LAUGARVATNSMÁLIÐ

Árið 1953 og kosningar til Alþingis.

Tilefni þess að ég set þessa síðu inn er sú, að Knútur Kristinsson, þáverandi héraðslæknir í Laugarási, kemur aðeins við sögu, með skrifum í Morgunblaðið.

Frétt í Tímanum 13. maí, 1953

Það voru haldnar Alþingiskosningar þann 28. júní 1953.
Menntaskólinn að Laugarvatni var stofnaður þann 12. apríl og
26 nemendur hurfu úr héraðsskólanum í mótmælaskyni þann 27 mars.

Það eru viðkvæmir tímar fyrir frambjóðendur til Alþingis í aðdraganda kosninga og eins gott að gefa ekki andstæðinngum tilefni til að velta upp óþægilegum málum. Hneykslismál eru erfið viðureignar og fólk hneigist til að sveigja sannleikann umfram það sem alla jafna er raunin.

Þann 28. marz birtust í tveim blöðum, Þjóðviljanum og Morgunblaðinu frásagnir að brottför 26 þriðjubekkinga úr héraðsskólanum.

Þjóðviljinn:

Þriðji bekkur Laugarvatnsskólans farinn burt

Einn var rekinn – og nær 30 fóru.
Piltarnir komu hingað til bæjarins í gær.

Nær þrjátíu piltar á Laugarvatni, eða allir þriðjubekkingar, hafa gengið úr skóla og komu þeir hingað til bæjarins í gær. Ástæðan var sú að skólastjórinn vísaði einum þeirra úr skóla - og fóru þeir þá allir.

þjóðv.png

Tilefni brottgöngu piltanna úr skólanum var það að skólastjóri rak einn þeirra úr skóla. Brottvísunin átti sér stað fyrir nokkru, eða áður en þing Framsóknarflokksins hófst og mun hafa verið búizt við því að sættir tækjust þegar skólastjóri kæmi heim þaðan, en það fór á annan veg. Ástæðan til brottvísunarinnar er fjarvistir úr kennslutímum, en pilturinn fékk botnlangakast í vetur og lá þá í sjúkrastofu skólans. Síðar var hann stöku sinnum fjarverandi.
Skólastjórinn rak tvo pilta úr skólanum, en tók annan þeirra í sátt aftur og kröfðust bekkjarbræður þess sem ekki var tekinn í sátt að hann yrði einnig tekinn aftur. Þegar það fékkst ekki ákváðu þeir að ganga úr skóla og töldu óréttmætan brottreksturinn, því ef reka ætti fyrir skróp, bæri að byrja á öðrum sem meir hefðu skrópað. Tilkynntu þeir skólastjóra að þeir myndu allir fylgja honum eftir úr skólanum. Komu piltarnir hingað til bæjarins í gær. Piltar þessir áttu að ganga undir landspróf í vor og munu ýmsir þeirra fara austur til að ganga undir prófið í vor. Pilturinn sem rekinn var heitir Pétur A. Ólafsson og er frá Patreksfirði.

Sama dag er sagt frá sama viðburði, í Morgunblaðinu:

Laugarvatnsskólinn, eða Héraðsskólinn að Laugarvatni

26 skólapiltar sögðu sig úr Laugarvatnsskóla

Biðja um heiðarlega framkomu skólastjóra

ÓRÓASAMT hefur verið að undanförnu í Laugarvatnsskóla undir skólastjórn Bjarna Bjarnasonar. Að lokum sauð upp úr í fyrradag, þegar 26 skólapiltar í þriðja bekk sögðu sig úr skóla til að mótmæla brottrekstri eins félaga síns, sem þeir töldu að hefði verið vísað úr skóla harkalega og að ástæðulausu. Komu skólapiltarnir til Reykjavikur í gærdag með áætlunarferðinni úr Laugardalnum.

mbl.png

VEIKINDI NEMANDANS
Bjarni Bjarnason vísaði úr skóla fyrir rúmri viku pilti að nafni Pétur A. Ólafsson, frá Patreksfirði. Ástæðan mun hafa verið slæm tímasókn, sem þó stafaði af veikindum, en Pétur hafði fengið botnlangabólgu fyrir um það bil hálfum mánuði og taldi sig skorta þrek til að mæta í tíma.

