Þorrablót kvenfélagsins 1955 -

Meðal þeirra sem höfðu forgöngu um að halda fyrsta þorrablótið í Biskupstungum, var Fríður Pétursdóttir, en í viðtali við hana kemur fram að fyrsta þorrablótið hafi Kvenfélag Biskupstungna haldið árið 1955.

Í fundagerðarbók félagsins er minnst á skemmtun sem það stóð fyrir á þorra, eða á þeim tíma árs og er talað um hana sem “vetrarskemmtun”. Þarna var samkomuhús sveitarinnar á Vatnsleysu og var svo þar til Aratunga tók við því hlutverki síðari hluta árs 1961.

Í fundargerð frá 22. mars, 1957 kemur orðið “þorrablót” fyrst fyrir en þar var samþykkt tillaga frá Kristínu Sigurðardóttur á Vatnsleysu um “að ágóði af þorrablótinu kr. 1.000” verði afhentur Kvenfélagi Selfoss til væntanlegs sjúkrahúss.

Þann 14. október, 1957 segir svo í fundargerð:

“Ennfremur var rætt um þorrafagnað og konur í Bræðratungusókn tilnefndar að sjá um undirbúning allan”.

Annan desember, 1958 segir í fundargerð:

“Þá var rætt um þorrafagnað og samþykkt að fela Úthlíðar- og Haukadalssókn að sjá um undirbúning að [honum]”.

Þorrablótið var þarna enn haldið að tilhlutan kvenfélagsins og kom það því í þess hlut að ráðstafa ágóðanum. Í fundargerð frá 26. maí 1959 segir:

“Þá var rætt um hvernig verja ætti ágóða af þorrafagnaði er kvenfélagið stóð fyrir. Voru nokkuð skiftar skoðanir um það og urðu um þetta nokkrar umræður. Sú samþykkt var gerð, að láta þessa upphæð kr. 800, renna til nýja barnaskólans”.

Ári síðar, 2. nóvember, 1959 er þetta bókað um þorrablót kvenfélagsins:

4. Ritari [Guðný Pálsdóttir, Hveratúni] flutti tillögu í sambandi við ágóða af þorrablóti. Hvernig þeim peningum væri best varið. Taldi hún upp ýmislegt sem barnaskólann vantaði og bar undir fundarkonur hvort ekki væri - og taldi að best bæri, að verja ágóðanum á einhvern hátt til skólans.
Formaður [Anna Magnúsdóttir] gat þess að það væri tvennt sem skólann vantaði tilfinnanlega í sambandi við kennsluna, þ.e. saumavél og skuggamyndavél og eftir nokkrar umræður var samþykkt að kaupa skuggamyndavél.
Þórdís á Krók kvaddi sér hljóðs og kvaðst hún eiga handsnúna saumavél sem þyrfti að láta gera við, ítillega. Ef félagið vildi kosta viðgerðina, kvaðst hún vilja gefa skólanum vélina og var því tekið með þökkum.

Á þessum sama funda var tekið fagnandi tillögu Jónínu Jónsdóttur [Jónu á Lindarbrekku] um að kvenfélagið héldi árshátíð. Mögulega er þessi samþykkt undanfarinn að því að félagið hætti að standa fyrir þorrablótum í sveitinni, og þó.

Næstu tvö árin er ekki minnst á þorrablótið í fundargerðum félagsins. Nýtt félagsheimili á hug félagsvenna allan og mikið fjallað um aðkomu félagsins að því. Það var ekki fyrr en þann 11. nóvember 1961, sem það kom næst til umræðu, en þá hafði nýtt félagsheimili, Aratunga, verið tekið í notkun. Í fundargerðinni segir svo:

Úr fundargerð frá 11. nóv. 1961:

Úr fundargerð 11. nóv. 1961 (fundarritari Guðný Pálsdóttir, Hveratúni)

6. Þorrablót.
Voru miklar umræður um hvernig heppilegast væri að haga væntanlegu þorrablóti. Samþykkt var að lokum að halda þeim sið, að borða úr trogum og að hvert heimili sæi um sitt trog.
Álitið var æskilegt að einhver væri beðinn að smíða trog. Að öðru leyti var Skálholtssókn falið að sjá um blótið.

Ekki verður annað ráðið af þessu, en að undirbúningur og framkvæmd þorrablótsins hafi smátt og smátt færst frá kvenfélaginu yfir á sóknirnar, en formlega var það áfram á forræði félagsins.
Í fundargerðabók sem lýkur í mars 1963 er ekkert frekar minnst á þorrablót. Áfram virtist mest orka kvenfélagskvenna fara í aðkomu félagsins að Aratungu.

Það má reikna með, að það hafi aldrei verið tekin formleg ákvörðun um að kvenfélagið hætti aðkomu að þorrablótinu og sóknirnar tækju við. Þessi breyting virðist hafa átt sér stað á nokkrum árum, sem afleiðing þeirra ákvörðunar kvenfélagsins að fela konum í einstökum sóknum að skiptast á um að sjá um þorrablótið.