Sláturhús Sláturfélags Suðurlands

Jón H. Bergs, forstjóri SS

Jón H. Bergs, forstjóri SS

Sláturfélag Suðurlands rak 7 sláturhús á landinu árið 1960: í Reykjavík, við Laxárbrú í Borgarfjarðarsýslu, á Selfossi, á Hellu, í Djúpadal við Eystri Rangá, í Vík í Mýrdal og á Kirkjubæjaklaustri. Þá var um 130.000 fjár slátrað í þessum húsum, mest á Selfossi eða um 46.000.

Á aðalfundi Sláturfélagsins um 1960 var forstjóra, Jóni H. Bergs, falið að vinna að byggingu nýs sláturhúss í Laugarási. Fyrir þessari ákvörðun munu aðallega hafa verið tvær ástæður. Annarsvegar hafði sauðfé fjölgað mjög á svæðinu og hinsvegar var um að ræða ákveðna samkeppni við sláturhús sem þá var rekið á Borg í Grímsnesi, en það rak Garðar Gíslason, stórkaupmaður ásamt verslun.

Framkvæmdir töfðust af einhverjum ástæðum, en á næsta aðalfundi ákvörðunin ítrekuð og bygging hússins hófst haustið 1963.

Staðurinn sem valinn var fyrir húsið var engin tilviljun, enda Laugarás í hjarta byggðarinnar í uppsveitum Árnessýslu, auk þess sem haustið 1957 var hin glæsilega Hvítárbrú hjá Iðu opnuð fyrir umferð. Hún var auðvitað ein megin forsenda þess að sláturhúsinu yrði valinn þessi staður.

Lóðin eða landið sem Sláturfélag Suðurlands keypti af Laugaráslæknishéraði, er eina landið eða lóðin í Laugarási sem selt hefur verið út úr Laugarásjörðinni.

Húsið

Guðmundur Kr. Kristinsson, arkitekt

Guðmundur Kr. Kristinsson, arkitekt

Arkitekt hússins var Guðmundur Kr. Kristinsson, verkfræðingur var Rögnvaldur Þorsteinsson og verktaki Helgi Valdimarsson. Þak hússins var borið uppi af sperrum eða burðarbitum úr strengjasteypu og því þurfti engar súlur eða burðarveggi til að halda því upp. Með þessu móti nýttist vinnupláss betur en ella.  Húsið var á tveim hæðum, alls um 7000 rúmmetrar og gert ráð fyrir að þar yrði hægt að slátra allt að 1200 fjár á dag. 

Hvar var sláturhúsið?

Þar sem byggingartími hússins var afar stuttur, var það frekar hrátt þegar slátrun hófst  þann 21. september, 1964. Þannig átti eftir að standsetja eldhús og matsal, auk fyrirhugaðrar gistiaðstöðu. Það kom ekki að sök þar sem þessi aðstaða var fyrir hendi í húsnæði barnaheimilis RKÍ, skammt frá. Loks var lóðin ófrágengin.

uppf. 09.2018