ANNRÍKI SKÓLASTJÓRANS
Bjarni skólastjóri, mátti síðan ekki vera að því að hirða meir um mál þetta, en fór til Reykjavíkur, að því er skólapiltar telja, í stjórnmálaerindagerðum. Pilturinn, sem var brottrekinn fór ekki þegar í stað frá Laugarvatni, enda mótmæltu bekkjarbræður hans brottrekstrinum. - Um síðustu helgi kom Bjarni skólastjóri síðan snögga ferð austur að Laugarvatni. - Gekk Pétur þá á fundr hans og bað um forsendur fyrir brotfrekstrinum, sem Bjarni neitaði að gefa honum. Skólastjórann skorti enn tíma til að sinna skólastjórn. Fór hann aftur til Reykjavíkur, að því er skólapiltar telja í stjórnmálaerindum sem fyrr og kom enn austur að kvöldi miðvikudags.

KRÖFÐUST AÐ PÉTUR YRÐI TEKINN AFTUR INN
Á fimmtudagsmorgun neituðu bekkjarbræður Péturs að mæta í tíma og síðar um daginn komu þeir að máli við skólastjórann og kröfðust þess að hann tæki Pétur aftur inn í skólann. Bentu þeir m.a. á það, að Pétur hefði jafnan verið reglisamur, neytti hvorki tóbaks né víns og ástæðan fyrir því að hann hefði ekki mætt í tímum væri veikindi hans. Skólastjóri þvertók fyrir það.

SÖGÐU SIG ÚR SKÓLA
Við þessi málalok kvöddu skólapiltar Bjarna. Urðu það heldur kaldar kveðjur. Héldu þeir síðan fund með sér, þar sem allir bekkjarbræður Péturs samþykktu í einu hljóði, að segja sig úr skóla til að mótmæla þessum harkalegur aðgerðum skólastjórans. - Fóru þeir síðan daginn eftir til Reykjavíkur með áætlunabílnum og aðrir er búa á Suðurlandsundirlend til heimila sinna.

BIÐJA SKÓLASTJÓRA UM HEIÐARLEIKA
Mbl. átti í gær tal við nokkra skólapilta. Báru þeir þungan hug til skólastjóra síns eftir þessar aðfarir. Þeir kváðust samt bera löngun í brjósti til að halda áfram námi. En eitt skilyrði hlytu þeir allir sem heild að setja, að skólastjórinn kæmi heiðarlega fram við þá og hyrfi frá brottrekstri Péturs, sem er vinsæll í skólanum og hefur orðið fyrir hinu svartasta ranglæti í þessu máli.

Það leið ekki á löngu áður en Tíminn tók til varna og 31. mars, birti hann eftirfarandi:

Brottvikinn nemandi sekur um skróp – dagbók bekkjar eyðilögð

Yfirlýsing kennara um aðdraganda að brottför 27 nemenda frá Laugarvatni

timinn.png

Í síðastliðinni viku hurfu 27 piltar úr einum bekk Laugarvatnsskola þaðan brott, og töidu þeir orsök þess þá, að einn piltur úr bekknum, Pétur A. Ólafsson frá Patreksfirði, varð að hverfa þaðan sökum vanrækslu við nám. Mjög hlutdrægar og að mörgu beint rangar frásagnir af þessum atburðum hafa birzt í blöðum og hafa kennarar við Laugarvatnsskólann beðið Tímann fyrir leiðréttingu þá, sem hér fer á eftir:

