Þorrablót Skálholtssóknar 2007 

Þorrablótsnefnd 2007: f.v. Sólrún, Kristín, Ingvi, Marteinn og Sigrún.

Þorrablótsnefnd 2007: f.v. Sólrún, Kristín, Ingvi, Marteinn og Sigrún.

Þorrablótsnefndin 2007 var svona skipuð:
Sólrún Héðinsdóttir, Ásholti, formaður,
Kristín Sigurðardóttir, Kirkjuholti
Ingvi Þorfinnsson, Spóastöðum
Marteinn Friðriksson, Ekru.
Sigrún Þorsteinsdóttir, Tröðum ritari
.. að auki sat fundinn Jóhann B Óskarsson Ásmýri.

Fyrsti fundur var haldinn í Ásmýri 23. okt. 2006 og þar komst nefndin að niðurstöðu um að 26. janúar væri góður dagur fyrir þorrablót.
Það hefur verið astæða fyrir því að ritari sá þörf á því að setja þetta í fundargerðina, líklega fyrir nefndir næstu ára:

Hljómsveitn Sagaklass (mynd af vef)

Hljómsveitn Sagaklass (mynd af vef)

“Ath. um hljómsveitir á lausu þann dag. „BEST AÐ ATH MEÐ HLJÓMSVEITIR Í SEPTEMBER“

Rætt var hvort ætti að hafa trog eða breyta til. Trogið vann eins og alltaf.

Svo var blásið til félagsvistar og minigolfs í Slakka 5. nóvember og þangað komu 15, börn og fullorðnir.

Úr fundargerð 2007 - ritari Kristín Sigurðardóttir

Þarna var greint frá því sem framundan var, þar með að hljómsveitin Sagaclass myndi leika fyrir dansi. Málin rædd yfir kaffibolla og vöfflum og komu fram ýmsar hugmyndir að skemmtiatriðum og síðan var spilað.

„Þetta var ánægjuleg stund og ákveðið að halda hugstormunarfund 20. nóv. kl. 20 og reyna að fá gróðurhúsið í Lyngási sem fundarstað. Nefndarmenn munu hringja og boða”.

Það gekk eftir að leyfi fékkst til að halda næsta fund í Lyngási. Þar voru komnir 16 og og hugmyndirnar flóðu.

Á næsta fundi, í Kirkjuholti, þann 27. nóvember voru mótaðar skýrari línur í skemmtidagskrána og síðan annar 4. desember og fólki þar falið að setja saman texta.

Svo fór þetta allt að taka á sig mynd og á fundi í Slakka 3. janúar, 2007 í Slakka var ákveðið að kaupa innibombur, en ekki hefur meira fundist skráð um tilganginn með þeim kaupum. Textar tóku að streyma að.
5. janúar hittist allur hópurinn, textum fjölgaði og Magnús var farinn að safna myndum, hljóðum og lögum.”Nýjar hugmyndir bættust við. Mikið hlegið.

Á næsta fundi sem haldinn var í Slakka 8. janúar, var ákveðið að tala við Pál M Skúlason um að taka að sér leikstjórn, sem hann tók að sér. Aðrir sem þarna fengu hlutverk voru Magnús í Hveratúni með tæknivinnu í tölvu og Baldvin í Brennigerði skyldi vera ljósameistari. Einnig höfðu Renata og Gunnlaugur í Bekkugerði tekið að sér minni karla og kvenna.
Í framhaldinu hófust síðan æfingar flest kvöld.
Á fundi nefndarinnar 14. janúar, í Ásmýri var miðaverð ákveðið kr. 2.500.

Svo var æfingalota í Aratungu 16. 19., 20., 22. og 23. janúar. Lokaæfing var þann 25. og þangað var eldri borgurum boðið.

