Í kveðjuhófi

Pétur Skarphéðinsson og Gylfi Haraldsson
(mynd: Magnús Hlynur Hreiðarsson)

Það sem hér fer á eftir var flutt í kveðjuhófi sem var haldið til heiðurs læknunum Gylfa Haraldssyni og Pétri Skarphéðinssyni, í Aratungu, 12. janúar. 2017.

Höfundur textans er Páll M. Skúlason, en í forföllum hans flutti Halldór Páll Halldórsson töluna.


Gylfi og Rut, Pétur og Sísa.

Í textanum sem hér fer á eftir er fjallað um ykkur, í stað þess að talað verði til ykkar, ef frá er talin síðasta málsgreinin.

Undanfarin 30 ár eða svo hefur fólki ekki fjölgað mikið í Laugarási. Íbúarnir þar hafa hinsvegar elst nokkuð. Á þessu eru örugglega ýmsar skýringar, en hér vil ég bara nefna eina: Gylfa og Pétur. Áður en þeir komu á staðinn í byrjun 9. áratugarins hafði íbúum í Laugarási fjölgað heil ósköp frá því fólk fór að flytjast þangað um 1940. Fjölgunin var sérstaklega mikil á 15 ára tímabili, eftir miðjan sjöunda áratuginn. Eftir að þeir komu tók að hægja mjög á þessu og sárafáar nýjar garðyrkjulóðir hafa verið stofnaðar síðan. Þessir fáu sem hafa byggt eitthvað eftir það er aðallega fólk sem ber í brjósti einhverjar rómantískar tilfinningar til staðarins og fólk sem virðist oft ekki vera alveg áttað, eins og sagt er á læknamáli.

Það sem styður við þessa kenningu mína, ekki síst, er sú staðreynd, að eftir að ljóst varð að starfslok félaganna voru í nánd, hefur aftur farið að heyrast í börnum í skógarþykkninu.

Samhengið? Tilgáta mín hljóðar upp á það, að þeir sem á annað borð settust hér að, hafa bara ekki viljað fara aftur, því eftir því sem aldurinn færist yfir leggur maður meira upp úr örygginu sem ein besta læknisþjónusta á landinu býður upp á.

Svo segir það sig sjálft, að því eldri sem íbúarnir verða, því minni líkur verða á að maður mæti barnavögnum á heilsubótargöngum.

Ekki fer ég lengra með þessa pælingu. (lesari: Áhugaverð pæling)

Mér hefur oft dottið í hug að Pétur og Gylfi séu að mörgu leyti eins og tvíburar. Í fortíð og nútíð, aftur í ættir, alveg til dagsins í dag blasa við okkur sannindi, sem hafa spunnið þann örlagavef sem hefur leitt okkur til þessa kvölds. Hér mun birtast ykkur, ágætu gestir, ýmislegt sem varpar ljósi á og skýrir ríflega þriggja áratuga samstarf læknanna tveggja, sem hér sitja nú varnarlausir með fjölskyldum sínum og bíða þess sem verða vill.

Gylfi og Pétur eru jafnaldrar, en það er einn þeirra þátta sem einkennir tvíbura.

Þá er einnig er margt í ætt þeirra og uppruna sem styður vangaveltur af þessu tagi: Nöfn fólks í umhverfi þeirra, nú eða þeirra sjálfra, eru mörg hver fremur óvenjuleg. Eins og allir vita þá heitir Pétur, Zóphónías að millinafni, en það nafn fékk hann frá langafa sínum, síra Zóphóníasi Halldórssyni í Viðvík. Uppruni Gylfa er á Snæfellsnesi, en þar er að finna óvenjuleg nöfn sem fylgja ættum og viti menn, hét ekki móðurbróðir Gylfa, Soffanías? Móðir Gylfa var Kristín Cecilsdóttir og bróðir hans heitir einmitt Cecil, séra Cecil Haraldsson. Hvaða svar á Pétur við því? Jú, einmitt. Faðir Péturs var prestur; séra Skarphéðinn Pétursson, prófastur í Bjarnarnesi, Zópóníasson, en það sem meira er, þá er bróðir Péturs einnig prestur, séra Guðjón Skarphéðinsson.

Ég er sannarlega ekki hættur að tína til það sem tengir félagana Pétur og Gylfa saman, en verð auðvitað að stikla á stóru, (þó svo ég sé þess fullviss að sá sem hér stendur og les þetta, væri alveg til í að lesa fram eftir kvöldi).

Það var reyndar ekki fyrr en eftir menntaskóla, Gylfi frá MA og embættispróf frá HÍ 1974, Pétur frá MLog embættispróf frá HÍ 1975, sem mennirnir tóku að bruna eftir samsvarandi braut í lífinu, eftir því sem best er vitað.