Orsökin skróp.
Nemandinn, Pétur A. Ólafsson, sem þar er sagt að jvikið hafi verið harkalega úr 'skóla án saka, tók upp þann sið síðari hluta vetrar að mæta aðeins i kennslustund- 'um, þegar honum sýndist, og viðurkenndu bekkjarbræður hans oft, að um skróp væri að ræða, enda mætti hann í flestum "sundtímum (52 af af 56), og bætti tíma sinn hvað eftir annað og tók þátt í keppni. En nemandinn hafði sérstakan áhuga á sundi. Sýnir það, að fjarvistir nemandans stöfuðu ekki af veikindum. Aðeins einu sinni lá nemandinn með hita, og var þá læknir látinn skoða hann og taldi hálsbólgu vera orsökina, en hjúkrunarkona skólans mældi nemandann ætíð, er hann lá í rúminu. Að öðru leyti afsakaði nemandinn aldrei fjarvistir sínar hvorki við skólastjóra né kennara.

Nefndi aldrei veikindi.
Skólastjóri kom þráfaldlega að máli við nemandann og bað hann vinsamlegast að bæta ráð sitt, en án árangurs. Aldrei nefndi nemandi veikindi við skólastjóra né kennara. Að lokum setti skólastjóri nemandanum þá kosti að snúa við blaðinu eða hverfa af skólaheimilinu. — Ekki skipaðist nemandanum við það.

Eyðilögðu dagbókina.
Litlu síðar hvarf dagbók bekkjarins, sem hefði sannað sakleysi piltsins, ef um sakleysi hefði verið að ræða. Bekkjarbræður hans viðurkenndu að hafa eyðilagt hana. Fyrst tóku þeir allir á sig sökina, en eftir að þeir höfðu ákveðið að hverfa úr skóla, afhentu þeir skólastjóra lista með nöfnum átta nemenda, sem enginn ætlaði að taka landspróf, og sögðu þá valda hvarfi bókarinnar. Rétt eftir hvarf bókarinnar kom nemandinn að máli við gjaldkera skólans að athuga fjárreiður sínar og sagði honum, að hann myndi hverfa úr skóla næstu daga. Síðan kom nemandinn að máli við skólastjóra og spurði hann með miklum þjósti, hvort það væri alvara að hann ætti að fara. Skólastjóri svaraði, að hann væri sjálfur búinn að ákveða það, þar sem hann væri hættur að sækja kennslustundir og búinn að gera upp við gjaldkera. Vatt nemandi sér þá út þegjandi og reiðilega.

Brottför bekkjarbræðranna.
Næst gerist það, að bekkjarbræður Péturs tilkynntu skólastjóra, að þeir myndu allir hverfa úr skólanum, ef Pétur fengi ekki að vera þar áfram. Skólastjóri svaraði því þannig, að hann skipaði engum að fara né bæði nokkurn að vera kyrran. Því næst afhentu allir bekkjarbræður Pétus skólastjóra blað, þar sem þeir báðu um lausn úr skólanum. Þegar skólastjóri hafði fengið blaðið, kom hann að máli við nemendur bekkjarins og bauð þeim, að þeir mættu koma til prófs. Báðu nemendur skólastjóra að mega kveðja hann og gerðu það allir, nema Pétur. Ýmsir þeirra höfðu áður látið í ljós hryggð sína yfir athæfi sínu, en sögðust ekki geta snúið við og tóku fram, að þeim þætti leitt að valda honum óþægindum. Nokkrir nemendur báðu skólastjóra fyrirgefningar og beiddust að mega koma aftur að taka próf. Einn nemandi bað skólastjóra að strika sig út af listanum og að fá að koma aftur eftir páska. Var honum veitt það.

