Forsýning á nýjum vef

Laugarás frá Suðurási (mynd: pms)

Laugarás frá Suðurási (mynd: pms)

Nú er hafin nokkurskonar "generalprufa" eða lokaæfing fyrir frumsýningu á þessum vef um Laugarás í Biskupstungum. 
Sú innsýn sem við veitum gestum nú, felur í sér afmarkaða þætti og í framhaldinu munu fleiri og fleiri hlutar vefsins verða opnaðir.

Textahluti verksins er langt kominn, en prófarkalestur og myndefni af ýmsu taki tínist inn smátt og smátt.

Ástæðan fyrir þessari “forsýningu” á vefnum í dag, 29. september, 2018, er sú, að á þeim degi fyrir 100 árum fæddist Skúli Magnússon í Hveratúni, á Rangárlóni í Jökuldalsheiði. Aldarafmæli þessa frumbyggja í Laugarási teljum við, afkomendur hans, að sé ákjósanlegt tilefni.

Við stefnum að því að efna til frumsýningar, eða formlegrar opnunarhátíðar þegar kemur að því að opna aðgang að samantektinni um húsin og íbúana sem gist hafa Laugarás og þá einkum á síðustu öld og fram á þessa. Þar kemur margt fólk við sögu og að mörgu að hyggja svo ekki slæðist með óþarflega mikið af staðlausum stöfum.

Í þessari lotu er eftirfarandi aðgengilegt: Húsin og íbúarnir frá 1923-1960, saga sláturhússins, frumbyggjar í Laugarási - viðtöl og frásagnir, Hvítárbrú hjá Iðu, saga og vígsluhátíð og sýnishorn af því myndefni sem vefurinn mun geyma.

Það sem á síðan eftir að birtast, er umfjöllun um húsin og íbúana frá 1960 fram á þennan dag, saga barnaheimilis RKÍ (Krossins), saga Grímsnes- og Laugaráshéraðs, saga ýmissa innviða í Laugarási, þjónustu og annarra þátta af því tagi, fleiri viðtöl og frásagnir, umfjöllun um stöðu Laugaráss í uppsveitunum og margt fleira.

Lesendur eru hvattir til að kynna sér UM VEFINN

uppf. 09.2018