Þátttakendur: Sólrún, Jóhann, Kristín og Benedikt, Sigrún og Sigurjón, Sigríður (Sísa), Marteinn og Íris, Elinborg og Guðmundur, Hólmfríður og Baldvin, Ingvi, Guttormur, Jakob, Ellisif, Loftur og Guðrún, Hildur, Páll og Dröfn, Kristinn og Harpa, Magnús, Sigrún R.

Athugasemdir úr fundargerð, sem vert er að nefna:


“MÆLUMST TIL AÐ ÞORRABLÓTIÐ VERÐI FLUTT Í ÍÞRÓTTAHÚSIÐ NÆST. ALLTAF PANIK MEÐ AÐ MIÐAR DUGI EKKI“.

“Húsið keypti 4 þráðlausa hljóðnema (Húrra!)

Miðasala var 23. og 24 jan. frá 13-15 í Aratungu. Allir miðarnir seldust.

Reglur varðandi miðasölu á þorrablót í Aratungu 2007.

Fólk fær afhenta miða samkvæmt íbúaskránni.
Merkt er við í íbúaskrána og miðað er við 18 ára aldurstakmark.

Áfengislög og barnaverndarlög kveða á um 18 ára aldurstakmark.
Aldurstakmark miðast við fæðingardag viðkomandi einstaklings.
Vekja þarf athygli á því við miðasöluna, að skírteina geti verið krafist við innganginn.

Ef fólk vill fá aukamiða þá eru teknar niður pantanir á nöfn (heimili), sem afgreiddar verða eftir að miðasölu lýkur. Þannig að fyrstu tvö nöfnin á hverri pöntun fá afgreidda miða í fyrstu umferð og síðan koll af kolli.
Taka niður símanúmer.
Fólk þarf að taka fram hve margir vilja sitja saman við borð og hvaðan þeir eru.

Þorrablótsnefnd Skálholtssóknar.

Svo var þorrablótið haldið með pomp og prakt þann 26. janúar, 2007


Þorrablótið 26. janúar

Úr fundargerð:

“Salurinn var flottur. Á borðum voru rauðir dúkar og beige litaðar servíettur. Einnig voru söngblöð (140), kertaljós og græn epli með greinum. Í greinarnar voru fest blöð sem á voru skráð örnefni úr Skálholtssókn.

Glæsilegt yfir að líta.

Húsið var opnað kl. 20 flestir komu á bilinu 20.30-21.00. Síðustu í hús á slaginu 21.00.

Blótið var sett kl. 21.10. Harpa Hallgrímsdóttir var kynnir.
Sólrún setti blótið, Karl (?) sá um undirspil ásamt Kristni Ólasyni. Harpa og Kristinn stýrðu söng.

Renata og Gunnlaugur sáu um minni karla og kvenna.

Skemmtidagskrá hófst um kl. 22.20. Allt tókst mjög vel og skemmtiatriðin slógu í gegn. Ballið hófst kl. 23.50 og dansgólfið var fullt til kl. 03.00. hljómsveitin fór bara í eina stutta pásu. Frábær hljómsveit.

Fólk var mjög ánægt með blótið. Nefndin og hópurinn sem stóð að skemmtiatriðunum voru rosalega ánægð”.

Svo hittist nefndin vegna uppgjörs þann 11. febrúar.

Það var seldur 281 miði á kr. 2.500 og 2 miðar á dansleikinn á kr. 2000, eða alls fyrir kr. 702.500.
Stærstu útgjaldaliðirnir vour hljómsveitin Sagaklass sem fékk kr. 380.000 fyrir sinn snúð og Aratunga, fyrir húsaleigu og dyravörslu kr. 153.628.

