Straumferjur

Helgi Valtýsson
(1877-1971)
Mynd af vef Héraðsskjalasafns Austurlands.

Haustið 1910 kom fram á sjónarsviðið hugmynd Helga Valtýssonar (1877-1971) um nýja tegund af ferju, sem hann kallaði straumferju og var talsvert fjallað um þessa nýjung í blöðum þá um haustið og reyndar áfram. Ísafold fjallaði til dæmis um straumferju Helga, með þessum hætti þann 5. nóvember:

Sjálfsjórnandi straumferja.
Íslenzk uppgötvun
Mikilvæg samgöngubót.

Nýlega hefir Íslendingur einn, Helgi Valtýsson kennari, lokið við uppgötvun, sem hann hefir verið að fást við margt ár — og heita má mesta þing, ef hún reynist svo vel, sem orð er á gert, af tilraunum þeim er þegar hafa verið gerðar. Uppgötvun þessi er sjálfstjórnandi straumferja og hefir Ísafold borist eftirfarandi lýsing á notkun hennar og nytsemi. Gerðin á ferjunni verður leyndarmál Helga sjálfs, fyrst um sinn, unz hann er búinn að fá uppgötvunarvernd (einkaleyfi), en umsóknin sú er nú í stjórnarráðinu.

 „Straumferjur" — svo kallar hugvitsmaðurinn ferju sína — eru ferjur, sem knúðar eru áfram af straummagni ár eða annara straumvatna. Er auðvelt mjög að koma þeim fyrir og nota þær á öllum straumvötnum þar sem skilyrði þessi eru:
1. dýpi svo að bátgengt sé t. d. flatbytnu.
2. að straumur sé nokkurnveginn jafn og eigi öfugstreymi að mun. Þó geta „lygnur" verið við bæði lönd og straumhringir, án þess að saki.
Sem ferju má nota venjulega báta, en bezt þó að hafa sérstaklega gerðar ferjur: flatbytnur. Á stórám og fljótum ættu t. d. að vera ferjur, er rúmuðu 10—15 áburðarhesta með farangri öllum — eða alt að 50 fjár. Er eigi nema lítillar stundar verk að ferja heilar lestir eða mikla fjárhópa yfir ár, ef straumur er nokkur að ráði, því þá öslar ferjan með eimskipshraða, — en þó er auðvelt mjög að hafa hraðann eftir vild.
Aðalkostur ferju þessarar er þó það, að hún stjórnar sér algerlega sjálf. Má senda hana fram og aftur hlaðna af gripum eða vörum alveg mannlausa. Og meira en það. Hún breytir sjálfkrafa stefnu við bæði lönd og brunar fram og aftur í sífellu, nemur aðeins lönd báðum megin og heldur þegar yfrum aftur, ef enginn er viðstaddur og festir hana. Er hún því altaf til taks báðum megin, og þarf því enginn um að sjá. — Er þetta kostur mikill og þá eigi sízt á haustum er ísa tekur að leggja. Heldur þá ferjan „greiðri götu" sinni yfir á þvera dag og nótt — og sé straumur mikill, er óvíst að ísa leggi nokkurntíma að ferjunni, nema ísrek stuðli að því.
Vonandi er, að ferjur þessar verði skjótt almennar á Íslandi. Á stórum ám og litlum. Í hverri þjóðleið — og víðar. Mundi þá fækka manntjónum þeim, er ár valda. Og hausthrakningar á hestum og fénaði hætta að fullu. Því svo eru ferjur þessar einfaldar og útbúnaður allur óbrotinn, að hver hreppur getur auðveldlega komið þeim á hjá sér af eigin rammleik, þar eð kostnaður þarf eigi að fara að mun fram yfir ferjuverðið sjálft — En eigi væri nema sjálfsagt, að landsjóður styrkti ferjusmiðina, sérstaklega er um stórár væri að tefla, því þar geta straumferjur komið í brúarstað um stundarsakir og jafnvel til langframa. Og er brú kæmi á „ferjustaðinn", er eigi annað en flytja ferjuna á annan stað árinnar.
Getum vér þá héðanaf látið árnar bæta oss upp aftur alt það tjón og farartálma, er þær hafa valdið oss um langan aldur. Því nú eru ótemjurnar beizlaðar!  [Ísafold].

