LINDARBREKKA 1942

Jóhann Sæmundsson

Jóhann Sæmundsson

Sigurður Jónasson

Sigurður Jónasson

Saga lóðarinnar sem síðar varð Lindarbrekka, hófst 1942 með því Jóhann Sæmundsson (f. 09. 05. 1905, d. 06. 06. 1955), yfirlæknir og félagsmálaráðherra um nokkurra mánaða skeið, fékk hálfan hektara lands og byggði sér 29m² sumarhús á brekkubrúninni. Ein megin ástæða þessa mun hafa verið sú að hann vildi hafa möguleika á að hafa öruggt skjól fyrir fjölskyldu sína frá mögulegum loftárásum á landið.

Eiginkona hans var Sigríður Sæmundsson, fædd Thorsteinson (f. 1908, d. 08. 04. 1998), dóttir Árna Thorsteinson, tónskálds.

Sigurður Jónasson (f. 19. 08. 1896, d. 28. 10. 1965) keypti húsið 1948. Sigurður var alllengi forstjóri Tóbakseinkasölu ríkisins, og var svokallaður athafnamaður. Hann keypti Geysi af erlendum manni og gaf íslensku þjóðinni. Þá keypti hann einnig Bessastaði og gaf þá undir aðsetur ríkisstjóra.

Föst búseta á Lindarbrekku hófst 1951 með þeim Guðmundi Indriðasyni (f. 15. 05. 1915, d. 15.12.2016) og Jónínu Sigríði Jónsdóttur (Jónu) (f. 06. 02. 1927, d. 13.08.2016).

1958 var nafn býlisins staðfest og um leið var landið sem það stendur á stækkað um helming. Guðmundur og Jóna stækkuðu íbúðarhúsið 1961.

Guðmundur og Jóna á 100 ára afmæli Guðmundar 2015 (mynd: PMS)

Hjónin tóku sér ýmislegt fyrir hendur eftir að í Laugarás var komið, en segja má að allt þar til gróðurhúsið kom til sögunnar, hafi þau bæði tekið þátt í uppbyggingunni sem var í Skálholti á sjötta áratugnum og fram á þann sjöunda og Guðmundur starfaði síðan töluvert við húsbyggingar þegar byggðin í Laugarási tók vaxtarkipp í kringum 1970.
1976 byggðu þau gróðurhús og notuðu til þess efni úr gróðurhúsi sem hafði staðið á Sigurðarstöðum. Árið eftir byggðu þau pökkunarhús eða vélageymslu og loks íbúðarhús 1980.  Í það minnsta tvö pör fengu að búa í gamla húsinu í einhvern tíma eftir að eigendurnir fluttu í nýja húsið: Magnús Skúlason og Sigurlaug Sigurmundsdóttir (Hveratún) dvöldu í húsinu um níu mánaða skeið 1983 og Sigrún Reynisdóttir og Ingólfur Guðnason (Engi)  bjuggu í húsinu frá maí 1985 – maí 1988. Eftir það var ekki búið í húsinu, en það stendur enn (2018),  að niðurlotum komið.
 

Lindarbrekkufjölskyldan líklegast 1963-4. Börnin f.v. Grímur, Indriði, Jón Pétur, Katrín Gróa. (mynd af Fb)

2011 fluttu Guðmundur og Jóna í þjónustuíbúð á Flúðum og síðan á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu, 2015, þar sem þau létust með skömmu millibili.  Frá 2011 hefur því ekki verið föst búseta á Lindarbrekku,

Eftir að Guðmundur og Jóna hættu í garðyrkjustörfum um 1994, leigðu þau gróðurhúsið ábúendum á Akri þar til 2013.

Börn þeirra Lindarbrekkuhjóna eru: Indriði (f. 06.06.1951), hann býr í Reykjavík, Jón Pétur (f. 15.06.1955), býr á Selfossi, Katrín Gróa (f. 10.10.1956) býr í Neskaupstað og Grímur (f. 27.06.1961) býr í Ásatúni í Hrunamannahreppi.

Viðtal við Guðmund og Jónu frá 2010.

 

Börnin á Lindarbrekku 2015, f.v. Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði (mynd: PMS)

Börnin á Lindarbrekku 2015, f.v. Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði (mynd: PMS)

Land: 5000m²
Íbúðarhús 1980: 132m² /gamalt íbúðarhús 1949 79m²
Véla/verkfærageymsla 1977 96m²
Gróðurhús 1976: 284m²

uppf. 11.2021