Þorrablót Skálholtssóknar 1971 - 2019
Talsvert af gögnum hefur varðveist um þorrablót Skálholtssóknar frá þeim tíma sem hér um ræðir og á þessum vef er einungis fjallað um þau.
Enn liggja ekki fyrir upplýsingar um hvenær undirbúningur og framkvæmd þorrablótanna færðist alveg frá kvenfélaginu yfir til sóknanna, en það gerðist einhverntíma á sjöunda áratugnum, eftir að Aratunga hafði tekið við hlutverki félagsheimilis í sveitinni. Svo sem þróast hafði innan kvenfélagsins, kom það í hlut sóknanna að skipta þorrablótunum á sig þannig að hver sókn hélt blótið á fjögurra ára fresti og þannig hefur það gengið fram á daginn í dag í þessari röð: Skálholtssókn, Bræðratungusókn, Haukadalssókn (ásamt Úthlíðarsókn til 1966, en þá var sú sókn lögð af og sameinaðist Torfastaðasókn), Torfastaðasókn. Það má halda því fram að nokkuð sé misskipt álaginu af þorrablótshaldi, en hér má sjá mynd sem sýnir fjölda félaga í þjóðkirkjunni, 16 ára og eldri, í sóknunum fjórum, árið 2009. Það gefur að minnsta kosti vísbendingu um heildarfólksfjöldann.
Það æxlaðist svo, að þorrablót Skálholtssóknar lenti að afloknum sveitarstjórnarkosningum og því hefur alla jafna verið úr nokkru að moða við undirbúning skemmtiatriða.
Hér er að finna umfjöllun um þorrablót Skálholtssóknar, en hún byggir að mestu á þeim gögnum sem gengið hafa frá nefnd til nefndar frá árinu 1971 fram á þennan dag.
1971 1975 1979 1983 1987 1991 1995
1999 2003 2007 2011 2015 2019
Í Skálholtssókn hafa skapast ýmsar hefðir í kringum þorrablótin, en þeim hefur verið fylgt mis fast eftir gegnum tíðina. Ný nefnd kemur alla jafna saman í fyrsta skipti í október eða nóvember og fer yfir málin, ákveður dag fyrir blótið, pantar Aratungu og festir hljómsveit til að leika fyrir dansi. Þá skiptir nefndin með sér verkum eftir því sem þörf er á, en formennska í nefndinni fylgir skipuninni í hana, sem átti sér stað fjórum árum fyrr. Það er gert til að tryggja að einhver sé ábyrgur fyrir að kalla nefndina saman til fyrsta fundar.
Nefndin boðar til félagsvistar þar sem spilað er hálft kort, það er kaffi og kökur og fundur um framhaldið. Þar er fólk hvatt til að leggja höfuðið í bleyti varðandi skemmtiatriði og síðan verður smátt og smátt til hópur utan um þau, annaðhvort undir forystu þorrablótsnefndarinnar sjálfrar, eða þá einhvers eða einhverra sem sjá um þann hlutann.
Nefndin heldur utan um allt sem lýtur að undirbúningi blótis að öðru leyti, auglýsingar, miðasölu, fá fólk til að sinna ýmsum þáttum, m.a. undirbúa húsið og ganga frá eftir. Hún sér síðan um allt uppgjör vegna blótsins og úrbýr yfirlit yfir útgjöld og innkomu og ákveður alla jafna einnig hvernig hagnaði skuli varið, en þar hefur oftast verið um að ræða eitthhvað sem tengist grunnskólanum, en önnur málefni hafa einnig fengið að njóta afrakstursins.
Nefndin lýkur svo starfi sínu með því að velja fólk í næstu nefnd og tilnefna formann þeirrar nefndar, boða sóknarfólk aftur til félagsvistar og skila þar formlega af sér til nýrrar nefndar. Félagsvist hefur minna aðdráttarafl hin síðari ár og má reikna með að þorrablótsnefndir framtíðar leiti annarra leiða til að kalla sóknarfólk saman.