ASPARLUNDUR 1968

Guðrún og Helgi (mynd frá Kaju)

Guðrún og Helgi (mynd frá Kaju)

1968 fluttu Helgi J. Kúld (f. 18.07.1938, d. 22.12.2015) og Guðrún Lilja Skúladóttir (f. 15.06.1940) í sumarhúsið á Sigurðarstöðum og stofnuðu garðyrkjubýlið Asparlund, sem er austan Skálholtsvegar milli Ljósalands og Ekru. Á Sigurðarstöðum dvöldu þau skamma hríð áður en þau fóru í gamla bæinn í Hveratúni.

Helgi og Guðrún byggðu ekki íbúðarhús í Laugarási og þau hurfu á braut eftir u.þ.b. fjögurra ára dvöl  og héldu áfram í garðyrkjunni  á Reykjabóli í Hrunamannahreppi. Það er sagt að Helgi hafi verið kommúnísti, sem þótti víst ekki par fínt í Laugarási þess tíma. Þá mun hann hafa verið einna fyrstur til að hefja paprikurækt á Íslandi.

Helgi og Guðrún eignuðust 3 börn sem heita: Guðný (f. 18.02.1962), Lilja f. 04.06.1965, d. 08.03.2016) og Þorsteinn (f. 01.07.1966).

Þau skildu og Helgi starfaði við skrúðgarðyrkju á höfuðborgarsvæðinu og stofnaði gróðurhúsið Víkurblóm í Njarðvík 1988. Síðan lærði hann málaralist bæði hérlendis og í Indónesíu. Hann hefur haldið allmargar sýningar á verkum sínum. Hann var síðast skráður til heimilis á Breiðdalsvík. Guðrún hóf sambúð með Sigþór Ólafssyni (1942-2010) árið 1984. Nú býr hún á Kjalarnesi.

Elsa og Gunnar (myndir af Fb)

Elsa og Gunnar (myndir af Fb)

Það voru síðan þau Gunnar Tómasson (f. 10.09.1946) og Elsa B Marísdóttir (f.12.12.1945) sem keyptu Asparlund af Helga og Guðrúnu.  Þau komu í Laugarás úr Hafnarfirði og  fluttu í gamla bæinn í Hveratúni  í nóvember 1971, meðan þau byggðu íbúðarhús á landskika vestan Skálholtsvegar þar sem heimkeyrslan að barnaheimili Rauða krossins var, en er nú heimreið að Kirkjuholti.  Í húsið fluttu þau síðan á 2. degi  jóla 1974. Elsa og Gunnar eignuðust tvö börn sem eru: Anna María (f.27.03.1967), en hún er búsett í Hafnarfirði og Tómas Grétar (f.10.03.1974), sem býr á Laugarvatni.

Aldís og Egill ( mynd Tinna Björt - fengin á Fb)

Aldís og Egill ( mynd Tinna Björt - fengin á Fb)

Í maí 2018 seldu þau Gunnar og Elsa þann hluta Asparlundar sem garðyrkjustöðin stendur á, en héldu íbúðarhúsinu og búa þar. Húsið stendur nú við Kirkjuholtsveg 1.

Kaupendur garðyrkjustöðvarinnar voru Egill Hjartarson (f. 28.10.1981) og Aldís Guðrún Ársælsdóttir (f. 20.03.1989).

Land: 1.4 ha
Gróðurhús um 1500 fm.
—————-
Íbúðarhús 1975: Kirkjuholtsvegur 1: 244 fm

Uppfært 07/2022