Rógur Morgunblaðsins.
Þetta er það, sem Morgunblaðið kallar „kaldar kveðjur." Þess skal getið, að stúlkur bekkjarins áttu hér engan hlut að og eru hér allar við nám. Viðvíkjandi fjarvistum skólastjórans frá skóla sínum, viljum við taka fram: Okkur er kunnugt um, að hann hefir ekki verið að heiman einn einasta dag, nema í nauðsynlegum erindum skólans, að undanteknum nokkrum dögum, er hann var til lækninga í Reykjavík, og 5 dögum, sem hann sat flokksþing Framsóknarmanna, en hann á þar sæti í miðstjórn. Kom hann þó einu sinni heim meðan á þingi stóð. | Að lokum viljum við láta í ljós undrun okkar yfir því ábyrgðarleysi Morgunblaðsins að birta slíka kviksögu, án þess að leita sér upplýsinga um, hvort nokkur fótur sé fyrir henni.

Ólafur Briem, Þórarinn Stefánsson, Þórir Þorgeirsson, Eiríkur Jónsson, Óskar Jónsson, Teitur Benediktsson, Stefanía Stefánsdóttir, skólahjúkrunarkona, Guðmundur Ólafsson, Þórður Kristleifsson, Haraldur Matthíasson, Bergsteinn Kristjónsson."

Það næsta sem birtist um málið var í Tímanum þann 1. apríl:

Laugarvatnsnemendur mótmæla rógburði Mbl

timinn.png

Á fundi í Mími, félagi menntaskólanemenda á Laugarvatni, 30. þ.m. var samþykkt eftirfarandi ályktun:
„Vegna fréttaklausu, sem birtist í Mbl. 23. þ.m., viljum við, menntaskólanemendur á Laugarvatni, taka eftirfarandi fram: í upphafi greinarinnar segir, að óróasamt hafi verið í Laugarvatnsskóla að undanförnu undir skólastjórn Bjarna Bjarnasonar. Hvað snertir menntaskóladeildirnar er þetta ekki rétt, því að sambúð skólastjóra og menntaskólanemenda hefir verið ágæt.
Að skólastjóri hafi ekki mátt vera að því að sinna skólastjórastörfum vegna stjórnmála, er furðuleg ásökun og dæmir sig sjálf. Skólastjóri hefir ekki verið að heiman í vetur nema dag og dag, þar til í þessum mánuði, er hann var tvívegis í Reykjavík nokkra daga í hvort skipti. Okkur er fullkunnugt um það, að í fyrra skiptið var hann þar í lækniserindum auk þess, sem hann sinnti störfum í þágu menntaskólans. Í seinna skiptið sat hann m. a. flokksþing eins stjórnmálaflokksins, en það getur á engan hátt talizt ámælisvert í lýðfrjálsu landi. Það er því hin mesta fjarstæða, að skólastjóri hafi vanrækt skólann, t. d. átti hann að sitja Búnaðarþing í vetur, en lét varamann sinn sitja þingið í sinn stað.
Samskipti þriðja bekkjar og skólastjóra eru okkur óviðkomandi, þar sem hér er um tvo skóla að ræða, en við hörmum að slíkur atburður sem þessi skuli hafa átt sér stað á Laugarvatni.

Skólastjóra goldnar þakkir.
Um þessi mánaðamót verður veitt skólameistarastaðan við Menntaskólann á Laugarvatni, þar með er lokasigrinum náð í baráttunni fyrir menntaskóla í sveit. Engum manni er sá sigur meir að þakka en Bjarna Bjarnasyni, sem þrátt fyrir margs konar erfiðleika og hindranir hefir barizt ótrauður fyrir þessu máli við lítinn skilning fyrst í stað, en nú munu flestir sammála um, hvílíkt sanngirnismál hér er um að ræða. Við þessi tímamót viljum við því færa B. B. fyllstu þakkir fyrir að hafa gert okkur kleift að stunda menntaskólanám hér, því mörgum okkar hefði eflaust reynzt ógerlegt að stunda slíkt nám annars staðar af fjárhagsástæðum.
F. h. Mímis: Jóhannes Sigmundsson (formaður), Kjartan pálsson (varaformaður), Árni Sveinsson (ritari), Björgvin Salómonsson (gjaldkeri).

