Úr heimstyrjöld í sveitasælu

Viðtal við Renötu Vilhjálmsdóttur og Gunnlaug Skúlason

Geirþrúður Sighvatsdóttir tók viðtalið og skráði. Fyrri hluti þess birtist í Litla Bergþór í mars 2003

Fyrri hluti - Renata

Í þetta sinn eru viðmælendur Litla-Bergþórs hjónin Gunnlaugur Skúlason dýralæknir og kona hans Renata Vilhjálmsdóttir, sem búa í Brekkugerði í Laugarási í Biskupstungum. Þau Gunnlaug og Renötu þarf vart að kynna Tungnamönnum, hann hefur í vor þjónað sem dýralæknir okkar í 40 ár, lengst af sem héraðsdýralæknir og Renata hefur kennt ungum Tungnamönnum handavinnu og heimilisfræði um langt árabil.
En blaðamaður veit að þau hafa frá mörgu að segja og í tilefni þeirra tímamóta að Gunnlaugur verður sjötugur í sumar, jafnframt því að halda upp á 40 ára starfsafmæli sitt sem dýralæknir og Renata heldur upp á 40 ára dvöl á Íslandi, er bankað uppá hjá þeim hjónum einn dag seint í janúar 2003 til að fræðast um líf og starf.

Renata Vilhjálmsdóttir

Þegar blaðamaður kemur, er Gunnlaugur ekki heima, en Renata býður til stofu. Og yfir bolla af ilmandi tei eru skriffærin tekin fram og Renata spurð um uppvöxt hennar og fjölskyldu í Þýskalandi.

Jú, ég er fædd og uppalin í Berlín í Þýskalandi, fæddist 13. ágúst 1939 og þann 1. september byrjaði stríðið. Foreldrar mínir skildu áður en ég fæddist, svo ég var alin upp hjá móður minni og eftir að húsið okkar var sprengt upp, hjá móðurforeldrum.

Faðir minn hét Heinz Wilhelm Pandrick, ættaður frá Lettlandi í föðurætt og var tannlæknir og vann sem slíkur í stríðinu. Hann giftist aftur og ég á slatta af hálfsystkinum, en ég hef ekki haft mikið samband við þau. Hann dó 1968.

Móðir mín heitir Gerda Pandrick, fædd Entz og er enn á lífi, en orðin ansi gömul og býr á heimili fyrir aldraða í Berlín.

Renata og Gunnlaugur með börnum sínum. Talið f.v: Skúli, Barbara, Helga (fyrir framan), Renata, Hákon, Elín og Gunnlaugur (Mynd úr Litla Bergþór)

Renata og Gunnlaugur með börnum sínum. Talið f.v: Skúli, Barbara, Helga (fyrir framan), Renata, Hákon, Elín og Gunnlaugur (Mynd úr Litla Bergþór)

Þegar árásirnar á Berlín byrjuðu vorum við börnin í leikskólanum sem ég var í, send í búðir í Austur-Prússlandi. Mamma kom skömmu seinna á eftir mér, flúði loftárásirnar á Berlín og réði sig á búgarð í A-Prússlandi. Þar höfðum við allavega nóg að borða. Þegar rússneski herinn kom þurftum við svo að flýja frá Prússlandi. Þá flúði margt fólk til Danmerkur, en við misstum af þeim. Öllum skepnum var slátrað á búgarðinum og búnar til pylsur og þessháttar úr kjötinu, og síðan var flúið á hestvögnum. Ég man ekki margt frá þessum flótta, sem tók um hálfan mánuð, en ég man samt greinilega að við krakkarnir lágum í hálminum í vagninum og horfðum á pylsurnar dingla fyrir ofan okkur, en máttum ekki snerta þær. Mig rámar í að við fórum gegnum brennandi þorp, því fólk kveikti í öllu þegar búgarðar og þorp voru yfirgefin, til þess að Rússarnir fyndu ekkert fémætt.

Þegar við komum til Berlínar, var búið að sprengja húsið okkar og eftir það bjuggum við hjá afa og ömmu. Við vorum meira og minna í loftvarnarbyrgjum dag og nótt og það var skylda að bora göt á milli íbúða í tvíbýlishúsum, til þess að fólk gæti flúið á milli.

Berlín féll í maí 1945 og þá stóð húsið hans afa ennþá. En þegar Þjóðverjar voru að verja síðustu brúna lenti húsið okkar í skotlínunni og mér er það mjög minnisstætt að við stóðum öll á næsta götuhorni og horfðum á það hrynja eins og spilaborg. Eitt nágrannahús handan götunnar stóð eftir og þar bjuggum við 6 fjölskyldur fyrst á eftir. Aðallega börn og konur, því þeir fáu karlmenn, sem eftir voru, voru í fangabúðum. Við krakkarnir lékum mikið lausum hala, og stuttu eftir að húsið hrundi, skreið ég inn í kjallarann og gat bjargað þaðan myndum og ættartölu, sem ég á enn og er mikilsverð heimild um fjölskylduna. Það var náttúrlega hættulegt og ég var skömmuð fyrir, en það var þess virði.

Húsið þeirra afa og ömmu Renötu í Berlín. Þau bjuggu í helmingnum, sem nær er á myndinni. (Mynd úr Litla Bergþór)

Húsið þeirra afa og ömmu Renötu í Berlín. Þau bjuggu í helmingnum, sem nær er á myndinni. (Mynd úr Litla Bergþór)

Mér varð það ljóst seinna, hvað afi minn var forsjáll maður. Þegar stríðið byrjaði, gróf hann allt verðmætt, persónulega muni og frímerkjasafnið sitt í jörðu í garðinum hjá sér og þegar Berlín féll 1945 var allt gróið og slétt og Rússarnir fundu ekkert. Þeir sem grófu sitt rétt fyrir stríðslok, gátu ekki falið vegsummerkin, og Rússarnir grófu það allt upp.

Var ekki erfitt að geyma verðmæti eins og bækur og frímerkjasafn í jörðu?

Nei, það var mjög vel búið um þetta. Vaxdúkur var settur í gryfjuna og dótið sett þar í, og gert þétt áður en mokað var yfir. Daginn eftir að húsið hrundi, byrjaði afi strax að tína saman spýtnabrak og dót, sem gat nýst til húsbygginga og byrjaði að byggja upp húsið. Af því að Þjóðverjar gáfu sig ekki, fóru Rússar mjög illa með Berlínarbúa. Konur þurftu að vera í felum og ég skildi seinna hversvegna. Eitthvað í stríðsrétti segir að fyrst eftir sigur, má sigurvegarinn haga sér að vild.

