Heimildir og vinna

Það var ekki mikið um ritaðar heimildir um sögur sláturhússins og því fór ég þá leið við þessa samantekt að finna viðmælendur, auk þess sem ég nýtti eigin vitneskju um starfsemina.

Jóhanna Bríet Ingólfsdóttir, Bergljót Þorsteinsdóttir og Sigurður Erlendsson

Ég átti samtöl við Sigurð Erlendsson á Vatnsleysu, Jóhönnu Ingólfsdóttur á Hrafnkelsstöðum og Bergljótu Þorsteinsdóttur á Reykhóli.  Myndefni fékk ég hjá Jóhönnu Ingólfsdóttur, þar á með myndskeið sem sonur hennar Helgi Haraldsson, tók af starfseminni í húsinu síðasta haustið sem það var starfrækt.  Brynjar Steinn Pálsson bjó þetta myndskeið til birtingar. Þá fékk ég myndir frá Jóni K. B. Sigfússyni, sem hann hafði áður fengið í hendur frá Halldóri Þórðarsyni á Litla Fljóti. Drónamyndir af húsinu og umhverfi lét Magnúsi Skúlason í Hveratúni mér í té. Loks notast ég við eigin myndir, aðallega frá síðari árum og nútímanum. 

Ég er afar þakklátur þessu fólki fyrir mikilvægt framlag þess.

Ég stóð frammi fyrir því við skrifin að meta að hve miklu leyti væri vogandi að birta nöfn þeirra fjölmörgu sem störfuðu í sláturhúsinu á þeim 24 árum sem það var starfrækt. Augljóslega var aldrei möguleiki fyrir mig að tína þau öll til. Ég fór því svona einhverja millileið og nefni einhverja þá sem þarna störfuðu um lengri tíma við einhvers konar stjórnun, annaðhvort yfir mörgum, fáum eða bara sjálfum sér. Ég vona að mér verði virt þetta til vorkunnar.

uppf. 10.2018