Aðbúnaður starfsfólks

Gisting og fæði

Það kom sér auðvitað vel að í næsta nágrenni var starfrækt sumardvalarheimili fyrir börn á vegum Reykjavíkurdeildar RKÍ.

Kaffi og pípa eftir matinn í Krossinum. F.v. Ingvar Þórðarson, Ólafur Jónsson, Haraldur Sveinsson, Þorsteinn Þórðarson, Bjarni Gíslason, Ásgeir Gestsson, Ágúst Eiríksson. (mynd frá Jóhönnu B. Ingólfsdóttur)

Þar var starfrækt mötuneyti fyrir starfsfólk sláturhússins og húsnæði var þar til reiðu, allt fram til um það bil 1980,  þá hafði verið innréttuð góð aðstaða í kjallara sláturhússins þar sem gistirými var fyrir 24, eldhús og matsalur. Ennfremur fékk hluti starfsfólksins inni í kjallara dýralæknisbústaðarins í Launrétt 1.  Í sláturhúsinu gistu að jafnaði karlar og konurnar í Launrétt. Einnig var nokkuð um að hjón eða pör gistu hjá ættingjum í Laugarási.

Krossinn

Barnaheimili RKÍ, Krossinn 1960 (Mynd frá Hallfríði Konráðsdóttur)

Barnaheimili Rauða krossins var starfrækt í Laugarási á sumrin frá árinu 1952 fram til 1971. Þessi starfsemi féll auðvitað vel að starfsemi sláturhússins, en heimilið starfaði frá miðjum júní til loka ágúst ár hvert.  Þannig tók mötuneyti og gistiaðstaða fyrir starfsfólk sláturhússins við eftir að börnin, ung og smá, voru horfin til síns heima í höfuðborginni.

Margrét Guðmundsdóttir, Jóna Ólafsdóttir og Guðný Guðmundsdóttir

Þarna réði ríkjum fyrstu árin, Guðný Guðmundsdóttir í Laugarási og við af henni tók Margrét Guðmundsdóttir á Iðu. Síðustu árin veitti Jóna Ólafsdóttir á Vatnsleysu eldhúsinu forstöðu. Auðvitað störfuðu margar konur í eldhúsinu þau ár sem sláturhúsið var starfrækt. Þar má t.d. nefna Eygló Jóhannesdóttur í Ásakoti, Bryndísi Kristjánsdóttur í Borgarholti, Ernu Jensdóttur á Tjörn, Elínu G. Ólafsdóttur í Austurhlíð og Maríu Eiríksdóttur í Skálholti.

uppf. 09.2018