Í ágúst var greint frá því að straumferja Helga væri “komin áleiðis að Brúará í Biskupstungum. Þar er Helgi nú að koma henni fyrir. Ferjan er smíðuð í Hafnarfirði eftir fyrir sögn Helga. Hún getur rúmað í einu 5-6 hesta (Suðurl. 19. 8.)”

Fljótlega var síðan sagt frá því að ferjan væri komin á Brúará, en að bryggju vantaði “annarsvegar”, og ekki hægt að taka hana hana í notkun “fyr en því er í verk komið. Landeigendur munu og óttast átroðning.”

Grannt var fylgst með uppsetningu ferjunnar áfram og svo kom að því hún skyldi verða tekin í notkun. Þann 23. september segir í Suðurlandi: Straumferja Helga Valtýssonar verður reynd á morgun (s.d. 23.) á Brúará, og verða allir velkomnir þangað að sjá þetta furðuverk.

Það var svo greint frá því í Suðurlandi þann 30. september, 2011, að ferjan hefði verið tekin í notkun:

Fyrsta straumferja á Íslandi.

Straumferjan í Reykjanesi á Brúará, er nú tekin til fullra afnota, ferjað bæði fje og hestar, gestir og gangandi. Þykir hún fyrirtak til fjárflutninga rúmgóð og stöðug; furðar alla, hve hratt hún skríður yfirum ána í því nær straumlausu vatni. Í vor, er H. V. kaus stað þenna, var áin allmikil og straumur jafn og þungur landa á milli, enn í sumar og nú er hún upp á það allra minsta, aðeins hægt sig, en enginn straumur að kalla.
Spá því kunnugir, að straumferjum muni brátt fjölga á ám hjer eystra og víðar. Handhægri ferju er eigi hægt að hugsa sjer, og vírslit miklu minna en á dragferjum, en útbúnaður þó nær engu dýrari. Verður dragferjunni á Iðu óefað breytt í straumferju innan skamms, t. d. að vori. — Hefur H. V. reynt strauminn á Iðu og kom þá í ljós, að þar má auðveldlega setja upp straumferju, og er straummagnið eðlilega geysimikið. H. V. fór þar yfrum á bát — á straumferju vísu — og öslaði báturinn strauminn fram og aftur eins og á hröðustu siglingu. — Mundi það verða verkaljettir mikill og flýtisauki, þar sem dragferjan á Iðu er feikna þung og erfið viðureignar, en umferð afarmikil.
Einginn efi er á því, að nú fölgar straumferjum úr þessu, er menn hafa sjeð og reynt kosti þeirra fram yfir aðrar ferjur, er áður hafa tíðkast. Þýðir nú ekki lengur að berja höfðinu við steininn og segja að þessi uppfundning Helga sje tómt humbug. Munu margir til verða að reyna ágæti þessa nýja áhalds, áður langt líður. Þökk og heiður á höfundur hennar skilið fyrir dugnað sinn og hugvitsemi að bæta samgöngur í landi voru. (Suðurland)

Eftir þetta segir fátt að straumferju Helga og blöðin þögul um hvernig rekstur ferjunnar gekk. Í sarpinum er stuttur texti, sem er svar Jóns Guðmundssonar, sennilega bónda og fræðimanns í Fjalli á Skeiðum, en það hljóðar svo:

Straumferja var reynd á Brúará 1911. Var það Helgi Valtýsson sem það gerði, þessa tilraun gerði hann á ferjustaðnum í Reykjanesi. Hefi ekki nógu glöggar sagnir um þetta en væri ef til vill hægt að fiska eitthvað upp um það. Staðreynd að straumferjan var ekki notuð þar.

Það kom svo aldrei straumferja á Hvítá hjá Iðu.

Uppfært 12/2021