Ég man eftir 7 ára strák, nágranna okkar, sem átti heyrnarlausan föður. Rússarnir mættu föðurnum á förnum vegi og heimtuðu úrið hans. En af því að hann heyrði ekki, svaraði hann þeim ekki og þá skutu þeir hann fyrir framan okkur börnin. Síðan hef ég aldrei getað séð byssur.

Eftir stríðið var Þýskalandi, ásamt Berlín, skipt í fjóra parta. Við bjuggum í NA-Berlín og lentum fyrst Rússa megin. Þegar heragi var aftur kominn á reyndust Rússarnir bara vera barngóðir. Við krakkarnir fórum þrisvar í viku að herbúðunum og stóðum þar í biðröð til að fá kannski hálfa ausu af súpu, - afganga af mat hermannanna. Þetta var svo matur fjöskyldunnar.

Það var óskaplegur skortur á öllu og fólk svalt. Ég gekk alltaf berfætt af því að skórnir voru of þröngir og ég geng reyndar berfætt enn. Er líka með þykkt sigg á iljunum! Ég átti auðvitað að ganga í skónum og lagði af stað í þeim, en um leið og ég var komin úr augsýn fór ég úr og gekk berfætt. Og það bjargaði örugglega fótunum mínum, því margir urðu bæklaðir af of þröngum skóm.

Nokkru eftir stríð skiptust Rússar og Bandaríkjamenn á borgarhlutum og þá lentum við Bandaríkja megin. Þá voru Rússar og Bandamenn enn vinir. En seinna versnaði samkomulagið eftir að Frakkar, Bretar og Bandaríkjamenn sameinuðu sína parta til að mynda Vestur-Þýskaland ásamt Vestur-Berlín með þýskt mark sem gjaldmiðil. Hlutur Rússa var þá Austur-Þýskaland og Austur-Berlín og þeir höfðu gjaldmiðilinn Austur-þýskt mark.
Stjórnvöld í Austur-Þýskalandi mótmæltu sameiningu hluta Bandamanna og lokuðu öllum samgönguæðum Vestur-Berlínarbúa til Vestur-Þýskalands. Flugmenn Bandamanna lögðu sig þá í mikla hættu til að færa Vestur-Berlínarbúum það allra nauðsynlegasta, aðallega mat, til dæmis skólamat, sem var oftast hrísgrjónagrautur með rúsinum. 
Berlínarbúar hafa sérstakan húmor og finnst gaman að uppnefna ýmislegt og kölluðu þessa loftbrú Bandamanna „Rúsínubombuna".

Þann 17. júní 1956 varð uppreisn í Austur-Berlín, þar sem margt saklaust fólk fórst, meðal annars tveir úr mínum skóla. En Múrinn var ekki reistur fyrr en 1961. Afi náði að hrófla upp húsinu fljótlega eftir stríð, en það var mjög gisið og ég man að okkur krökkunum fannst mjög spennandi að fylgjast með samtölum fullorðna fólksins, því allt heyrðist milli herbergja.
— Þegar afi hafði komið upp veggjunum, vantaði þakið, og þá loks fór hann og gróf upp fjársjóðinn í garðinum. Seldi hann 3 frímerki úr safninu sínu, marg-yfirstimpluð frímerki frá Danzig, sem tilheyrði ýmist Þjóðverjum eða Pólverjum í stríðinu. Þau voru mjög verðmæt, og fyrir andvirði þeirra keypti hann timbur í þakið. Síðan hef ég safnað frímerkjum!

Í stríðinu höfðum við oft ekki nóg að borða, en eftir stríðið var mesti sulturinn. Ég man að þegar ég varð 6 ára, óskaði ég mér í afmælisgjöf, að mega borða mig sadda af brauði. Fjölskyldan safnaði matarmiðum til að verða við þessarri ósk minni, en svo þoldi ég ekki brauðið og kastaði því upp. Sá ég alveg óskaplega eftir því að fara svona illa með matinn.

Á þessum árum var ég orðin svo horuð að ég var send ásamt fleiri börnum, á vegum Rauða krossins, til Skandinavíu. Móðir mín hafði verið skiptinemi í Svíþjóð fyrir stríð og í stríðinu fengum við svokallaða „carepackets" eða matarpakka frá Skandinavíu. Ég fékk því leyfi til að fara til „fósturforeldra" móður minnar í Svíþjóð og flaug frá Berlín rétt eftir jól 1948, með einni „Rúsínubombunni", og lenti fyrst í Hamborg. Þar sá ég fyrst rafmagnsljós á ævinni og fékk alveg ofbirtu í augun. Næsta dag var ég sett upp í lest með spjald um hálsinn,- 8 ára stelpan, - og sagt að fara ekki út úr lestinni, fyrr en einhver kæmi að sækja mig inn í hana.
Fósturforeldrarnir tóku á móti mér í Stokkhólmi og var ætlunin að ég yrði þarna í 3 mánuði, en þeir urðu 9. Fyrir voru 5 börn í fjölskyldunni, svo ég var sjötta barnið og varð eins og ein úr fjölskyldunni. Elsta dóttirin var 12 ára og var þá að byrja að læra þýsku í skóla. Á hverjum degi, í öllum veðrum, hjóluðum við einn og hálfan tíma í skólann og til baka vorum við 2 tíma, því þá þurftum við að hjóla upp í móti. Ef mikill bylur var vorum við keyrð, en það var alveg í undantekningar tilfellum, því þá þurfti að sækja okkur aftur. Þegar ekki var skóli, vorum við sett út á morgnanna og máttum ekki koma inn fyrr en kl 5, en þá var matur. Um hádegið var okkur fært snarl úti, annars vorum við úti að leika okkur allan daginn.

