Síðustu ár Vatnsveitufélags Laugaráss

Það má velta fyrir sér hversvegna Vatnsveitufélag Laugaráss varð ekki eldra en raun bar vitni. Það var stofnað árið 1964 og því var slitið í lok árs 2002 og náði þar með næstum 40 ára aldri. Hér verður reynt að varpa ljósi á helstu þætti sem leiddu til þess að félaginu var slitið. Að stærstum hluta byggir þessi úttekt á gögnum, en einnig reynslu þess sem þetta ritar og þekkingu á starfsemi félagsins, enda sat hann í stjórn félagsins í átta ár, annarsvegar frá 1985-1989 og frá 1995 til þess tíma þegar félaginu var slitið.

1.Fólkið í Laugarási

Árið sem vatnsveitufélagið var stofnað voru íbúar Laugaráss 52 alls þar af voru 20 fullorðnir og 32 börn, flest ung. Heimilin voru 10 þar af 5 garðyrkjubýli. Þetta var fólkið sem kom að því að stofna félagið.

Í lok árs 2001 voru íbúar með fasta búsetu/lögheimili í Laugarási 123 á 37 heimilum. 45 voru 0-19 ára, 30 voru 20-39 ára, 33 voru 40-59 ára og 15 voru 60 ára og eldri. Kynjaskiptingin var þannig, að 60 voru karlkyns og 63 kvenkyns.
Af þeim sem tóku þátt í stofnun vatnsveitufélagsins 1964 voru sex ennþá virkir þátttakendur í lífinu í Laugarási árið 2001.

Fólksfjölgunin og breyting á samsetningu íbúanna verður að teljast hafa haft talsverð áhrif á það hvernig fór, annarsvegar vegna þess að fólkinu fjölgaði og samskiptin urðu ekki jafn náin og áður og hinsvegar vegna þess að viðhorfin til þess að íbúar þyrftu að reka sérstakt félag um svo sjálfsagðan hlut sem kalt vatn, voru orðin allt önnur.

2. Sláturhúsið og Krossinn

Sú ákvörðun Sláturfélags Suðurlands að óska eftir landi undir sláturhús í Laugarási var auðvitað stærsti hvatinn að því að ráðist var í að stofna félag um öflun á köldu vatni, um það verður varla deilt, þó vissulega hefði á einhverjum tíma komið til þess að íbúar færu að þrýsta á að fá kalt vatn í nægilegu magni, í stað þess að nota kælt hveravatn eða vatn úr opnum lindum, eða dýjum.
Þó svo sláturhúsið væri aðeins starfrækt í um það bil sex vikur á haustin, átti það, rétt á um það bil helmingi þess vatns sem lindin gaf af sér, sem endurspeglast í því að SS greiddi kr. 110.000 í stofngjald til félagsins meðan hvert heimili í Laugarási greiddi kr. 4.000. Þegar fulltrúi sláturfélagsins hætti að eiga sæti í stjórn árið 1976, má segja að ákveðin kjölfesta hafi horfið úr félaginu og þar með málefni þess ekki tekin jafn alvarlega og með fulltrúa SS innanborðs. Eftir að sláturhúsið var fyrir bí vor um tíma uppi hugmyndir um aðra starfsemi og vatnsfreka, sem hefði þá átt að geta nýtt 2 sek/l á vatninu allt árið, en ekki bara sex vikur eins og sláturhúsið. Stjórn vatsveitufélagsins stóð þarna frammi fyrir talsverðum vanda og greip til þess ráð, árið 1989 að skrifa hreppsnefnd Biskupstungnahrepps bréf:

Stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss óskar eftir fundi með hreppsnefnd vegna fyrirsjáanlegs vatnsskorts í hverfinu.
Eins og hreppsnefnd er ef til vill kunnugt hefur ásókn í að vökva með veituvatni vaxið mjög síðastliðin ár og hefur ekki verið hægt að sinna eftirspurn. Ljóst er að veitan getur þó sinnt neysluvatnsþörf, vegna þess að Sláturfélag Suðurlands hefur lagt niður starfsemi í Laugarási.
Nú hafa komið fram hugmyndir um fiskeldi í húsi SS og hefur stjórn vatnsveitunnar því miður orðið að taka neikvæða afstöðu til þess vegna ofanritaðs.
Stjórn vatnsveitunnar þykir einsýnt að aukin vatnsöflun verður að koma til. Við óskum því eftir viðræðum við hreppsnefnd um að sveitarfélagið gangi inn í veituna og stuðli þannig að því að hægt verði að sinna aukinni vatnsöflun, svo hægt verði að sinna eftirspurn og ný atvinnutækifæri geti skapast.