Báðir fóru þeir til Svíþjóðar í framhaldsnám, báðir sóttu þeir um stöðu í Laugarási í byrjun 9. áratugarins, og báðir fengu.

Þar með voru þeir komnir í Laugarás og hafa eiginlega bara ekkert farið þaðan síðan.

Til að tryggja varanlegt nágrennið hvor við annan völdu þeir sér, þegar þar að kom, lóðir hlið við hlið í Laugarási og ljúka loks störfum á sama tíma.

Það er varla að hægt sé að tala um æviskeið annars án þess að hinn komi við sögu.

(Hér væri upplagt ef lesarinn myndi snúa sér í tvo hringi áður en hann heldur lestrinum áfram)

Þegar nýr læknir kemur í sveitina þar sem flestir þekkja flesta, þarf hann dálítið að vinna í þvi að skapa sér ímynd. Leiðin að þessari ímyndarsköpun getur verið vandrötuð og líklegra en ekki að læknirinn falli ekki í kramið hjá öllum. Jákvæð ímynd læknisins felur í sér fullkomið traust sjúklinganna til hans sem fagmanns, annarsvegar og hinsvegar byggir hún á því hvernig persóna læknisins birtist sjúklingunum, annarsvegar í viðtalsherberginu og hinsvegar í öðrum samskiptum.

Pétur og Gylfi fengu fljótt á sig það orð, að vera fagmenn fram í fingurgóma. Um það held ég að uppsveitamenn séu almennt sammála. Það var hinsvegar þegar kom að birtingarmynd persónanna, sem þetta gat orðið aðeins skrautlegra svona til að byrja með.

Ég man eftir samstarfsmanni mínum sem fór í fyrsta skipti til Péturs og sagði farir sínar ekki sléttar eftir. Pétur mun, í samskiptum þeirra, hafa fjallað heldur frjálslega um málin, svona eins og hans er von og vísa. Ég gat þá, í krafti þekkingar og mannskilnings (hér segir lesarinn: HE, HE) leiðrétt misskilninginn sem uppi var. Síðar, þegar nýr samstarfsmaður þurfti að kíkja á heilsugæslustöðina, beitti ég fyrirbyggjandi aðferðum, svo reynslan af heimsókninni ylli ekki umtalsverðu tráma (læknisfræðilegt hugtak). Þar með var allt í góðu.

Ég held að ég þurfi ekki að fjölyrða um hve samskipti læknis og nágranna geta verið snúin. Þau mega helst ekki verða of náin, þar sem þau tilvik geta komið upp þegar læknirinn þarf að fást við þá líkamsparta eða sálarkima sem enginn annar má vita af og ekki er talað um, sem síðan gæti mögulega haft í för með sér, að vissu leyti, þvingaðri samskipti en ella.

Það gæti nú aldeilis verið fróðlegt að gægjast inn í hugarheim Gylfa og Péturs; sjá þar ríflega 30 ára safn af leyndarmálum bæði gengins og núlifandi uppsveitafólks.

Félagarnir eru í huga mér svo jafn ágætir að ég man ekki hvor þeirra það var sem kallaði eftir því að ég færi að hreyfa mig meira. Á þeim tíma var ég víst byrjaður að bæta nokkuð á mig.

Auðvitað tók ég mark á tilmælunum og hóf reglubundnar gönguferðir um allar þær götur, vegi og stíga sem finna má í Þorpinu í skóginum. Ég velti því auðvitað fyrir mér, fullur réttlætiskenndar, hversvegna ég mætti þeim félögum aldrei á þessum heilsubótargöngum. Ég taldi, að ef læknir ráðlegði sjúklingi að hreyfa sig, hlyti hann sjálfur að iðka heilsubótargöngur af krafti.

Ég neita því ekki, að nokkrum sinnum hef ég séð fótspor Gylfa í nýfallinni mjöll.

Fótspor Gylfa?

Já, maður þekkir fótspor Gylfa.

Einu sinni hef ég mætt Pétri með kraftgöngustafi, sem hann útskýrði þannig að „frú Sigríður“ hefði skipað sér að fara út að ganga.

Ekki hafa félagarnir þurft að loka sig af, vegna stöðu sinnar.

Pétur fann golfið, eða golfið fann Pétur. Það hefur einhvernveginn verið viðkvæðið þegar spurt er um Pétur, þegar hann er ekki heima: „Hann er sennilega í golfi“.

Pétur er mikið í golfi.

Gylfi gekk meðal annars til liðs við Lions og það samband virðist hafa enst ansi vel, hvað sem menn nú taka sér fyrir hendur í þeim félagsskap. Hann hefur einnig verið drjúgur nefndamaður – sóknarnefnd, skógræktarnefnd og svo framvegis.