Talið frá vinstri: Renata, Gunnlaugur, Ella amma, Kurt afi og Gerða móðir Renötu. Myndin er tekin í Berlín. (Mynd úr Litla Bergþór)

Talið frá vinstri: Renata, Gunnlaugur, Ella amma, Kurt afi og Gerða móðir Renötu. Myndin er tekin í Berlín. (Mynd úr Litla Bergþór)

Þegar ég kom til baka til Þýskalands um haustið, var ég altalandi á sænsku en búin að gleyma þýskunni. Ég talaði því sænsku við móður mina, sem skildi mig, en hún svaraði mér á þýsku. Ég skildi auðvitað þýskuna þó ég talaði hana ekki strax. Ég var samt sett strax í minn rétta bekk, og sennilega þess vegna náði ég aldrei að læra þýsku málfræðina í grunnskóla og það háði mér alla mína skólagöngu, þótt ég kæmist vel í gegn um hana að öðru leyti. 
Í 5. bekk byrjuðum við að læra ensku. En þegar Bandaríkjamenn komu, settust þeir að í húsunum sem óskemmd voru í hverfinu, og þar lærðum við börnin ameríska „tyggjó-ensku". Það fór lítið fyrir Oxfordenskunni!

Að stríði loknu giftist móðir mín aftur og voru þau ár svart tímabil í lífi mínu. Drykkjuskapur stjúpa míns með andlegu og líkamlegu ofbeldi var erfitt og líklega hefði ég farið miklu verr út úr þessu, hefði ég ekki oft getað forðað mér til afa og ömmu á neðri hæðinni.
Ég átti þessi ár eina stjúpsystur, til 1953, en þá flutti stjúpi minn til Kanada og dóttir hans hálfu ári seinna. Hef ég ekki hitt hana síðan og veit ekki hvað um hana varð. Móðir mín mátti líka flytja til hans, en ekki ég, svo það varð aldrei úr því að hún flytti. Kom reyndar aldrei til greina. Móðir mín vann lengst af sem endurskoðandi í tryggingafyrirtæki og þá var ég mikið hjá afa og ömmu á meðan. Og einu sinni fór ég til pabba í mánuð eftir að hann kom úr stríðinu. Annars má segja að ég hafi komist vel í gegnum stríðið miðað við mörg önnur börn sem ég þekkti eða voru samtíma mér í skóla. Það voru margir, sem fóru illa.

En þar skipti mestu held ég, að ég hafði alltaf móður mína hjá mér og svo þetta góða samband við afa minn og ömmu. Afi minn var ekta „Prússi", réttlæti, hlýðni, stundvísi, heiðarleiki og reglusemi voru í heiðri höfð. Amma var aftur á móti mikill „diplomat", mjög geðgóð og spaugsöm. Dugnaðurinn einkenndi þau bæði.
Það er því engin furða að ýmislegt í mínu fari þykir mjög þýskt, þrátt fyrir 40 ára dvöl á íslandi. En vinafólki mínu í Þýskalandi finnst ég aftur á móti vera mikill Íslendingur!

Það hefur stundum verið erfitt að vera svona „tvískipt" og hafa hvergi fastar rætur og sjaldan tækifæri til að rifja upp bernskuminningar með öðrum. Þó hef ég alla tíð verið í miklum bréfasamskiptum við ættingja og vini, sem auðveldar öll samskipti þegar við hittumst. Flestir vita þá það helsta og við getum strax spjallað saman um það, sem skiptir máli þá og þá stundina. - Annars er ævi mín hér á fslandi „skrásett" í vikulegum bréfum mínum til mömmu minnar, sem hefur geymt þau öll. Þau eru líkast til efni í margar bækur! 

Hvernig varð þitt líf og skólaganga í framhaldi af stríðinu?

Berlín var þröngur heimur á þessum árum, þó múrinn væri ekki kominn. Og í þessum heimi var Skandinavía mitt áhugamál. Sumarið 1955, þegar ég er 15 ára, kom elsta dóttirin í sænsku fósturfjölskyldunni minni til okkar sem skiptinemi í sumarleyfinu og í fjögur sumur eftir það, 1955 til 1959, fór ég til Svíþjóðar í sumarfríum í 6 vikur. Grunnskólinn var þá 4 ár og í 5. bekk byrjuðum við í menntaskóla 11 ára. Stúdentsprófi lauk ég svo 19 ára. Ég var mikið í íþróttum, aðallega sundi, frjálsum íþróttum og blaki og keppti töluvert.
Ég þakka móður minni það að ég fékk mikið að fara í leikhús. Þótt hún ætti aldrei aur, tókst henni samt alltaf að senda mig í leikhús.
I skólanum tók ég svo við skólablaðinu og var ritstjóri þess í 4 ár og fékk þá blaðamannapassa. Með hann í höndunum komst ég ókeypis inn á allar sýningar og á tónleika. Var öll kvöld í menningarlífinu. Sem betur fer átti ég létt með að læra, svo það bitnaði ekki svo mjög á skólanum. Svo söng ég líka í kórum, man að ég fór fyrst í barnakórinn í kirkjunni, bara af því að þar fékk maður brauð með sultu! Það var íþróttakennari minn, sem benti mér á að læra það sem þjóðverjar kalla „Technische Lehrerin" eða tæknilegur kennari. Þá kennir maður íþróttir, handmennt, myndmennt, tónlist og heimilisfræði. Og það varð til þess að ég fór til Hannover í kennaraháskóla, (Padagogische Hochschule) í 3 ár. 1959- 1961.

Og þar kynntist þú Gunnlaugi?

Já, við Gulli kynntumst á fyrsta árinu mínu í Hannover, á jólaballi, sem var haldið fyrir jólin, en hann var í dýralæknanáminu þar.

Vinkona mín hafði dregið mig með sér á ballið, og eins hafði vinur Gulla dregið hann með sér. Við höfðum sést í mötuneytinu áður, en ekkert talað saman. En þarna sá ég hann í hópi 5-6 stelpna og var að virða hann fyrir mér, þegar hann lítur á mig, gengur svo til mín og býður mér upp í dans. „Þekkjumst við?" spurði hann og ég svara: "Nei, en það gæti komið að því!" Og það gekk eftir!

Renata og Gunnlaugur á trúlofunardaginn (mynd úr Litla bergþór)

Renata og Gunnlaugur á trúlofunardaginn (mynd úr Litla bergþór)

Nú, svo stunduðum við bæði okkar nám og höfðum lítinn tíma fyrir hvort annað. Við trúlofuðum okkur samt 1960 og ég hafði það val að koma með Gunnlaugi til Íslands. Ég ákvað að líta á það og fór með Gulla þegar hann fór heim til Íslands í praktikum (verknám) hjá móðurbróður sínum, Jóni Pálssyni á Selfossi, 1961. Ég valdi ég af ásettu ráði versta tíma ársins til að kynnast Íslandi!

