Þorrablót Skálholtssóknar 1979 

Þorrablótsnefnd 1979: f.v Gunnar, Bjarni, Elinborg, Hilmar og Anna

Þorrablótsnefnd 1979: f.v Gunnar, Bjarni, Elinborg, Hilmar og Anna

Þorrablótsnefndina 1979 skipuðu þessi:
Gunnar Tómasson Asparlundi, formaður,
Bjarni Sveinsson Helgastöðum,
Elinborg Sigurðardóttir Iðu,
Hilmar Magnússon Ekru og
Anna Agnarsdóttir, Laugarási, ritari.

Fyrsti fundur til undirbúnings var haldinn í lok október 1978 á heimili formannsins. Á þessum fundi skipti nefndarfólkið með sér verkum og ákvað að stefna að því að skemmtiefni skyldi vera að mestu tilbúið fyrir jól svo æfingar gætu hafist tímanlega.

Þá ákvað nefndin, að ágóði af blótinu, yrði hann einhver, skyldi renna til sóknarinnar.

Þarna var greinilega ekki komin á þessi grjótfasta hefð að þorrablót skyldi vera á á bóndadegi, því rætt var um hvort það skyldi haldið 3. eða 10. febrúar og að það skyldi fara eftir aðstæðum.

Sr. Guðmundur Óli Ólafsson hafði, þegar hér var komið, samið stóran hluta skemmtiatriða á þorrablótum sóknarinnar og var ákveðið að biðja hann að semja eitthvað af stuttum smellnum einþáttungum.

Skreytingu hússins skyldu þau sjá um: Torli Malmo á Helgastöðum, Elinborg á Iðu og Hilmar á Ekru.

Á öðrum fundi nefndarinnar, sem var haldinn 2. janúar 1979 kom fram að hljómsveitn Alfa Beta hefði verið ráðin til að leika fyrir dansi á þorrablóti þann 3. febrúar.
Svo segir: „...skal bjóða öllu Biskupstungnafólki, 16 ára og eldri, til leiks með formlegu skjali, sendu út á bóndadag, í byrjun þorra, þann 19. jan.

Úr fundargerð Þorrablótsnefndar 1979. Ritari: Anna Agnarsdóttir

Ekki lá miðaverð fyrir á fundinum, en ákveðið að prenta 325 miða.

Ákveðið var að viðhalda þeim sið að hafa vísnasamkeppni og að verðlaunin skyldu vera „Stjörnur vorsins“ sem er afmælisútgáfa að ljóðum Tómasar Guðmundssonar. „Beinakerlingin“ skyldi sett upp Bjarni á Helgastöðum tók að sér að annast lagfæringar á henni, en hún var einhverskonar konar kassi sem fólk lagði vísur sínar í.

Áhersla var lögð á að húsið skyldi opnað stundvíslega kl. 21 og kl. 21.15 skyldi dyrum lokað meðan formaður setti skemmtunina formlega. Þetta var gert til að “koma í veg fyrir allar fyrirfram pantanir á sætum og svo til hvatningar [til] stundvísi”.

Þá var ákveðið að hafa eftirlit með allri miðasölu og skyldi farið eftir íbúaskrá í þeim efnum.

Efnisskráin, eins og hún var sett upp var svohljóðandi:

- Setning formanns kl. 9.15 – söngur (Hvað er svo glatt..)
– Upplestur Jón Sigurbjörnsson
– Söngur (þegar hnígur húm að þorra og Nú er frost á Fróni
- Minni kvenna: Jörundur Ákason
- Söngur: Fósturlandsins Freyja
- Minni karla: Ásta Skúladóttir
- Söngur: Táp og fjör..
- Leikrit eftir sóknarprestinn
- Söngur: Stóð ég úti í tunglsljósi
- Söngur Malakoff
- Söngur Hin gömlu kynni...

Næsti fundur var haldinn þann 20. janúar á heimili formanns.
Þar var ákveðið:

… að raða borðum í allan aðalsal, þ.e. á miðju dansgólfi skal raðað þrem lengjum langborða, sem upp skal taka að skemmtiatriðum loknum. munu þeir þar sitja er standa að blótinu, en flytja síðan stóla sína upp í kaffisal að borðahaldi loknu. Er þess vænst að dagskráin skili sér þannig best til allra gesta.

Guðmundur Óli var þarna búinn að skila af sér leikriti og Elsa Marísdóttir í Asparlundi hafði vélritað upp öll hlutverkin. Leikarar í stykkið voru valin þessi: Jóna á Lindarbrekku, Gunnlaugur Skúlason Launrétt 1, Guðbjörg Kristjánsdóttir Ekru, Hjalti Jakobsson Lauugargerði og Gústaf Sæland Sólveigarstöðum. Jónu var falið að hafa leikstjórn með höndum.
Samþykkt var að fá Önnu Magnúsdóttur sem forsöngvara „ef hún vildi gjöra svo vel að taka það að sér“.

Nokkrar myndir Gunnars og Elsu í Asparlundi (Kirkjuholtsvegi 1)
frá undirbúningi og skemmtiatriðum.

Gunnar Tómasson hafði samið 3 stutta gamanþætti, og skyldu leikarar í þeim vera nefndarfólkið.

Toril tók að sér að teikna alla veggskreytingu, en nefndarfólk tók að sér að vinna að uppsetningu veggskreytinga kvöldið fyrir blót. Á föstudagskvöldinu var svo stefnt á „generalprufu“ á öllu leiknu efni.

Þeir Ásgeir í Aratungu og Gunnar Tómasson tóku að sér að selja aðgöngumiða samkvæmt úreltri íbúaskrá.

Nokkrar myndir Gunnars og Elsu í Asparlundi (Kirkjuholtsvegi 1)
af þorrablótsgestum

Síðasti fundur nefndarinnar fyrir blót var haldinn þann 1. febrúar á heimili formanns. Þar voru sett saman drög að dagskrá, „en aðallega var hlegið og þótti sumum vera hlegið nóg. Hvort sem hlátur þessi stafaði af óhóflegri spennu eða einhverju öðru ámóta veraldlegu, þá er eitt víst, eins og sagt er um jólin, að á blóti okkar verður ákaflega gaman“.

Uppgjör:

Í uppgjöri eftir þetta þorrablót kemur fram, að það voru seldir 264 miðar @3000 eða alls fyrir kr. 792.000. Stærstu kostnaðarliðir voru hljómsveitin Alfa Beta kr. 300.000 og húsleiga sem var kr. 198.00. Heildarkostnaður reyndist vera kr. 683.461 og ágóði því kr. 108.539.


Fyrripartar og botnar:

Senn mun lifna á lofti sól
lengist þorradagur.
Sunna gyllir byggð og ból
bætist allra hagur

eða…
Vífin ungu verma ból,
vænkast okkar hagur.

Hér skal verða kátt í kvöld
þótt kuldinn úti næði.

Okkar hefur ástin völd
og yndis njótum bæði

eða…
Ég vona‘ að gleðin sé við völd
og vermi okkur bæði.

Uppfært 08/2019

Sýnishorn af kveðskap:

Verðlaunavísa 1979:

Þér ég vísa á þorrablót
þangað brautir liggja.
En að launum ástarhót
eg vil gjarnan þiggja.