SÓLVEIGARSTAÐIR (áður Gróska) 1941

1941 fengu  Eiríkur Grímsson, frá Gröf í Laugardal (f. í Skálholti 14.04.1892, d.26.10.1980)  og Bergþóra Runólfsdóttir (f. 17.12.1909, d. 03.05.1994)  ásamt bróður Bergþóru, Bergmanni Runólfssyni (f. 17.12. 1909, d. 01.01.1984), land þar sem Sólveigarstaðir eru nú.  Bergþóra og Bergmann voru frá Snjallsteinshöfðahjáleigu á Landi, en Bergmann var einhleypur og bjó hjá Ólafi Einarssyni, lækni.

Mbl 19. júní, 1943

Eiríkur og Bergþóra byggðu sér hús niðri við hverasvæðið og það rann nokkuð vatnsmikill heitur lækur rétt fyrir neðan það. Þau voru ekki búin að vera þarna lengi þegar ung dóttir þeirra, Guðrún (f. 03.08.1940, d. 16.06.1943) (3ja ára) féll í lækinn, í júní 1943, og lést skömmu síðar af brunasárum. Með þeim Eiríki og Bergþóru í Laugarási var einnig Sjöfn Helgadóttir (f. 1936), dóttir Bergþóru.

Í kjölfar slyssins fluttu hjónin burt. Nokkrum árum seinna, eignuðust þau dótturina Aldísi (f. 10.07.1947, d. 25.08.1990), en hún lést einnig með sviplegum hætti árið 1990.

Hjónin seldu býlið Skaftfellingi, sem Guðmundur Kr. Guðmundsson hét, en hann dvaldi þar ekki lengi. Hann seldi hlutafélaginu Grósku, sem var stofnað 1945 og tengdist Náttúrulækningafélaginu.

Í Vísi í mars 1945 segir:

NÁTTÚRULÆKNGAFÉLAGlÐ HEFIR KEYPT 4 GRÓÐURHÚS.

Nýlega hefir verið slofnað hlutafélagið „Grózka h.f." hér í bænum. Náttúrulækningafélag Íslands og matstofa þess eiga meginið af hlutafénu, en hitt eiga nokkurir félagsmenn, sem lögðu fram fé til þess að gera félaginu kleift að ná kaupum á gróðurhúsum í Laugarási í Biskupstungum, næsta bæ við Skálholt. Gróðurhúsin eru 4, samtals tæpir 600 fermetrar, og þeim fylgja 4 hektarar lands, mjög vel fallið til ræktunar, og nóg af heitu vatni. Landið og vatnið er leigt af læknishéraðinu til 50 ára. Hugmyndin er að rækta þarna allskonar grænmeti og garðávexti handa Matstofunni og félagsfólki í Náttúrulækningafélaginu.

Vorið  1946 kom fram að félagið ætti 4 gróðurhús í Laugarási og fengi þaðan grænmeti. Það má telja líklegt að til að byrja með hafi starfað við garðyrkjuna, þau Björn Kristófersson og Lilja Þorgeirsdóttir skamma hríð, en síðan hafi ræktandinn hafi verið Skúli Magnússon, en hann hafði keypt Lemmingsland haustið áður. Hann og Guðný bjuggu í íbúðarhúsinu sem fylgdi landi Grósku, eftir að Björn og Lilja hurfu á braut, þar til íbúðarhúsið sem fylgdi Lemmingslandi taldist orðið íbúðarhæft, í það minnsta fram yfir mitt ár 1947.

Jóna Sólveig Magnúsdóttir og Jón Vídalín Guðmundsson

Jóna Sólveig Magnúsdóttir og Jón Vídalín Guðmundsson

Árið 1947 seldi Náttúrulækningafélagið Jóni Vídalín Guðmundssyni (f. 04.12.1906, d. 04.07.1974) Grósku og flutti starfsemina að Gröf í Hrunamannahreppi. 

Jón Vídalín var bróðir Guðnýjar, eiginkonu Helga Indriðasonar (Helgahús), en þau komu í Laugarás 1946.
Með Jóni kom, sem ráðskona í fyrstu, en fljótlega eiginkona (1954), Jóna Sólveig Magnúsdóttir (f.18.10.1928, d. 16.05.2004). Hún átti tvö börn fyrir, þau Magnús Þór Harðarson (f.11.06.1946, d. 26.06.1966) og Hildi Eyrúnu Gísladóttur Menzing (f. 26.09.1949), sem giftist til Bandaríkjanna. Saman áttu Jóna og Jón síðan 4 börn. Elst þeirra er  Guðmundur Daníel (f. 31.05.1955, d. 18.01.2018) í Finnlandi, þá  Lára Vilhelmína Margrét (f. 27.03.1957) býr í Þorlákshöfn, síðan Guðný Aðalbjörg (f. 30.09.1959) býr í Reykjavík og loks Arngrímur Vídalín (f. 19.03.1962, d. 23.05.2003).

Sólveigarstaððir 2014 (mynd: PMS)

Jón var hátt á  fimmtugsaldri (47) þegar hann keypti Grósku.  Áður hafði hann stundað sjómennsku, sem háseti eða kokkur.  Hann fjallaði um lífsferilinn í viðtali við Guðmund Daníelsson 1966.

Með þeim Jóni og Jónu var nafni býlisins breytt, og það hefur síðan heitið Sólveigarstaðir.

1960 flutti fjölskyldan í nýbyggt hús sitt og bjó þar í 6-7 ár. Gamla íbúðarhúsið stóð áfram í mörg ár og gegndi ýmsum hlutverkum, sem hænsnakofi, bílskúr og geymsla, svo dæmi séu nefnd.

1967 seldu þau Jón og Jóna og fluttu í Kópavog.  Þá var Jón nýskriðinn yfir sextugt, en Jóna var 14 árum yngri.  Jóna bjó síðar um tíma í Reykjavík, en  hafði flutt til Stokkseyrar þegar hún lést.

Ásta Skúladóttir og Gústaf Sæland

Elín Ásta Skúladóttir (f.09.06.1947) frá Hveratúni og Gústaf Sæland (f.07.12.1945) frá Espiflöt í Reykholtshverfi keyptu Sólveigarstaði af Jóni og Jónu og hafa búið þar síðan.  Auk garðyrkjunnar, sem þróaðist úr grænmetisræktun yfir í blómarækt, ráku þau Ásta og Gústaf bensínafgreiðslu frá 1970-1998, sem varð að verslun, Verslun G. Sæland  og loks Laugartorgi 1994, en þá höfðu þau Páll M. Skúlason og Dröfn Þorvaldsdóttir í Kvistholti, komið inn í þann rekstur.  Verslunarreksturinn lagðist síðan smám saman af og var endanlega hætt 2004, en þá hafði Hlíf Pálsdóttir (sjá Sláturhúsið) rekið verslunina og bensínafgreiðsluna um hríð.

Þegar verslunin hafði verið aflögð var húsinu breytt í íbúð fyrir starfsfólk.

Í lok árs 2020 seldu Ásta og Gústaf býlið og fluttu á Selfoss.

Þau eignuðust  4 börn, sem eru: Skúli (f. 17.11.1966) býr í Reykholti, Hulda (f.10.09.1968) býr í Reykjavík, Eiríkur (f. 03.03.1973) býr í Hollandi og Guðni Páll (f. 01.09.1980) býr í Reykjavík.

Hvar eru Sólveigarstaðir?

Land: 6400 fm
Íbúðarhús 1960: 164m², 1975: 90m²

Gróðurhús um 2100 fm

uppf. 03.2021