hann lét af störfum til að sinna aðalstarfi sínu, kennslu við barnaskólinn á Brautarholti. Hann hafði þá fengið fastráðningu þar.  Milli þessara starfa hans var eðlilega árekstur þar sem skólastarf hófst á haustin í miðri sláturtíð.

Sigurður Erlendsson (mynd: pms)

Sigurður Erlendsson (mynd: pms)

Við stjórn sláturhússins tók Sigurður Erlendsson á Vatnsleysu og hann sinnti henni síðan meðan slátrað var í Laugarási, eða frá haustinu 1978 til 1988.

Deildarstjórarnir

Þegar bændur voru tilbúnir að senda fé til slátrunar, þurftu þeir að vera í sambandi við deildarstjóra, hver í sínum hreppi. Þannig var Sveinn Skúlason í Bræðratungu deildarstjóri í Biskupstungum, Ingólfur Bjarnason á Hlemmiskeiði, á Skeiðum, Jón Ólafsson í Eystra-Geldingaholti, í Gnúpverjahreppi og Eiríkur Jónsson í Berghyl í  Hrunamannahreppi.

Deildarstjórarnir f.v. Eiríkur Jónsson, Ingólfur Bjarnason, Jón Ólafsson og Sveinn Skúlason

Deildarstjórarnir f.v. Eiríkur Jónsson, Ingólfur Bjarnason, Jón Ólafsson og Sveinn Skúlason

Deildarstjórarnir bjuggu þannig yfir vitneskju um fjölda fjár frá hverjum bónda ásamt óskum þeirra um sláturtíma. Þeir unnu síðan skipulag slátrunarinnar með sláturhússtjóranum.  

Þetta deildarstjóraskipulag er enn við líði hjá Sláturfélagi Suðurlands.

Umfang starfseminnar og skipulag

Að jafnaði var slátrað um 800 fjár á dag, mest um 1000, frá því eftir réttir upp úr miðjum september og fram undir lok október.

Ólafur Jónsson, sláturhússtjóri spjallar við Loft Kristjánsson ? (Mynd frá Jóhönnu Bríeti Ingólfsdóttur”

Áður en slátrun hófst á hverjum degi þurfti að vera búið að rýma húsið af sláturafurðum síðasta dags. Á hverjum morgni um sexleytið komu flutningabílar sem fluttu kjöt og aðrar afurðir til Reykjavíkur eða á Hvolsvöll. Stundum komu kjötflutningabílar tvisvar á dag, sá síðari um hádegisbil, til að létta á kjötsalnum. Á hverjum virkum degi hófst slátrun klukkan 8 og síðan miðað við að vinnunni lyki um kvöldmat. Það kom þó fyrir að lengur væri unnið í kjallaranum. Loks var húsið þrifið hátt og lágt, en gnægð af heitu vatni auðveldaði það verk mikið.

Starfsfólk

Hópmynd af hluta starfsfólks í kjallara. Myndin hefur farið til rannsóknar hjá starfsfólki sem þarna var og þetta er niðurstaðan. Sitjandi frá vinstri: Hulda Guðjónsdóttir, Bjarni Jónsson, Þórunn Hlemmiskeiði, Ágúst Eiríksson. Miðröð: Helga Unnarholtskoti, ?, Kristjana Dalbæ, Silla Reykjum, Kata Hrepphólum, Sírna Hlemmiskeiði eða Heiða Auðsholti, Ólafur Jónsson. Aftasta röð: Kristján Minna Núpi, Rúna Bjargi, Þorsteinn Þórðarson, Halldór Þórðarson, Guðbjörn Arakoti. (Mynd frá Jóhönnu Bríeti Ingólfsdóttur)

Starfsfólk í sláturhúsinu var að jafnaði á bilinu 50-70 manns, aðallega úr nærsveitum. Að stærstum hluta var um að ræða bændur og búalið, ekki síst frá bæjum þar sem sauðfjárbúskapur var stærsta búgreinin. Sláturhúsvinnan var góð búbót og sláturtíðin á tíma sem hentaði sauðfjárbændum vel. Þarna sáu ýmsir launaseðil í fyrsta skipti.

Sigurður Erlendsson, sláturhússtjóri fær sér í nefið á skrifstofu sinni. (Mynd frá Jóhönnu Bríeti Ingólfsdóttur)

Sláturhússtjórarnir höfðu þann háttinn á við ráðningu starfsfólks, alla tíð, að þeir gerðu sér ferð í aðdraganda sláturtíðar á bæi á svæðinu og buðu fólki starf í sláturhúsinu þá um haustið. Þessi aðferð virkaði vel og fólki fannst því sýnd virðing með heimsókninni.

Starfsfólkið í Laugarási var stöðugt og kjarninn var mikið til sá sami í þau 24 ár sem slátrað var í húsinu. Það er engin leið að ætla hér að tína til alla þá sem einhverntíma unnu í sláturhúsinu. Það fólk sem hér er nefnt, er valið af handahófi og þá helst það sem starfaði um lengri tíma.

uppf. 09.2019