Þá er aftur komið að Morgunblaðinu og þann 3. júni, birtir það þetta, með mynd af piltinum sem um ræðir:

Nemandinn frá Laugarvatnsskóla

mbl.png

LESENDUR blaðsins muna vafalaust eftir því, að á síðastliðnum vetri var einum nemanda í Laugarvatnsskóla vísað burt úr skólanum. En þá brá svo við, að 26 nemendur skólans gengu samtímis burt úr skólanum, því þeir álitu að félagi þeirra hefði með brottvísuninni verið beittur rangindum.

Nemandi þessi heitir Pétur A. Ólafsson frá Patreksfirði og er 15 áfa gamall. Var hann með botnlangabólgu og hafði slæm köst af veikinni, en hafði sæmilega líðan á milli og hagaði skólasókn sinni eftir því. En þeir, sem skólanum réðu, munu lítt hafa trúað á veikindin.

Eftir að Pétur var kominn heim til Patreksfjarðar voru veikindi hans með líkum hætti, og verið hafði á Laugarvatni. - Var gerður uppskurður á honum fyrir 3-4 vikum og gerði það héraðslæknirinn þar, Bjarni Guðmundsson. Gekk sú athöfn vel, en botnlanginn var mjög ljótur og sundurgrafinn. Eftir uppskurðinn hefur Pétur fengið snert af þarmalömun, en er á góðum batavegi, en liggur þó enn í spítalanum á Patreksfirði.
Ha.

Það var kosið til Alþingis þann 28. júní og tveim dögum síðar birtust í Morgunblaðinu tvær greinar; þær síðustu sem blaðið kvaðst myndu birta.

Fyrri greinina skrifaði bekkjarbróðir brottvikna piltsins:

Enn um Laugarvatnsmálið

VEGNA þess, að hið svonefnda Laugarvatnsmál hefur orðið bitbeini ýmissa manna bæði í ræðu og riti, og fólk virðist yfirleitt hafa fengið nokkuð rangar upplýsingar í þessu máli, þá finnst mér, að ég geti ekki lengur setið á mér að gefa dálitla skýringu á þessu máli.

Viðvíkjandi athugasemd kennaranna á Laugavatni, sem var birt 31. marz, í flestum dagblöðum bæjarins, finnst mér hún hljóða nokkuð mótsagnakennt í ýmsum atriðum. Í fyrsta lagi að undir hana skulu skrifa allir kennarar skólans, en nokkrir þeirra kenndu okkur alls ekki neitt, og gátu þess vegna lítið borið um okkar hegðun, og hitt að ekki hafði nema einn kennarinn afskipti af þessu máli, og þau lítil.

Þess vegna er sú spurning efst í huga mínum, hvernig gátu þeir gefíð einhverja skýrslu um málið og farið að réttlæta gerðir skólastjóra í einu eða neinu? Svo var mál með vexti, að snemma vetrar veiktist einn nemandinn, Pétur Ólafsson, nokkuð hastarlega af botnlangabólgu, og var ekki annað sýnna, en að hann yrði að hverfa frá námi og ganga undir uppskurð. Þegar frá leið batnaði Pétri dálítið og var talið óhætt að láta uppskurðinn bíða, þangað til um vorið.

Eins og gefur að skilja, þá kom mikill afturkippur í nám Péturs og leiddi það til þess, að hann fór að slá slöku við þá námsgrein, sem kemur sér einna verst að missa nokkuð úr, eða stærðfræðina. Fram eftir vetri var þessu ekki gefinn neinn gaumur, enda telst það ekki til neinna stórviðburða í þessum ágæta skóla, að nemandi skrópi í tíma. Þar til einn morgun, er skólastjóri var nýkominn úr einni för sinni til Reykjavíkur, og hugði á umbætur miklar, kom að máli við Pétur og sagði honum, án nokkurra skýringa, að nú væri veru hans lokið hér, og mætti hann fara.