Við komum til Íslands 13. febrúar 1961, man ég, og við vorum hér í 2 mánuði.

Fyrsta daginn í Reykjavík dvöldum við hjá föðursystur Gunnlaugs, Guðrúnu Briem og þar var ég strax klædd í íslenskan skautbúning. - Getur nokkur fengíð hlýlegri móttökur?! Og þessa fyrstu daga á Íslandi kynntist ég flestum úr föður- og móðurætt Gunnlaugs, t.d. bræðrum Skúla, þeim Inga og Steindóri og einnig systrum Valgerðar, þeim Láru, Ingibjörgu, Sigurbjörgu, Kristínu og bræðrunum Stefáni og Sigsteini og þeirra fjölskyldum.

Síðan bjuggum við hjá Jóni bróður hennar á Selfossi, og þar kynntist ég sonum Jóns, sérstaklega Óla og konu hans Hugborgu og þeirra strákum. Voru þessi fyrstu kynni upphaf vináttu, sem hefur haldist síðan.

Í skautbúningnum (mynd úr Litla Bergþór)

Selfoss var þá lítill bær, bara kaupfélagið, bíó og búið, liggur við. Reyndar voru tvær aðrar búðir þarna, símstöð, Tryggvaskáli, og svo skóli og sundlaug. Jón tók mig í smá útsýnisferð um Selfoss og nágrenni en annars var lítið við að vera. Gunnlaugur alltaf í burtu í vitjunum. Þarna lærði ég samt strax að búa til lystar- og súrdoðaskammta og skrifa á hvern pakka með 5 skömmtum í: „1 skammtur á dag, leyst upp í mjólk eða vatni". Það kom sér vel síðar að kunna það!

Einnig fór ég stundum með Gulla í vitjun, en hann var ekki sérstaklega hrifinn af því. Þá var okkur nefnilega ávallt boðið inn í kaffi, - inn í stofu með fínasta stellinu.- Og þetta tók allt of langan tíma fannst Gunnlaugi! Ég dáðist mikið að „Hnallþórunum", sem íslenskar húsfreyjur báru á borð. Þó að ég væri háskólagengin í heimilisfræði, hafði ég aldrei kynnst slíku í Þýskalandi.

Áslaug Stephensen, kona Jóns var mikil búkona og kenndi mér íslenska matargerð. Reyndar fékk ég engar praktiska reynslu, heldur bara frásögn um slátur-, kæfu- og sviðasultugerð.

Ég talaði náttúrlega enga íslensku, í Þýskalandi töluðum við alltaf þýsku saman við Gunnlaugur. Það eina sem ég kunni í íslensku var vísan sem byrjar svona: „Löngum var ég læknir minn, lögfræðingur prestur," og svo nokkur smáorð eins og já, nei, sæll og bless.

Og svo fórum við saman í Bræðratungu. Ef ég hefði verið hjátrúarfull, hefði ég aldrei sest að í þessu landi. Hjá Áshildarmýri á Skeiðum var ég að dásama sólarroðann og rétt á eftir skall á þreifandi blindbylur. Sáum ekki vegkanntinn eða neitt. Svo villtist Gulli og ég gerði auðvitað grín að honum fyrir að rata ekki heim til sín. En þá hafði Iðubrúin komið meðan hann var úti í námi og hann þekkti ekki nýja veginn. Hjá Galtalæk vorum við alveg stopp og þurftum að klofa snjóinn í læri heim í Tungu. Og þar var ég skilin eftir, meðan Gulli fór aftur í sitt praktikum á Selfossi!

Eina hjálpin var þýsk-íslensk orðabók, sem Páll, bróðir Gulla, tróð undir arminn á mér og sagði að gæti komið sér vel. Valgerður talaði bara íslensku og með hjálp orðabókarinnar gátum við aðeins skilið hvor aðra. Skúli skildi eitthvað í dönsku og ég hafði sænskuna mína. Svo voru Gunna og Skúli, börn Sveins og Sigríðar, að byrja að læra að lesa í skóla og las ég með þeim, t.d. Gagn og gaman.

Í Tungu var ég í viku og það er held ég harðasta námstímabil ævi minnar! Ég var með hausverk af einbeitingu allan tímann. En þar, og á Selfossi, lærði ég mesta íslensku af börnunum og ég ákvað að læra íslensku af ævintýrabókum. Hafði mikið fyrir að útvega mér Grimms-ævintýrin. Og þegar við fórum aftur út í apríl, gat ég sagt það helsta á íslensku. - Af Jóni Pálssyni hafði ég lært að bölva! Það var eitt það fyrsta sem ég lærði! En ég man að ég hafði samt ekki lært að segja „ég er södd" og var alltaf í vandræðum þegar okkur Gulla var boðið í kaffi og það voru bornar á borð 10 sortir af kökum og alltaf verið að bjóða manni meira!

Eitt það eftirminnilegasta frá fyrstu Íslandsdvöl minni var samt hestamannaball í samkomuhúsinu á Vatnsleysu. Þegar ég kom fram prúðbúin klukkan 6 var allt heimilisfólk í Tungu enn í vinnufötunum og ég var því viss um að hafa misskilið eitthvað. Var þreytt og ætlaði að fara að sofa, þegar loksins var lagt af stað. Þegar við svo komum eftir langa keyrslu, að því er mér fannst, sátu allir við kaffidrykkju og var mikill kliður í salnum. En þegar við birtumst snarþögnuðu allir. Fólk þjappaði sér saman svo að við gætum sest og svo voru okkur réttar kökur úr ýmsum áttum, þannig að borðið fyrir framan okkur var hlaðið. Ég frétti seinna að það höfðu allir beðið með eftirvæntingu eftir því að Gunnlaugur birtist með kærustunni svo ég var þarna einskonar „stjarna" kvöldsins án þess að vita það!