Ingólfur Guðnason form (sign)
Magnús Skúlason gjaldkeri (sign)
Pétur Skarphéðinsson (sign)

Tveir hreppsnefndarmenn voru valdir til að ræða við stjórnina og að fá sér til aðstoðar Harald Árnason, vatnsvirkjaráðunaut Búnaðarfélags Íslands.

Þetta bréf endurspeglar það sem stjórnir félagsins þurftu að glíma við - reyna að standa á bremsunni varðandi leyfi til vatnsnotkunar og mögulega þannig standa í vegi fyrir framþróun á svæðinu.

Barnaheimili Reykjavíkurdeildar RKÍ, sem rekið var yfir sumarmánuðina var hinn stóri notandinn, eða félaginn, en stofngjald þess var jafn mikið og gjald 5 heimila. RKÍ átti aldrei fulltrúa í stjórn og starfseminni var hætti að lokinni sumardvöl Reykjavíkurbarna árið 1971.

3.Takmarkað vatn og óöryggi

Samningurinn, sem síðan stóð í stappi með, mestallan þann tíma sem félagið starfaði, kvað á um að Vatnsveitufélagið ætti rétt að allt að 4 sek/l af vatni. Gerðar voru mælingar á vatnsmagninu úr lindinni, árið 1982, og reyndist það vera að jafnaði á bilinu 2,8-3,8 sek/l. Laugarásbúar höfðu þetta alltaf bakvið eyrað. Þeir vissu að það yrði að passa upp á vatnið.
Stjórnir vatnsveitufélagsins fengi í æ meiri mæli það hlutverk að vera á bremsunni gagnvart annarri notkun en til heimilisnota og smám saman varð það ekkert sérlega öfundsvert hlutverk að sitja í stjórn félagsins. Þetta varð því snúnara hlutverk eftir því sem fleiri óskuðu eftir vatni til grænmetis- og blómaræktunar og svo bættist við að Skálholtsstaður bjó einnig við vatnsskort sem varð að leysa.

Óöryggi íbúanna átti líka rætur að rekja til viðvarandi deilna um skiptin á heitu og köldu vatni, sem stóð svo að segja allan þann tíma sem félagið starfaði.

Með aðalfundarboðum árin 1988 og 1989 sá stjórn félagsins ástæðu til að vekja félagsmenn til umhugsunar um stöðu félagsins og gerði það með greinargerð sem hún lét fylgja fundarboðunum.



4. Sala sláturhússlóðarinnar

Snæbjörn og Hlíf, 1998 (mynd Dagur)

Snæbjörn og Hlíf, 1998 (mynd Dagur)

Í sláturhúsinu var afar takmörkuð starfsemi á vegum SS allt þar til það seldi húsið og lóðina sem það stendur á, árið 1996. Nýir eigendur, Þau Snæbjörn Magnússon og Hlíf Pálsdóttir stofnuðu hlutafélagið 1997ehf utan um þessa fjárfestingu og hófu framkvæmdir við húsið til að stunda þar ferðaþjónustu. Þessar fyrirætlanir komu ekkert við vatnsveitufélagið utan það, að nýr eigandi leit svo á að hann hefði, með kaupunum, ekki aðeins eignast húsið og lóðina, heldur einnig helminginn í Vatnsveitufélagi Laugaráss. Hann taldi þar með, að hann færi með helming atkvæði innan félagins. Þessi eigandi, og nokkrir aðrir vildu líta þannig að félagið eins og nokkurskonar hlutafélag, að félagar ættu hlut í félaginu og gætu þá væntanlega fengið arð af honum, með því að selja vatnið.