En eins og og hetju sæmdi réðst hann ekki á garðinn, þar sem hann var „hæstur", með því að ráðast á þennan 14 ára gamla hálfmunaðarlausa dreng. Til þess að krafsa yfir þetta verk sitt rak hann annan pilt um leið, sem var að okkar dómi nokkuð óreglusamur, og þar að auki, sást sá sami sjaldan í tímum.

Eftir þessar röggsamlegu aðgerðir, fór skólastjóri aftur til Reykjavíkur, til að sinna öðrum óskildum störfum. Þar eð við töldum, að skólastjóri hefði ekki gefið fullnægjandi skýringu á brottrekstri Péturs, þá ráðlögðum við honum, að bíða þar til skólastjóri kæmi aftur. Þar eð okkur þótti ekki skemmtilegt, að sjá af góðum félaga, ákváðum við, að taka ásamt honum ábyrgðina af því, á okkur.

Þar sem við héldum, að skólastjóri hefði skipað einhvern í sinn stað í fjarveru sinni, snérum við okkur til eins kennarans, Ólafs Briem, og báðum hann skýringar á þessu máli.

Brást hann frekar illa við þessari málaleitun okkar, og kvaðst hvorki vita neitt um þetta né hafa nokkuð með þetta að gera. Af þessu ályktuðum við það, að skólastjóri hefði farið sínar eigin götur í þessu máli, og ekki ráðgazt við samkennara sína. Biðum við nú þess, að skólastjóri kæmi heim, svo hægt væri að fá ástæður fyrir þessum snögglega brottrekstri. Þegar skólastjóri kom aftur báðum við hann að mæta á fundi með okkur, svo hægt væri að ræða þetta mál.

Áður en fundur þessi var haldinn, báðu félagar mínir mig, að bera fram mótmæli gegn brottrekstrinum og tillögu til lausnar á þessu máli, og fer hún hér á eftir.

1. Að fjarvistir Péturs frá námi stöfuðu að mestu leyti af hans veikindum.

2. Eins og áður er sagt, hafði skólastjóri vísað öðrum nemanda burt úr skólanum, og hafði sá nemandi farið strax burt af staðnum, en vegna ókunnra ástæðna, hafði hann tekið þann nemanda aftur, þó að okkar dómi hefði sá sami brotið margfalt meira af sér heldur en Pétur, og kröfðumst við því fulls jafnréttis.

3. Að Pétur er alger reglurmaður og drengur hinn bezti, og þótti okkur það miður að skólastjóri skyldi víkja þessum nemanda frá en héldi eftir öðrum nemendum, sem höfðu orðið uppvísir að því að virða að vettugi þær reglur, sem skólinn setti þeim.

Á þessum forsendum fórum við fram á, að Pétur yrði aftur tekinn upp í skólann. Þessa tillögu okkar tók skólastjóri ekki til greina, og lýsti hann því yfir á fundinum, að sér væri sama, hvort við færum eða yrðum kyrrir, án þess að nokkur hefði minnst á brottför. Eftir þetta, héldum við bekkjarbræðurnir fund, og ræddum málið eins og okkur var unnt.

Þar sem við höfðum ekki fengið neina fullnægjandi skýringu á brottrekstri þessa nemanda, og að okkar dómi töldum við hann síður en svo brotlegastan af okkur, fannst okkur að eitt ætti yfir okkur alla að ganga, og ákváðum einróma, að segja okkur úr skólanum.

Hvað bekkjarbókinni viðvíkur, þá er það ekki nema helber ósannindi að bekkurinn hafi nokkurn tíma tekið þá sök á sig.