Þarna var sýnt úr Skugga-Sveini, og sungið. Svo voru kaffiborðin tekin upp, konur settust við aðra hlið salarins og karlar við hina. Ég dansaði m.a. við Hárlaug Ingvarsson, sem talaði við mig allan tímann og ég sagði: „já" eða „nei", eftir því sem mér fannst passa, en skildi ekki neitt! Eitt af því, sem ég tók sérstaklega eftir, var hvað karlarnir hreyfðu sig sérkennilega á bekkjunum. Þeir voru þá víst að staupa sig, en það mátti ekki sjást.

En neftóbakið sást í stórum röndum eftir endilöngu handarbakinu og þá list að draga þetta allt upp í nasirnar, hef ég ætíð undrast síðan! Leist mér illa á dökka straumana, sem fylgdu á eftir og voru þurrkaðir í tóbaksklúta, og setti Gunnlaugi þau skilyrði að ef ég ætti að giftast honum, mætti hann aldrei taka svona í nefið! - Hann stelst nú samt til þess af og til, en gerir það samt hóflega!

Á giftingardaginn (mynd úr Litla Bergþór)

Þau skjöl, sem þarf til að giftast í Þýskalandi, þekktust ekki einu sinni á Íslandi, svo við giftum okkur daginn fyrir brottför okkar frá Íslandi, 13. apríl 1961 hjá borgardómara að Laugavegi 13. Þar þurfti bara vegabréf og vottorð um að maður væri ekki þegar giftur. Vígsluvottar okkar voru föðurbróðir Gunnlaugs, Halldór frá Kiðjabergi og sonur föðursystur hans, Gunnlaugur Briem og án nokkurs fyrirvara tókst Góu, konu Gunnlaugs, líka að halda smá brúðkaupsveislu. Síðan játuðumst við hvort öðru í annað sinn í kirkju um leið og Barbara var skírð úti í Þýskalandi.

Þegar við komum út aftur til Þýskalands, tók við að klára námið og æfingakennsla. Svo fæddist Barbara í september 1961 og þá hætti ég kennslu. Við bjuggum í úthverfi Hannover og þar má segja að ég hafi lært dýralækningarnar með Gulla, því ég var alltaf að hlýða honum yfir.

Gunnlaugur þurfti svo að taka annað „praktikum" í Bremen og á meðan fór ég með Barböru til Berlínar. Við sáumst því ekki í 3 mánuði, en þá var ekki verið að hringja eða skreppa í heimsóknir að óþörfu.

Og síðan fluttuð þið til Íslands?

Með Barböru á fyrsta ári. (mynd úr Litla Bergþór)

Já, við fluttum 5. apríl 1963 til Íslands. Eftir þennan fyrsta prufutíma á Íslandi, 1961, gat ég vel hugsað mér að flytja, því mér hafði í raun verið vel tekið og ég þekkti sveitalífið frá gamalli tíð. Einnig vissi ég eftir þá dvöl, - af því að ég hafði farið með Gulla í vitjanir, - að hann var dýralæknir af lífi og sál, en ekki að sama skapi rannsóknarmaður. Á Íslandi biðu bændur eftir slíkum dýralækni, en í Þýskalandi var lítil eftirspurn eftir almennum dýralæknum. Vinir mínir sögðu reyndar allir að ég yrði komin aftur eftir 6 mánuði, en þeim varð ekki að ósk sinni! En þetta var rosalegt stökk.

Í Bræðratungu. F.v. Elín og Barbara Gunnlaugsdætur, Guðrún Sveinsdóttir, Valgerður með Stefán Sveinsson, Kjartan Sveinsson, Sigríður með Helgu Gunnlaugsdóttur og Skúli Sveinsson lengst til hægri. (mynd úr Litla Bergþór)

Við höfðum ekkert húsnæði, sváfum í stofunni í Bræðratungu, ég í sófanum og Gunnlaugur á tveim stólum með bretti og dýnu á milli. Stofan var laus frá kl 11 á kvöldin, því Skúli var jú oddviti og það voru oft gestir. Og milli 7 og 8 á morgnanna þurftum við að vera búin að rýma stofuna aftur. Ég hafði í raun ekkert fyrir sjálfa mig nema barnið mitt og það voru mikil viðbrigði eftir að hafa í tvö ár hugsað um allt fyrir okkur Gunnlaug úti í Þýskalandi. Svo var ég ólétt af Helgu og Barbara var oft veik, þoldi illa umskiptin svo þetta var erfiður tími. En á tíma mínum í Tungu kynntist ég samt saumaklúbbskvöldunum með Dísunum þrem í Ásakoti, á Króki og í Borgarholti, þeim Siggu og Valgerði í Tungu, Jónínu á Hvítárbakka, Jensínu á Galtalæk, Eygló og mömmu hennar í Ásakoti og Magnhildi á Drumboddsstöðum. Þar kepptist hver við aðra í handverki og kræsingum á kaffiborðinu og þær gátu talað heil ósköp án þess að líta upp frá vinnunni. Þó að ég skildi oftast ekki neitt leið mér vel þar, líklegast af því að mér var tekið sem einni af þeim.

Víðigerði (mynd úr Litla Bergþór)

Við komum semsagt heim í apríl og í september fengum við inni í Víðigerði, en það var leigt út sem sumarhús. Ég átti von á mér 11. september og við vorum rétt komin inn, en ekki búin að taka upp úr kössunum, þegar vatnið fór.

Þegar Gunnlaugur kom til landsins voru aðeins 8 dýralæknar á landinu og var hann þá m.a. líka settur dýralæknir í Reykjavík. Hann var því aldrei heima og ég bjó þarna með mín tvö börn, og það var ekki pakkað upp úr kössunum fyrr en fyrir jólin 1963. En ég var mjög glöð að koma í Víðigerði, því þar var svo mikill trjágróður.

Mér fór líka mikið fram í íslenskunni í Víðigerði, því í húsinu bjó líka Stína, sem var trúlofuð Leifi, bróður Gúlla á Brú, og við töluðum mikið saman.

Reykholt var þá selskaps- og menningarstaður sveitarinnar eins og nú, og saumaklúbbar þar jafn sjálfsagðir og annarsstaðar. Þar var ég í klúbbi með Helgu í Birkilundi, Steinunni í Aratungu, Kristrúnu á Brautarhóli, Huldu á Espiflöt og svo vorum við Stína. Ég man ekki eftir fleiri konum sem bjuggu þar þá. Valgerður tengdamóðir mín kom mér fljótlega í Kvenfélagið og þar kynntist ég svo flestum konum sveitarinnar. Þá var mikið unnið í Aratungu, allt bakað þar og svo auðvitað veitingasalan. Námskeiðshald var í höndum heimakvenna, það var sungið og leikið og svo voru haldnar hlutaveltur, basarar og fleira til fjáröflunar.