Blikur á lofti

Í ljósi þeirra þátta sem nefndir eru hér fyrir ofan var stjórn vatnsveitufélagsins farin að undirbúa þær aðstæður, að Biskupstungnahreppur tæki að sér vatnsveitu í Laugarási á síðari hluta 9. áratugarins, eða strax og starfsemi lagðist af í sláturhúsinu. Ekkert lá fyrir um hvað tæki við af slátruninni og því eðlilega óvissa um framtíð veitunnar.
Þegar síðan kom til tals að hefja fiskeldi í húsinu taldi stjórn félagsins sér ekki annað fært en að bregðast við með einhverjum hætti og sendi frá sér tvö bréf í júní 1989.

Annað þeirra var stílað á forstjóra SS, Steinþór Skúlason, þar sem óskað var eftir viðræðum við SS um framtíð veitunnar og “Þar sem SS hefur lagt niður starfsemi sláturhúss í Laugarási má ætla að hlut SS í veitunni sé óráðstafað. Það eru því tilmæli okkar að við fáum hlut SS, 2 sek lítra, til leigu eða kaups. Enn fremur vill stjórn vatnsveitunnar mótmæla hugsanlegri ráðstöfun vatnshluta SS í aðra notkun en verið hefur án samráðs við stjórnina.”

Hitt bréfið var ætlað hreppsnefnd Biskupstungnahrepps. Þar óskaði stjórnin eftir fundi með hreppsnefnd vegna fyrirsjáanlegs vatnsskorts í Laugarási og síðan segir í bréfinu:

Eins og hreppsnefnd er ef til vill kunnugt, hefur ásókn í að vökva með veituvatni vaxið mjög síðastliðin ár og hefur ekki verið hægt að sinna allri eftirspurn. Ljóst er að veitan getur þó sinnt neysluvatnsþörf, vegna þess að Sláturfélag Suðurlands hefur lagt niður starfsemi í Laugarási.
Nú hafa komið fram hugmyndir um fiskeldi í húsi SS og hefur stjórn vatnsveitunnar, því miður, orðið að taka neikvæða afstöðu til þess vegna ofanritaðs.
Stjórn vatnsveitunnar þykir einsýnt að aukin vatnsöflun verður að koma til. Við óskum eftir viðræðum við hreppsnefnd um að sveitarfélagið gangi inn í veituna og stuðli þannig að því að hægt verði að sinna aukinni vatnsöflun, svo hægt verði að sinna eftispurn og ný atvinnutækifæri geti skapast.
Ingólfur Guðnason form.
Magnús Skúlason gjaldkeri
Pétur Skarphéðinsson ritari

Í febrúar 1996 sendi stjórnin hreppsnefnd bréf, svohljóðandi:

Á stjórnarfundi Vatnsveitufélags Laugaráss þann 22. febrúar 1996, var eftirfarandi samþykkt:
”Ritara var falið að rita hreppsnefnd bréf og fara fram á hugmyndir nefndarinnar um með hvaða hætti íbúar í Laugrási og aðrir þeir sem aðild eiga að Vatnsveitufélagi Laugaráss, geti vænst að tengjast inn á vatnsveitu hreppsins, komi til þess að þeir fari fram á það.”
Þessari samþykkt er hér með komið á framfæri. Ætlunin er síðan að leggja svar hreppsnefndar fyrir félagsfund til umræðu.

Páll M. Skúlason, ritari

Í svari hreppsnefndar segir svo: Hreppsnefnd telur eðlilegt að viðkomandi aðilar geti tengst Vatnsveitu Biskupstungnahrepps án þess að greiða stofngjöld, enda verði mannvirki Vatnsveitu Laugaráss afhent Vatnsveitu Biskupstungna til eignar og reksturs. Vatnsskattur verði greiddur samkvæmt gjaldskrá veitunnar.