Svo sem í flestu öðru, eru Pétur og Gylfi ótrúlega samstíga í fjölskyldumálum. Miklar ágætis konur eiga þeir, þar sem eru Sísa og Rut. Ennfremur eiga þeir tvö börn hvor: pilta, sem eru eldri og stúlkur, sem eru yngri.

Gylfi eignaðist sín börn með fyrri konu sinni, en svo kom Rut til skjalanna með 3 syni.

Ekki hef ég nema gott eitt um þessar fjölskyldur að segja. Ég gæti sannarlega sett það hér í orð, en það verður að bíða betri tíma. (það breytir engu þó lesarinn gæti vel hugsað sér að renna í gegnum slíka umfjöllun).

Launrétt 2 og 3

Ef við hugsum okkur hjónin tvenn, sem hér er um að ræða, sem blandaðan kór, þá er þar ýmsar samlíkingar að finna. Þar væri Gylfi augljóslega bassinn, Pétur tenórinn, nema hvað, Rut myndi manna altinn og Sísa sópraninn.

Bassinn er alla jafna fremur hæglátur og það er eins og hann bíði alltaf eftir að fá að reyna sig við djúpa tóninn í enda verksins. Bassar eru tregir til að taka efri tón en þann neðsta sem í boði er. Einu skiptin sem maður verður var við togstreitu innan bassans er, þegar verk sem sungið er, gerir ráð fyrir að bassinn skipti sér á milli tveggja tóna. Í þeirra huga eru það bara hálfgerðir tenórar sem taka efri tóna.

Það má að mörgu leyti segja það sama um altinn. Hann fer ekki hátt, en ef hann er ekki til staðar heyrast þess glögg merki.

Tenórinn dansar á efstu tónunum og kann hvergi betur við sig. Hann vill að til sín heyrist og það kemur æði oft fyrir að sópraninn snýr sér við í forundran og aðdáun. Það er oftast sussað á tenórinn, þegar hann þykir syngja af heldur miklum ákafa og sannarlega á hann það til að fara fram úr sér.

Sópraninn ber laglínuna á herðunum, kvartar yfir háu tónunum, en nýtur þeirra samt.

Eitt skýrasta dæmið um hvernig þessi kórsamlíking á rétt á sér er, að í Langholtinu í Laugarási eru bassinn og altinn búin að hreiðra um sig á jafnsléttu, en sópraninn og tenórinn talsvert ofar í holtinu.

Persónur Péturs og Gylfa eru afar ólíkar og þar með eru þeir kannski meira eins og mörg hjón. Það er oft sagt að því ólíkari sem hjón eru, því betur gangi sambúðin. Hjón eru oft nefnd í sömu andrá, til dæmis: Guðný og Skúli, Hjalti og Fríður, Ingibjörg og Hörður. Þannig er það einnig með þessa félaga. Við tölum um Pétur og Gylfa eða Gylfa og Pétur, reyndar einnig um Pétur og Sísu og Gylfa og Rut. Þannig eru sambandsmál þeirra flóknari en fólks yfirleitt.

Það var nefnt við mig að ég myndi verða einhverskonar fulltrúi sjúklinga og nágranna með þessu erindi, sem er auðvitað mikill heiður. Það verður hinsvegar hver og einn að lesa í þær aðstæður sem nú eru uppi og sem valda því að ég flyt ekki þennan pistil sjálfur.

Ég neita því ekki, að það, að standa ekki hér sjálfur, og flytja eigin orð, skapar ákveðið frelsi og það kann að hafa haft áhrif á þennan samsetning.

Pétur og Gylfi og fjölskyldur þeirra eru nú ekkert farin úr Laugarási þó þeir séu hættir að segja okkur til í heilsufarsmálum. Þeir eru enn á góðum aldri og geta þannig haldið áfram göngu sinni í nýfallinni mjöllinni í Þorpinu í skóginum.

Ég hef ekki trú á öðru en þeim muni takast vel að burðast með þakklæti okkar uppsveitamanna og vonast jafnvel til að það nái að lyfta þeim upp fremur en hitt.

Ég hef stundum spurt mig að því hvað ég hafi gert af mér til þess að verðskulda að þurfa að vera samtíðarmaður tiltekinna einstaklinga, sérstaklega á stjórnmálasviðinu. Ég get alveg með sama hætti spurt hvað ég hafi afrekað til að verðskulda læknaparið sem við höfum getað leitað til á nóttu sem degi í yfir þrjá áratugi.

Fyrir mína hönd og allra sjúklinganna og nágrannanna, þakka ég.

Páll M. Skúlason

uppf. 10.2018