Hagnaður af blótinu reyndist vera kr. 35.782. Ekki kemur fram hvernig ágóðanum skyld ráðstafað; það kom fram hugmynd um að leggja inná reikning og sameina þannig hagnaði að blótinu 2003, en ekki verður séð hver niðurstaðan varð fyrr en á fundi sem haldinn var um miðjan mars:

„Ekki er hefð fyrir því að hafa varsjóð. Haft var samband við fyrri nefnd og voru nefndirnar sammála um að ráðstafa hagnaði 2003 og 2007 sameiginlega. Búið að hafa samband við oddvita varðandi leiktjöld og ákveðið að leggja upphæðina inn á reikning sem verður eyrnamerktur leiktjöldum. Greitt verður þegar farið verður í endurnýjun á leiktjöldum“.

Lokahóf ákveðið 16., mars og þar var kynnt þorrablótsnefnd 2011.


Sýnishorn úr dagskrá 2007

Inngangsstef
Skálholt (upplestur)
”Hér er saga á hverri þúfu og hverjum hól. Hvert sem litið er minna land, hús og minjar á, að saga þjóðarinnar tengist þessum stað sérstökum böndum. Andleg velferð íbúa landsins hefur oft staðið og fallið með því sem gerðist á biskupssetrinu. Varla fór framhjá nokkrum manni að í haust var dómkirkjan í Skálhoti umlukin bleikum ljóma - þó verður varla sagt að þeir atburðir sem þar hafa átt sér stað að undanförnu gefi til kynna að fólkið á þeim bænum ferðist um á bleiku skýi eða vængjum ástarinnar. Eða hvað? Mátti kannski skilja bleika ljómann á þann veg að ætlunin hafi verið að koma höggstokki Jóns Arasonar í gagnið að nýju? Var þetta skírskotun í blóðug átök eða baráttuvilja? Og hvað um syndaflóðið sem flæddi yfir tún og akra í sókninni og nágrannasveitarfélöunum? Var það ekki verðug áminning æðri máttarvalda um, hver það er sem hefur síðasta orðið? Sú var tíð í þessari sveit að jafnvel biskupum var drekkt, ef svo bar undir”.

Stutt innskot í dagskrána hér og þar:

Velheppnaðri hópferð kvenfélagsins er nú lokið. Allar komu þær aftur og engin þeirra dó. Þær fluttu heim með sér nýtt líf, fleiri hundruð kíló af farangri og langan hala af skuldum. Veriði velkomnar allar saman, elskurnar.

Gáta? Við leitum og leitum og finnum ekki neitt, enda er ekkert að finna. Hverjir erum við?

Elsku Tungnamenn. Við söknum ykkar. Við verðum á þorrablóti Úthlíðarsóknar nema við fáum starfslokasamning.
Rússíbanar.

Einnar báru vatn, Sigríðar Jónsdóttur kom út á síðasta ári. Nú hafa íbúar í Skálholtssókn bætt um betur og gefið út bókina Fjölbáruvatn. Nú verður lesið sýnishorn úr bókinni.
Bárur
Kirkjan sekkur og enginn skilur.
Blossar lýsa og biskup kallar til tíða.
Bárurnar vagga börnunum eins og ótamið hross,
en öllum er sama.
Syndaflóðið skekur byggðina.

Það er aldeilis ótrúlega ásókn í miða á þorrablót Skálholtssóknar. Til marks um þetta þá fóru að berast fyrirspurnir á haustdögum. Eyjapeyinn var snemma í því og pantaði sæti á betri stað en síðast.

Boðið er upp á nýtt námskeið í Skálholtsskóla. Yfirskrift þess er: “Öll dýrin í sókninni eiga að vera vinir!” Námskeiðið byggir á leikririnu fræga, Dýrin í Hálsaskógi, eftir Thorbjörn Egner. Leiðbeinendur á námskeiðinu verða helstu sérfræðingar staðarins í mannlegum samskiptum og atvinnusálfræði: sr. Sigurður Sigurðarson og Hilmar Örn Agnarsson.

Vatnsleysumenn hafa lagt fram lögbannskröfu hjá sýslumanni. Telja þeir freklega að sér vegið með nafni sundlaugarinnar á Borg, sem kynnt var nýlega.