Lokasennan

Karl Axelsson

Karl Axelsson

Stjórn félagsins ákvað að leita lögfræðilegs álits í málinu og fyrir valinu varð Karl Axelsson hrl. Hann skilaði 11 blaðsíðna álitsgerð í febrúar, 2001. Hér verður látið duga að setja inn niðurstöður hæstaréttarlögmannsins (leturbreytingar pms):

Í stuttu máli eru niðurstöður mínar að:

Vatnsveitufélag Laugaráshverfis er vatnafélag sem starfar á grundvelli Vatnalaga nr. 15/1923, sbr. einkum ákvæði III. og XI. kafla laganna, sbr. og samþykkta félagsins sem staðfestar voru af félagsmálaráðherra þann 10. september 1964.
Síðar samþykktar breytingar á samþykktunum hafa ekki fengið lögboðna meðferð í samræmi við 1. mgr. 104. gr Vatnalaga og hafa því aldrei öðlast gildi.
Hér að framan eru ennfremur leidd að því rök að félagið sé skattskylt.
Félagsmenn og þar með eigendur félagsins eru stofnendur þess, þeir sem síðar hafa uppfyllt skilyrði samþykkta og laga fyrir aðild, svo og allir þeir sem svo leiða rétt frá fyrri félögum, með því að þeir hafa keypt fasteignir viðkomandi. Félagsaðildin er svo óhjákvæmilega háð eignarhaldi á þeim fasteignum sem nýta vatn í gegnum félagið og verður framseld með þeim og með sama hætti ekki aðskilin frá þeim.
Eignarréttur að eignum félagsins, réttur hvers og eins eiganda til vatnsmagns og atkvæðaréttur haldast ekki í hendur innan félagsins. Á meintan og eftir atvikum mismunandi eignarrétt einstakra félagsmanna sýnist fyrst og fremst reyna við ráðstöfun eigna við félagsslit. Ekki eru að svo stöddu forsendur til þess að skilgreina eignarhlut hvers og eins félagsmanna, en slíkt sýnist útheimta aðkomu og útreikninga endurskoðanda eða annars sambærilegs sérfræðings og þá að teknu tilliti til framlaga viðkomandi til félagsins með þeim hætti sem nánar er reifað í álitsgerðinni.
Um rétt ákveðinna félagsmanna til ákveðins vatnsmagns fer með þeim hætti sem kveðið er á um í II. kafla Vatnalaga og nánar í samþykktum félagsins. Atkvæðavægi einstakra félagsmanna er jafnt við alla ákvarðanatöku á vettvangi félagsins, óháð meintu mismunandi eignarhaldi einstakra félagsmanna á eigum félagsins og tilkalli til vatnsmagns þess er félaginu ber að afhenda.
Þá er komist að þeirri niðurstöðu í álitsgerðinni að fundarsamþykkt stjórnar frá 25. ágúst, 1966 um einhliða rétt Sláturfélags Suðurlands til vatns og eigna, bindi hvorki félagið né einstaka félagsmenn.
Þess utan verður að meta eignastöðuna með hliðsjón af öllum þeim félögum sem gengið hafa í félagið frá stofnun þess og þar með skert hlutfallslega eignarrétt allra þeirra er fyrir voru í félaginu.
Þá er það andstætt ófrávíkjanlegum fyrirmælum III. kafla Vatnalaga að ætla að ákvarða það fyrirfram og með bindandi hætti, að ákveðnir aðilar skuli ævinlega og óumbreytanlega eiga rétt til ákveðins vatnsmagns.
Þess utan myndi slíkur réttur til vatns sæta skerðingu vegna réttinda nýrra félaga með sama hætti og gildir um eignartilkalla einstakra félagsmanna.
Þá eru reifaðir þeir kostir sem fyrir hendi eru til að slíta félaginu og komist að niðurstöðu að, að öllum líkindum geti 2/3 félagsmanna ákveðið félagsslit á löglega boðuðum aðalfundi.
Þá er fjallað um kosti þess og ókosti annarsvegar að sveitarfélagið yfirtaki starfsemi félagsins á grundvelli laga nr. 81/1991 en hinsvegar að félagið verði rekið áfram með óbreyttum hætti. Er ekki tekin bein afstaða til þess hvor kosturinn sé heppilegri, enda er það mat tæplega lögfræðilegs eðlis. Allt að einu er sú niðurstaða reifuð, að ef um það næst samstaða og samkomulag að verkefni Vatnsveitufélags Laugaráshverfis færist yfir til sveitarfélagsins með framangreindum hætti, þá væri eðlilegasta ferlið það, að aðalfundur félagsins ákveði félagsslit með framangreindum meirihluta, eftir atvikum verði kosin skiptanefnd, skv. 113. gr. Vatnalaga, til þess að gera félagið upp, en samhliða þessu, eða eftir atvikum í framhaldinu, yfirtaki sveitarfélagið starfsemi vatnsveitufélagsins.

