LAUNRÉTT 2 1965

Þetta hús, sem var bæði íbúð héraðslæknisins og heilsugæsla, var byggt 1965, en síðan var heilsugæsluhlutinn stækkaður með viðbyggingu 1971, þar sem umfang heilsugæslunnar fór vaxandi. Þarna ráku læknarnir apótek þar til reglur leyfðu slíkt ekki lengur. 
Með nýju heilsugæslustöðinni sem var tekin í notkun 1997, breyttist hlutverk þessa húss og þar er nú rekin lyfsala.

Grímur og Gerða (myndir af vef)

Grímur og Gerða (myndir af vef)

Fyrstu íbúarnir í þessu nýja húsi voru Grímur Jónsson og Gerda Jónsson, en þau fluttu úr gamla læknishúsinu. Þarna bjuggu þau afar stutt og fluttu burt árið eftir, eða 1967.

Í þeirra stað kom nýr héraðslæknir, Konráð Sigurðsson (f.13.06.1931, d.15.07.2003) og kona hans Sigrid Østerby Sigurðsson (06.02.1937, d.12.01.2008). Þau bjuggu í húsinu til 1972, en þau skildu 1973. Þau  eignuðust þessi börn: Atli (f. 11.10.1959), býr í Svíþjóð, Sif (f. 04.12.1960) býr í Árneshreppi á Ströndum, Huld (f. 05.08.1963) býr í Reykjavík, Ari (f. 14.09.1968) býr í Kópavogi, Andri (f. 16.09.1971) býr á Ísafirði. Fyrir átti Sigrid eina dóttur og Konráð átti tvö börn.

Anna, Konráð og Sigrid (myndir af Fb)

Anna, Konráð og Sigrid (myndir af Fb)

Árin 1972 og 1973 starfaði Konráð í Reykjavík, en kom síðan aftur í Laugarás.  Kona hans á þeim tíma var Anna Agnarsdóttir (f. 09.01.1949). Þau eignuðust 3 börn: Hildur Rósa (26.06.1974) býr í Reykjavík, Anna (f. 24.03.1977, d.05.05.1979), Anna Guðrún (f. 13.02.1980) býr í Reykjavík.
Konráð og Anna byggðu sér hús í Laugarási sem hlaut nafnið Árós (Austurbyggð 15). Þangað fluttu þau 1981, en voru þá þegar farin að huga að því að hverfa á braut. Þau misstu tveggja ára dóttur sína í sviplegu slysi 1979. Konráð og Anna fluttu til Reykjavíkur þar sem Konráð starfaði áfram. Hann lést árið 2003.

Rut og Gylfi með þrem sonum Þrastar: Skírni, Þorra og Fróða (mynd af fb-síðu Þrastar)

Haustið 1984 kom Gylfi Haraldsson (f. 07.04.1946, d. 02.12.2019) til starfa sem læknir í Laugarási og starfaði þar samfellt þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2016. Kona hans er Rut Meldal Valtýsdóttir (f. 04.02.1947), en hún kom í Laugarás 1990.  Þau eiga ekki börn saman, en einn þriggja sona Rutar og Þorsteins Björgvinssonar (f. 19.07.1944, d.26.08.1988), Hreiðar Ingi (f. 31.03.1978) ólst upp að mestu í Laugarási. Hann býr nú í Reykjavík.

Börn Gylfa og Höllu Arnljótsdóttur (f. 05.06.1947, d. 07.08.2006) eru: Þröstur Freyr (f. 22.05.1979), sem býr í Reykjavík og Guðbjört (f. 19.12.1982) býr í Bandaríkjunum.

Gylfi og Rut fluttu úr húsinu haustið 2016 í Garðabæ, en þau eiga einnig sumarhús í Langholti í Laugarási.

Land: 3000 fm
Hús: um 400 fm

uppf. 03.2020