Það samglöddust margir Agli í Holtakotum þegar hann hafði nælt í úrvals gæðing á uppboði í Tungnaréttum. Fagnaðarlætin sem fylgdu síðan þegar hann þeysti, syngjandi um almenninginn eins og kúreki norðursins, munu lengi lifa í hugum sannra Tungnamanna.

Þarf sveitarstjórnin að ráða sér lögfræðing til að stjórna fundum?

Annað ljóð úr Fjölbáruvatni:
Hvítt rúllubaggaplast hengdi hann
sem jólaskraut á tré og runna við ána.
Hann er fyndinn, hann Guð.

Nú, þegar Iðumenn hafa fengið heilan helling af fösum af rafmagni hafa þeir boðist til að lána Laugarásbúum einn fasana.

Einn er upp til fjalla. Hann heitir Loftur. Hann sér hana í fjarlægð og herðir göngunua. Hún er saklaus. Stundin nálgast. Loftur mundar tólið. Það fer smávægilegur titringur um hana. Hönd hans er stöðug. Hún hikar. Skotið ríður af. Hún fellur. Hún drepst. Síðasta rollan er dauð.

Næsta ferð kvenfélagskvenna til Dúkapest verður farin …

Félagsmálastjóri heitir fundarlaunum hverjum þeim sem finnur reglugerðamöppuna hennar.

Nú þegar rjúpan er að hverfa úr Bláskógum, endur og gæsir smitast af fuglaflensu, hefur verið ákveðið að flóðahestakjöt verði á matseðlinum í Skálholti.

Sveitarstjórinn hefur farið fram á að sjá sjaldgæfa fugla á Laugarvatni. Umhverfisstofnun hefur því flutt tvo slíka úr Laugarási, en þar er nóg af þeim.

Súpermann sjálfur, já sjálfur. Já, Súpermann SJÁLFUR sótti Skálholtssókn heim. Hann biður kærlega að heilsa öllum Tungnamönnum sem freista þess að feta í fótspor hans.

Í allri hálkunni sem angraði okkur síðastliðinn vetur þótti nauðsynlegat að salta vegina vel. Símakostnaður vegna þessa fór algerlega úr böndum þar sem söltunarstöðin hafði aðsetur á Kanarí.

Eftir Búkarest í Búdapest þurfti að koma útlitinu í lag. Þá kom danski kúrinn til sögunnar og virtist ætla að virka vel, en gafst svo bara upp og flúði til Færeyja.

Úr Fjölbáruvatni:
Það fjölgar frægum Höfðum.
Einhver hafði séð teikningarnar.
Ef rétt hefur verið greint frá
stefnir í að hinn reykvíski Höfði blikni í samanburðinum.

Bein leið á brunastað — Slökkviliðið

Úr Fjölbáruvatni:
Hverjum er ekki sama um lítinn hund
sem ræðst í ótömdu brjálæði á bílinn minn.
Ég skal hundur heita ef þessi ómálefnalega frenja
lifir til vors.

“Beygjurnar burt” — Slökkviliðið

Lokasöngur
(Húrrasöngur hinn nýjasti)

Hér saman við komum í kvöld
húrra, húrra
Kætin ríkir og tekur öll völd
húrra, húrra
því að þorrablót þetta er flott
húrra, húrra
það vita‘ allir og það er svo gott
húrra, húrra

Hér er enginn leiður maður
því að hver og einn er glaður
húrrahrópunum linnir ei
húrra, húrra.

Þó að úti sé fannfergi‘ og hret
húrra, húrra.
inni‘ er fagur vor hákarl og ket
húrra, húrra
Glösin klingja því kátt er í sal.
húrra, húrra
Hrópum húrra því fagna nú skal.
húrra, húrra.

Gleymum öllum okkar sorgum
saman húrra öll við orgum
og á eftir því öskrum við „SKÁL!“
húrra, húrra.

Uppfært 08/2019