Virðingarfyllst,
Karl Axelsson hrl.

Í ljós lögfræðiálitsins og stöðu félagsins að öðru leyti, ákvað stjórn þess að stefna að því að fá sveitarfélagið, Biskupstungnahrepp, til að yfirtaka starfsemina og þar með ábyrgðina á því að sjá Laugarásbúum fyrir nægu köldu vatni. Þessi ákvörðun féll ekki í frjóan jarðveg meðal allra félagsmanna. Þeir sem andsnúnastir voru þessari niðurstöðu hótuðu að lögsækja stjórnina, en flestir þeir félagsmenn sem um þetta tjáðu sig, voru þó sammála stjórninni um, að þetta væri besta niðurstaðan. Ekki kom til neinna lögsókna.

Aðalfund þurfti að kalla saman til endanlegrar ákvörðunar í málinu og mikilvægt að hann yrði örugglega löglegur og að 2/3 samþykktu síðan að slíta félaginu og fela sveitarfélaginu að sjá um kalt vatn til handa íbúum og starfsemi í hverfinu. Það var heilmikil undirbúningsvinna sem lá að baki því að boða lögformlega til aðalfundarins og undirbúa hann að öðru leyti. Fundarboð var sent á milli 50 og 60 aðila sem greiddu vatnsgjöld og töldust þar með “félagar”.

Til þess að gefa sem flestum félögum kost á því að greiða atkvæði og til að tryggja að lögmætur fjöldi félaga greiddi atkvæði, var sent út, með fundarboði, eyðublað, þar sem félagar sem ekki ættu kost á að sitja fundinn gátu veitt stjórn félagsins umboð til að greiða atkvæði til sína hönd.

Fundurinn var haldinn á húsakynnum Lýðháskólans í Skálholti þann 27. nóvember, árið 2002 og þar var samþykkt að slíta félaginu og semja við Bláskógabyggð um yfirtöku á eignum þess.

Tvær tillögur sem samþykktar voru á fundinum 27. nóvember, 2002

Tvær tillögur sem samþykktar voru á fundinum 27. nóvember, 2002

Í framhaldi af þessum fundi var síðan gengið til samninga við Bláskógabyggð og var samningurinn samþykktur í sveitarstjórn þann 14. janúar 2003.

Lagður fram samningur Vatnsveitufélags Laugaráss og Bláskógabyggðar um yfirtöku Bláskógabyggðar á rekstri kaldavatnsveitu í Laugarási og nágrenni. Samningurinn felur í sér að Bláskógabyggð yfirtaki vatnsréttindi og eignir félagsins og tryggi nægt framboð af köldu vatni til íbúðarhúsa og atvinnurekstrar. Einnig var lagt fram bréf frá Jóhanni B. Óskarssyni, Laugarási og það haft til hliðsjónar við umræðu um málið. Sveitarstjórn samþykkir samninginn og telur að ábyrgð þess samkvæmt lögum um vatnsveitu sé með þeim hætti að ekki séu forsendur fyrir öðru en að samþykkja yfirtöku Vatnsveitunnar. Þá er lagt til að veitustjórn Bláskógabyggðar annist rekstur vatnsveitunnar fyrir sveitarfélagið bæði vegna vatnsveitunnar í Laugarási og Laugarvatni.

Lýkur þar með frásögn af síðustu árum Vatnsveitufélags Laugaráss.