En hitt var það, að við gátum ekki hreinsað okkur af hvarfi hennar, af því að okkur var ókunnugt, hver var valdur að hvarfi hennar. Þótti okkur það því nokkuð lúalegt af skólastjóra, að koma með þetta mál á hendur okkur, þegar við höfðum sagt okkur úr skólanum, og hugðist hann geta notað það sem vopn gegn okkur, ef við reyndum að fara í aðra skóla.

Buðust þá átta piltar til að taka þetta mál að sér, en enginn þeirra ætlaði í landspróf, og gerðu þeir það eingöngu vegna okkar hinna, sem hugðumst taka landspróf.

Viðvíkjandi skólahjúkrunarkonunni, þá finnst mér, að hún hefði ekki átt að skrifa undir þessa athugasemd, þar sem hún var búin að gefa þá yfirlýsingu, að hún skyldi sjá um það, að Pétur færi aldrei af skólanum, sem rekinn, og skyldi hún fá lækni til að votta það, að Pétur hefði ekki getað sótt betur tíma um veturinn og skyldi hún staðfesta það. Hvað viðvíkur kennurunum í heild, sem undir athugasemdina skrifuðu, þá vil ég segja það, að þeir hefðu getað komið betur fram í þessu máli, eins og t.d. að koma með einhverja tillögu til lausnar á málinu, en eins og fyrr er sagt, létu þeir það alveg ógert, hvað sem því hefur valdið.

Þar sem málum er nú komið og engin skýrsla er fyrir höndum frá skólastjóra, getum við ekki annað en lagt málið í hendur almennings, þótt að síðustu orð skólastjórans hefðu hljómað á þá leið, að við þyrftum ekki að halda það, að hann yrði ekki tekinn trúanlegri, því að hans áreiðanleika þekktu flestir, og því mundi vera lítil uppreisnarvon fyrir málstað okkar. Vonumst við því fastlega til, að almenningur líti á þetta raunhæfum augum, en ekki eins og margir, og þar á meðal aðstandendur sumra piltanna, að þetta hafi verið frumhlaup eins pilts. Að endingu vil ég færa Pétri beztu kveðjur frá bekkjarbræðrum hans, með ósk um góðan og skjótan bata.

Með þökk fyrir birtinguna.
Jónatan Sveinsson.

Síðari greinina sem birtist í Morgunblaðinu þann 30. júni, skrifaði héraðslæknirinn í Laugarási, Knútur Kristinsson:

Í MORGUNBLAÐINU 3. júní s. l. er greinarstúfur ásamt mynd af piltinum, sem vikið var úr Laugarvatnsskóla s.l. vetur vegna meintrar vanrækslu við námið. Er þar minnt á fyrri skrif um málið og þess getið, að nú hafi pilturinn verið skorinn upp og hafi botnlanginn reynzt skemmdur, eins og pilturinn hafi haldið fram, og því þar með slegið föstu, að pilturinn hafi verið rangindum beittur, enda sagt, að forráðamenn skólans hafi lítt trúað á veikindi pilsins.

Út af þessu vildi ég mega gera stutta athugasemd, þar sem málið er mér nokkuð skylt, en ég var kvaddur til piltsins um það bil, sem veikindi hans byrjuðu. Sé um mistök að ræða gagnvart piltinum, ætti ég og hjúkrunarkona skólans miklu fremur að eiga sök á þeim, heldur en skólastjórinn, enda er hann löngu landskunnur fyrir farsæla stjórn á fjölmennasta héraðsskóla landsins, sem oftast mun hafa verið meir en fullsetinn og þó færri komizt að en vildu.

Mér er líka persónulega kunnugt um, eftir 6 ára samstarf, að hann lætur sér mjög annt um heilsufar nemenda, enda mun Laugarvatnsskólinn eini héraðsskólinn, sem hefur fastráðna hjúkrunarkonu, beinlínis til að vaka yfir heilsu nemendanna. Það hljómar því ekki trúlega, að skólastjóri telji kvartanir nemenda markleysu, nema í samráði við hjúkrunarkonu og lækni, en slíkt hefur aldrei skeð í mína tíð og, ég held ég megi fullyrða, aldrei áður heldur.