Þá var líka sjálfsagt að vera í Ungmennafélaginu og ég keppti m.a. fyrir þá í sundi. Einu sinni var ég fárveik daginn fyrir keppni, en Hanna á Iðu og Sirrý Sæland fundu ráð við því. Ég var sett í heitt bað, látin drekka 1/2 1 af rauðvíni, síðan vafin í handklæði og lögð undir margar sængur. Ég svitnaði svo mikið að það þurfti að skipta oft um handklæði, en síðan sofnaði ég vel, og gat keppt daginn eftir í Hveragerði!

Um vorið komu leigjendurnir aftur og þá fluttum við í gamla Barnaskólahúsið. Bragi Steingrímsson, sem var dýralæknir á undan Gunnlaugi, bjó þá enn í Launrétt með sín börn, þótt Gunnlaugur væri orðinn héraðsdýralæknir, og við höfðum ekki brjóst í okkur að henda honum út.

Launrétt 1 (mynd úr Litla Bergþór)

En 23. september 1964 fluttum við svo loks í Launrétt. Ég man það, því það var daginn fyrir eins árs afmæli Helgu, sem fæddist 24. sept. 1963. Launréttin var reyndar alls ekki íbúðarhæf þegar við fluttum inn. Bragi hafði flutt inn í húsið hálf frágengið, svo það var aldrei klárað. Í því voru alkalískemmdir, það var ómálað og hriplekt. Eina íbúðarhæfa, þ.e. þurra herbergið, í húsinu var eldhúsið. Ekkert kalt vatn var í húsinu, það þurfti því að kæla heita vatnið til að hægt væri að nota það til allra almennra nota. Ég held að besta jólagjöf, sem ég hef fengið var þegar kalda vatnið kom fyrir jólin 1964. Þá var búið að byggja sláturhúsið og þess vegna var lagt kalt vatn í Laugarás.

Eftir langa mæðu fengum við svo loks verkamenn til að gera við verstu skemmdirnar á húsinu, en það tók mörg ár að koma því í gott lag.

Ég hafði nóg að gera þessi ár. Fyrir utan það að vera móðir, - en Elín fæddist 1965 og þá voru börnin orðin þrjú, — var ég ráðskona fyrir verkamenn og afgreiddi í apótekinu. Gulli var lengst af héraðsdýralæknir á Skeiðum, í Grímsnesi, Þingvallasveit, Gnúpverja- og Hrunamannahreppi fyrir utan Biskupstungurnar. Svæðið var ca. 50 km radius um Laugarás og vegir mjög svo bágbornir og seinfarnir. Hann var á vakt allan sólarhringinn, alla daga vikunnar og stundum var hann svo þreyttur að ég setti börnin í skottið og keyrði hann í næstu vitjun, svo að hann gæti sofið á leiðinni. Oft þurfti ég að vera „aðstoðardýralæknir" og hjálpa t.d. við keisaraskurð eða geldingar á hestum. En mest var ég í því að afgreiða lyf. Kannski hef ég í gegnum árin búið til lysta- og súrdoðaskammta í tonnatali og blandað heil ósköp af snefilefnablöndu, sem var þá allra meina bót. Þannig kynnist ég flestum bændum í héraðinu og „sameining sveitarfélaga" er ekkert nýtt í mínum augum og mér finnst sjálfsagt að hagræða.

Oft var ég beðin um góð ráð, - hvað hægt væri að gera þangað til Gulli kæmi. - Einu sinni var ég svo uppgefin þegar Sveinn á Drumboddsstöðum hringdi í 3. eða 4. skipti og kvartaði yfir því að „kýrin gæti hvorki lifað né dáið", að ég spurði hann hvort hann hefði reynt að skera af henni hausinn? Sveinn tók þessu vel og alltaf síðan tók hann fram, áður en hann spurði mig ráða, að hann væri búinn að reyna að skera af henni hausinn!

Bændum þykir alltaf sjálfsagt að ég þekki þá á röddinni. Einu sinni hringdi bóndi og bað um Gulla og ég vildi vita hver hann væri. En í staðinn fyrir að segja til nafns lýsti hann gamla sveifarsímanum sínum svo vel, að ég vissi að það gat enginn annar verið en Erlendur í Dalsmynni.

Þangað til sjálfvirki síminn kom 1981 var símasamband frá kl 8 á morgnanna til 8 á kvöldin í gegnum símstöðina í Aratungu og margir á sömu línu. Stundargaman margra var að hlusta á símtöl annarra. Við Margrét á Miðhúsum töluðum oft saman á þýsku og gerðum það svo af skömmum okkar að kasta inn nöfnum væntanlegra hlustenda, þó svo að við værum að tala um allt annað en þá. Ef við fundum ekki orðin á þýsku, eins og t.d. „brúsapallur", notuðum við bara íslensku orðin og þá gleymdum við okkur stundum og vorum allt í einu farnar að tala íslensku án þess að taka eftir því sjálfar.

Svo fór ég strax að rækta. Við fengum ráðgjöf hjá Óla Val, sem sá bara leirmold og útrænu og sagði að við gætum gleymt trjárækt á þessum stað. En á lóðinni var ein lítil kræklótt birkihrísla og ég fékk leyfi hjá Gunnlaugi til að kaupa 15 trjáplöntur. Eitthvað „heyrði ég illa" því ég fór og keypti 150 plöntur af öllum gerðum. Þegar ég kom með þetta heim horfði Gunnlaugur bara á mig og spurði hvernig ég ætlaði að fara að því að koma þessu öllu í jörðina. Það var vor og mikið að gera hjá Gunnlaugi, svo ekki fékk ég hjálp hjá honum. En krakkarnir hjálpuðu mér, báru skít í holurnar með berum höndunum og um miðnættið kom Gunnlaugur kannski heim og hjálpaði eitthvað til.

Reyniber tíndi ég í Bræðratungu, hakkaði þau í hakkavél, blandaði hænsnaskít saman við og sáði. Það komu upp plöntur í 5 ár úr þeirri sáningu. Svo fékk ég ónýt birkifræ og gat priklað úr þeim. Og þannig óx skógurinn í kringum Launrétt. Ég skal segja þér, að best er að færa grenitré 3-4 sinnum, því þá vaxa þau hægar og það er gott fyrir framtíðina.

