Á næstsíðasta degi ársins

Í dag opna ég á nýjan þátt á þessum vef og það er sannaralega tilefni til, en ég fjölyrði ekki um það.

Þessi þáttur hefur reynst heldur fjölbreyttari en ég átti von á þegar ég hélt af stað og mér segir svo hugur um, að enn eigi eftir að bætast við efni, bæði frásagnir og myndir.

Hér er um að ræða sögu barnaheimilisins sem Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands rak hér í Laugarási, Krossinn, í um tvo áratugi. Þetta var stórt barnaheimili, rúmaði 120 börn í einu og var starfrækt frá um það bil miðjum júní til síðari hluta ágúst ár hvert. Þetta þýðir að um eða yfir 3000 börn á aldrinum 3-8 ára áttu hér viðdvöl, í allt að átta vikur. Á síðari hluta starfstímans var dvalartíminn reyndar styttur hjá mörgum, en það þýddi að á hverju sumri voru mögulega um 180 börn í Krossinum einhvern tíma.

Starfsmenn voru um 30 á hverju sumri, sumir fleiri sumur en eitt og því má reikna með að heildar starfsmannafjöldinn hafi verið á bilinu 500 til 600.

Fyrir utan ritaðar heimildir, sem ég náði í á Borgarskjalasafni og Þjóðskjalasafni, notaðist ég við frásagnir og greinar í blöðum á vefnum timarit.is, eigin minningar og samtöl við fólk sem þekkti til Krossins.

Ég á mikið að þakka fólki sem dvaldi í Krossinum sem börn og starfsfólk, eða í nágrenninu fyrir jákvæðni í garð verkefnisins og þátttöku í því. Mér hafa verið sendar myndir og frásagnir og fólk hefur skráð minningabrot inn á Facebook hóp sem ég stofnaði til þess arna. Mig grunar, að meira eigi eftir að bætast við frá þeim stóra hópi sem tyllti niður fæti í Krossinum á einhverjum tíma ævinnar.

Það er von mín að lesendur sem þekkja til þessarar sögu, eða einstakra hluta hennar, verði duglegir að senda mér athugasemdir og viðbætur. Þetta er hægt að gera með ýmsu móti: skilaboð á facebook, póstur á netfangið pallsku(að)gmail.com eða símtal í númerið 8989152.

Slóð á sögu Krossins

Auk efnisins um Krossinn hef ég einnig sett inn myndefni (myndskeið og ljósmyndir) um þrjár Laugaráshátíðir sem haldanr voru 2009, 2010 og 2015. Þetta myndefni breytist hratt í sögulegar heimildir.

Slóðin á myndefnið.

Góð kveðja og farsæld á nýju ári.

pms