Ekki er mér síður kunnugt um samvizkusemi hjúkrunarkonunnar og hefur mér jafnan þótt „kvabb" hennar frekar of en van.

- Morguninn 27. jan. kvaddi hjúkrunarkonan mig til piltsins. Hafði hann daginn áður kvartað um þrautir í kvið og haft hitaslæðing um kvöldið. Þegar ég kom næsta morgun, var hann hitalaus og önnur einkenni að mestu horfin eða svo óljós, að ég taldi hæpið að úrskurða þetta botnlangabólgu að svo komnu máli. Taldi ég líka víst af fyrri reynslu, að hjúkrunarkonan gerði mér aðvart, ef áframhald yrði á slíkum köstum hjá piltinum. Þar sem langt var um liðið, man ég ekki hvort ég hafði orð á því og er ég þó að sjálfsögðu ætíð vanur því. En vel má vera, að mér hafi láðst það í þetta sinn, og mætti það yfirsjón teljast, einkum gagnvart piltinum, sem kynni að hafa fengið þá flugu, að ekki þýddi að kvarta, það myndi ekki tekið mark á því. — Gæti það verið skýring á síðari framkomu hans. Geta má þess, að hjúkrunarkonan var um þessar mundir ekki heil heilsu og lagðist síðar sárþjáð og liggur nú á sjúkrahúsi. Mætti hugsa sér að árvekni hennar hefði af þeim sökum dvínað lítilsháttar, þótt ekki yrði þess vart að öðru leyti. Hún hefur líka, sem að líkum lætur, marga ónæðisstund og vökunótt, þar sem saman eru komin 100—200 ungmenni á gelgjuskeiði, með allt sitt kvabb og kvartanir, enda oft kvillasamt í slíkum hóp, auk þess sem hún sinnir að einhverju leyti flestum sjúkum í skólaþorpinu og næsta nágrenni.

Alkunna er, hvílíkur lymskugripur botnlanginn er. Hann getur valdið tiltölulega óverulegum og óljósum óþægindum mánuðum og jafnvel árum saman, þótt töluvert skemmdur sé og þá vafist fyrir slyngustu sérfræðingum, hvað þá fyrir skólastjóra, hjúkrunarkonu og einum útkjálkalækni, að því er virtist, þegar honum bauð svo við að horfa. T. d. stundaði hann sundæfingar reglulega og tók þátt í sundkeppni og virtist þá kenna sér einskis meins. Og undarlega þóttu veikindi hans koma reglulega niður á vissum námsgreinum. Fjarri sé það mér að halda því fram, að pilturinn hafi aldrei fundið neitt til á umræddu tímabili. En ekki blandast mér hugur um, að eitthvað töluvert hefur verið bogið við framkomu hans gagnvart kennurum og skólastjóra. Þeir eru áreiðanlega ekki svo samvaldir harðjaxlar að leggjast þannig allir með tölu á einn nemanda sinn og beita hann viljandi rangindum og hef ég hér að framan reynt að gizka á sennilega skýringu á því, sem ég einn ætti þá óviljandi sök á. Hvaða þátt skaplyndi hans og upplag kunna að eiga í því, skal ég ósagt látið, það er mér með öllu ókunnugt um. En ekki er ég viss um, að það sé piltinum holl uppeldisáhrif, að halda uppi jafn þrálátri og ósanngjarnri málsvörn fyrir hann og raun ber vitni, jafnvel þótt líklegt þætti, að hann ætti ekki alla sök á, hvernig tókst.

Laugarási, 6. júní 1953. Knútur Kristinsson.





Það var margt fleira ritað og rætt um þetta mál og það hefur vafalaust reynt á fólk í tengslum við það, en þetta verður látið duga á þessum vettvangi og er einvörðungu sett hér vegna aðkomu héraðslæknisins að því.