Skógrækt er eitt af áhugamálum mínum, fyrir utan landið í heild, en við komum kannski að því seinna.

5 ættliðir: Elín, Ella amma með Egil Bjarnason, Gerða móðir Renötu og Renata. (mynd úr Litla Bergþór)

Næstu nágrannar mínir hér í Laugarási voru þau Grímur læknir og Gerða og hafði ég aðallega samband við Gerðu útaf börnunum. Ég hafði þá lært nógu mikið í íslensku til þess að vita að ég átti ekki að læra íslensku af henni! En svo kynntist ég fljótlega öðrum Laugarásbúum, eins og Skúla og Guðnýju í Hveratúni, Jóni Vídalín á Sólveigarstöðum, Ingibjörgu og Herði í Lyngási, Fríði og Hjalta í Laugargerði, Jónu og Guðmundi á Lindarbrekku, Helga Indriðasyni og Guðnýju Guðmundsdóttur í Laugarási, Iðufólkinu, prestshjónunum sr. Guðmundi Óla og frú Önnu og Maríu og Birni í Skálholti og fleirum.

Þú fórst fljótlega að kenna var það ekki?

Í réttum 1992
(mynd ur Litla Bergþór)

Jú, fyrstu kennsluna fékk ég fljótlega eftir að ég kom til Íslands, eftir að ég átti Helgu. Kenndi leikfimi hjá Kvenfélaginu og handmennt í Reykholtsskóla, í námskeiðsformi.

Ég kenndi þar til bömin voru orðin fjögur, en Skúli fæddist 1968. Síðan liðu fjögur ár þar til Hákon fæddist 1972.

Árið 1974 fór ég svo að kenna í Skálholtsskóla, handmennt og þýsku. Ég sagði fyrst nei við sr. Heimi Steinsson, sem þá var rektor Skálholtsskóla, sagðist ekki kunna neina þýska málfræði. En hann gaf sig ekki og það varð úr að ég fór að kenna og lagðist þá í fyrsta sinn yfir íslenska og þýska málfræði. Þá fann ég út að ég kunni alls ekki nógu góða íslensku og lofaði sjálfri mér því að opna ekki munninn framar. En allir vita, sem þekkja mig, að mér hefur ekki tekist það! - Alla mína íslensku hafði ég lært af því að hlusta og lesa, það var enginn sem leiðrétti mig.

Svo talaði ég alltaf þýsku við bömin. Af því að ég er einbirni, vildi ég ekki gera móður minni, afa og ömmu það, að þau gætu ekki talað við barnabörnin sín. Mér gekk ágætlega að tala þýsku við börnin, sérstaklega eftir að ég fékk Au-pairstúlkur frá Þýskalandi. - En meðal þeirra er Barbara (Bella), sem nú býr á Syðri-Reykjum. - Þegar Barbara mín byrjaði í skóla fékk ég samt gagnrýni, vegna þess að hún var illa læs og því kennt um að ég talaði við hana þýsku. Hún var sennilega lesblind, en það var ekki skilgreint þá. Ég sagðist þá eiga tvö böm heima, sem væru orðin læs, þótt þau væru ekki byrjuð í skóla.

Nú, í Skálholti kenndi ég í 8 ár, til 1982, árið eftir að sr. Heimir hætti sem skólastjóri. En þá stóðum við í byggingaframkvæmdum. Gáfum sjálfum okkur það í afmælisgjöf, þegar Gunnlaugur varð fimmtugur, að flytja í eigið hús. Ég teiknaði húsið eins og ég vildi hafa það. Ég vildi til dæmis ekki hafa mikla ganga. Og svo teiknaði Guðmundur Magnússon á Flúðum það upp á löglegan hátt. Marteinn byggingafulltrúi vildi samt að ég kvittaði undir teikninguna, sem arkitekt.

Brekkuugerði (mynd úr Litla Bergþór)

Árið l981 byrjuðum við á byggingunni, það var grafið fyrir því í júní, og um haustið var það fokhelt. Meðan við vorum að flytja í húsið sleppti ég að kenna í eitt ár, en fór svo að kenna aftur haustið eftir, 1983, og hef kennt samfleytt í Reykholtsskóla síðan. Hafa handmennt og heimilisfræði verið mín aðalfög.

Ég veit að þú átt þér mörg áhugamál.

Garðskálinn í Brekkugerði (mynd úr Litla Bergþór)

Jú, fyrir utan ræktun í stórum og smáum stíl og dýr og þá sérstaklega hesta, þá er Ísland mitt aðal áhugamál. Við höfum ferðast um allt land, bæði með Ferðafélagi Íslands og Náttúrufræðifélaginu, og svo á eigin vegum á bíl, hestum og gangandi. Við höfum alltaf haft að markmiði að skoða eitthvað af landinu í sumarleyfunum og þannig komið á flesta staði.

Ekki þó til Grímseyjar" skýtur Gunnlaugur inní, sem nú er kominn heim.

Nei og ekki á enda Langaness og ekki á Horn.

Síðan ég byrjaði að vinna sem leiðsögumaður á sumrin hefur samt ekki gefist eins mikill tími til einkaferðalaga eða fyrir hestamennskuna. Krakkarnir voru lengi með hesta og nú eigum við eina 6 hesta.

Hvenær gerðist þú leiðsögumaður?

Ég fór í leiðsögumannaskólann árið 1993 og tók fyrir leiðsögn um Suðurland. Síðan bætti ég við, árið 1995, háfjallaleiðsögn og gönguleiðsögn fyrir allt landið. Fyrst tók ég bara nokkra túra á sumri, en síðustu 8 árin hef ég verið í fullri vinnu við þetta á sumrin.

Er eitthvert ferðalag þér öðru minnisstæðara?

Mér er til dæmis minnisstætt þegar við náðum að fara hringveginn, í raun áður en hann var opnaður. Við fórum með börnin og hjólhýsi hringinn, norður og austur, að Skaftafelli. Lengra komumst við ekki á bílnum, svo við sendum hjólhýsið á báti frá Höfn í Hornafirði til Reykjavíkur, börnin voru sett upp í flugvél og send til frændfólks í Reykjavík, en sjálf fórum við á dýralæknaþing á Hornafirði.

Varðandi önnur áhugamál, hef ég haft mikla ánægju af söng og fór fljótlega að syngja með Skálholtskórnum undir stjórn Róberts A. Ottóssonar. Það væri hægt að segja frá mörgu í sambandi við kórinn, en hann verður einmitt fertugur á þessu ári og það væri nú tilvalið að skrifa sögu hans í LitlaBergþór að því tilefni.

Svo fórum við Hjalti, Fríður og Ásta í mörg ár í Árnes til að syngja í Árneskórnum undir stjórn Lofts S. Loftssonar. Þar söng fólk úr mörgum hreppum saman og skemmti sér konunglega. Fórum í söngferðir um landið og eina til norður-Noregs. Kórsöngur er dásamlegt tjáningarform og þar ber ekki svo mikið á því þótt einhver syngi ekki með alveg hárréttum íslenskum hreim.

Í mörg ár gáfust fáar frístundir og þá vandist ég á að nota hverja sekúndu, jafnvel tvöfalt. Ég hlusta mikið á allslags tónlist, en mest á klassísk verk og ég sakna þess alltaf að hafa ekki meira af lifandi menningarsamkomum nær mér, eins og á uppvaxtarárunum.

Bóklestur var lengi ekki mögulegur, það var svo margt annað um að vera og mörgu að sinna. Nú tek ég mér bók í hönd, en hef alltaf smá samviskubit ef ég geri það fyrr en á kvöldin.

Ég hef unun af allslags handavinnu og vinn oftast í skorpum, svo sem útsaum, batik, leður, vefnað, leirvinnslu, teiknun o.s.frv. Áður fyrr saumaði ég allt á krakkana, en nú eru prjónarnir ætíð innan seilingar til að gera eitthvað gagnlegt á meðan ég hlusta eða horfi á sjónvarp, eða sit sem farþegi í bíl. Því miður get ég ekki prjónað á meðan ég sit og er leiðsögumaður í rútu. Ég er í Þingborgarhópnum, þó að ég hafi nú aldrei skarað fram úr þar.

Þrjár konur úr þýska saumaklúbbnum: Renata, Gerða frá Flúðum og Ellinor á Seli. Myndin er tekin 1975. (mynd úr Litla Bergþór)

Zontaklúbbur Selfoss, sem er einn af 6 starfandi Zontaklúbbum á Íslandi, hefur í áratugi verið minn félagsvettvangur og er ég nú varaformaður. Tek við formennsku í maí, í annað sinn á félagstíma mínum þar. Zontahreyfingin er alþjóðleg hreyfing kvenna til að hjálpa konum um allan heim, sérstaklega í þriðja heiminum, en líka á Íslandi. Markmiðið er að efla skilning, samhug og frið í heiminum. Nú helgum við Zontakonur á Íslandi krafta okkar konum sem lifa við ofbeldi og vinnum með Stígamótum.

Nú, svo höfum við þýska fólkið hér í nágrannasveitunum félag og hittumst oft og eins tökum við þátt í þýsk-íslenska vinafélaginu á Suðurlandi.

Eins og komið hefur fram eigið þið Gunnlaugur 5 börn. Segðu mér nánar frá þeim og hvað þau gera.

Stórfjölskyldan í garðinum í Brekkugerði (mynd úr Litla Bergþór)

Elst er Barbara, þroskaþjálfi í Berlín. Hún er í sambúð með Tomas Schwarzlose, doktor í efnafræði og þau eiga 2 börn, Valgerði Aniku f. 2000 og Kjartan Tobias f. 2002. Hún fór út til Þýskalands strax eftir stúdentspróf og það hefur verið ómetanlegt fyrir móður mína að hafa hana þarna úti og fyrir mig að vita af henni þar, sérstaklega núna eftir að móðir mín er orðin gömul og ófær um að hugsa um sig sjálf.

Næst er Helga, doktor í matvælaverkfræði, sem hefur unnið hjá Iðntæknistofnun í Reykjavík, en er nú um þessar mundir að hefja störf sem deildarstjóri á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins að Skúlagötu 4. Hún er gift Óskari Þór Jóhannssyni doktor í krabbameinslækningum og þau eiga líka 2 börn, Kristínu, f. 1992 og Daníel f. 1999.

Þriðja í röðinni er Elín, tónskáld, nýbúin að ljúka 8. stigi í söng og vinnur aðallega sem tónlistarmaður og tónlistarkennari. Hún er gift Bjarna Harðarsyni, blaðamanni héðan úr Laugarási, syni Ingibjargar og Harðar sem bjuggu til skamms tíma í Lyngási. Þau búa á Selfossi og eiga tvo syni saman, Egil f. 1988 og Gunnlaug f. 1992. Svo hafa þau líka alið upp Magnús, son Bjarna, sem er nýorðinn 19 ára, f. 1984 og fyrir átti Bjarni líka Evu Bjarnadóttur, f. 1983.

Sá fjórði er Skúli Tómas, læknir. Hann er kvæntur Bryndísi Sigurðardóttur lækni, dóttur Sigurðar landlæknis. Gunnlaugur skýtur inní að þeirra synir séu því komin af tveimur af þeim 5 landlæknum sem setið hafi á íslandi, þeim fyrsta, Bjarna Pálssyni og þeim síðasta, Sigurði Guðmundssyni. Þau Skúli og Bryndís eru við framhaldsnám í Iowa í Bandaríkjunum, hann í hjartalækningum og hún í smitsjúkdómum. Þeirra synir eru Hjalti Gunnlaugur, f. 1994 og Guðmundur Ingvi, f. 2001.

Yngstur er svo Hákon Páll, trésmíðameistari. Hann er í sambúð með Huldu Kristófersdóttur, snyrtifræðingi og þau eiga tvær dætur, Þóreyju f. 1999 og Eygló Rut, f. 2001 og búa hér í Reykholti.

Þegar hér er komið sögu er liðið á kvöld, leikur að byrja í heimsmeistarakeppninni í handbolta í sjónvarpinu og viðtalið við Gunnlaug verður því að bíða betri tíma og næsta blaðs. Blaðamaður Litla-Bergþórs kveður því í þetta sinn og þakkar Renötu fyrir skemmtilegt spjall og góðar veitingar. GS

uppf. 09.2018