Iða og Iðuferja

Iða á seinni helmingi 19. aldar.

Sömu fjölskyldurnar höfðu búið á Iðu frá miðri 19. öld í það minnsta. Þannig tók Sigmundur Friðriksson við búi af móður sinni Margréti Jörundardóttur á vesturpartinum árið 1860, þá 19 ára og kona hans var þá Ólöf Sigurðardóttir. Þau bjuggu síðan á Iðu til æviloka beggja. Ekki hefur fundist skráð í kirkjubókum, hvernig það átti sér stað, en Ólöf hvarf fá Iðu hið örlagaríka ár 1903. Það verður að gera ráð fyrir að hún hafi látist, enda orðin 63 ára og Sigmundur 64 ára.

Ólafur Gottsveinsson (1835-1881) var tökubarn á Iðu og tók við búi á austurpartinum upp úr 1860 og bjó þar til dauðadags. En þá tóku við búinu þau Guðmundur Guðmundsson (1847-1930) og Jónína Jónsdóttir (1863-1941) og þau hurfu á braut árið 1900, þegar Runólfur Bjarnason og Guðrún Markúsdóttir komu til skjalanna, hann þá 34 ára en hún 26 ára.

Fram til um 1880 var þríbýli á Iðu og frá því um miðjan sjötta áratug aldarinnar bjó þar Jón Vigfússon (1831-1899) ásamt konu sinni Ingveldi Markúsdóttur (1828-1875), Jón stundaði áfram búskap á Iðu til 1882, en eftir það hefur verið tvíbýli á Iðu.

Iða, aldamótaárið 1900

Staðan á Iðu var sú, aldamótaárið 1900, að í vesturpartinum bjuggu Sigmundur Friðriksson, 59 ára og Ólöf Sigurðardóttir 60 ára og tvö barna þeirra, þeim Ásmundur (1874-1918) og Elín (1886-1908).
Á austurpartinum bjuggu, fyrri hluta árs þau Guðmundur Guðmundsson, (1849-1930), ættaður frá Austurhlíð í Biskupstungum og Jónína Jónsdóttir frá Auðsholti, ásamt sex börnum sinum. Þau stefndu um þetta leyti á að flytja vestur um haf en “Eyrarbakki varð þeirra Ameríka”, segir í minningargrein um dóttur þeirra, Ingveldi.

Í stað þeirra Guðmundar og Jónínu fluttu að Iðu þau Runólfur Bjarnason og Guðrún Markúsdóttir.

Þá voru skráð á Iðu í sóknarmannatali þetta ár, þau Jón Guðmundsson og María Guðmundsdóttir. Þau höfðu búið á Tortu og Bryggju í Biskupstungum. Þeirra er ekki getið í sóknarmannatali á Iðu utan þetta eina ár. Sonur þeirra, Eiríkur, varð síðar bóndi á Helgastöðum (ca. 1932-1966). Jón er sagður vera ættfaðir Setbergsættar.

Iðuferja um aldamótin 1900

Það var hlutverk ábúenda á Iðu, árið 1900, eins og væntalega í aldir, að ferja fólk og farangur milli Iðuhamars og Skálholtshamars. Þar sem það var tvíbýli á Iðu skiptu ábúendur ferjustörfunum milli sín, en á þessum fyrstu tveim áratugum aldarinnar, sem hér um ræðir, gekk á ýmsu.

Þegar Runólfur Bjarnason flutti með fjölskyldu sína að Iðu austan úr Skaftafellssýslu var þar fyrir bóndi og ferjumaður til áratuga (frá því 1855 í það minnsta), Sigmundur Friðriksson. Augljóslega margreyndur ferjumaður, en þarna að verða sextugur og vísast farinn að lýjast.
Það þarf ekki að koma á óvart, að viðskiptavinir Iðuferju hafi mótað sér skoðanir á ferjumönnunum tveim, þeim Sigmundi og Runólfi, en hann var sagður dugnaðarmaður.

Þegar læknissetrið var flutt í Skálholt aldamótaárið, fór eins og búast mátti við, að umferð yfir Brúará, úr Grímsnesi og Laugardal og yfir Hvítá, af Skeiðum Gnúpverjahreppi og Hrunamannahreppi, jókst talsvert. Þetta hafði í för með sér aukið álag á ferjumennina, ekki síst á Iðu, en milli ferjustaðarins og bæjarins er tæpur 1 km.

Árið sem Skúli Árnason tók við héraðslæknisembætti (1900), sá hann ástæðu til að leggja til við sýslunefnd Árnessýslu, að “taka ferjuna á Iðu af bændunum Sigmundi og Jóni [Guðmundssyni], sökum þess hvað þeir hafa stundað ferjuna illa, en fela hana þriðja ábúandanum á Iðu, Runólfi Bjarnasyni, sem er reyndur að dugnaði” Sýslunefndin treysti sér ekki til að taka tillögu Skúla til greina að svo komnu, “eða ekki fyr en hin nýju ferjulög koma í gildi, en lét í ljós að hún myndi gjöra þetta síðar, svo framarlega sem ekki yrðu ráðnar verulegar bætur á misfellum þeim sem yfir er kvartað.”

Segja má að þetta erindi Skúla hafi markað upphafið á deilum um ferjuna, sem stóðu næstu árin: deilum eða ósætti milli ábúendanna á Iðu og deilum ferjumanna við hreppsnefnd Biskupstungnahrepps.

Ferjulúður

Skúli læknir óskaði eftir því við sýslunefndina árið 1904 að fá uppsetta ferjulúðra á Skálholtshamar og gegnt Reykjanesi. Um lúður á Skálholtshamar sagði hann: “Að ofanverðu Hvítár við Iðuferju þarf að hafa lúður til þess að kalla með ferju, því vegalengdin ofan yfir ána að Iðu er svo mikil, að ferjan verður ekki kölluð nema logn sé. Best væri að festa lúðurinn á staur, er rekinn væri niður að ofanverðu árinnar.” Nefndinni var hinsvegar “ekki ljós nytsemi þessa, né hvernig ætti að nota þá; svo vantaði og upplýsingar um kostnaðinn.”

Tveim árum síðar samþykkti nefndin þó að veita fé til ferjulúðra, en hvergi kemur fram að þeir hafi verið settir upp, enda kemur fram í bréfi Skúla árið eftir (1907) að enn séu engir lúðrar komnir og ekki lá fyrir hvort það var sýslunefnd eða hreppsnefnd sem ætti að sjá um það.

Ekki hafa fundist umtalsverðar upplýsingar um ferjúlúður á Skálholtshamri, en í frásögn sem Björn Th. Björnsson skrifaði í Þjóðviljann árið 1972, getur hann um lúður:

Frá Skálholti liggur svo leiðin yfir Iðubrú, annan af tveim helztu ferjustöðum á Skálholtsleið að fornu, til skamms tíma eða fram í minni elzta núlifandi fólks, var á Iðubakkanum geysimikill handsnúinn hávær lúður — til að kalla á ferjumanninn. Mér er sagt að heyrzt hafi í honum niður á Stokkseyri og Eyrarbakka, undan vindi. Nú er hann horfinn, en í staðinn er komin brú þar yfir.

Fólk sem Björn hefur kallað “elzta núlifandi fólk” gæti hafa verið á níræðisaldri og þar með má reikna með að einhverntíma á síðustu tveim áratugum 19. aldar hafi verið lúður á hamrinum, en um þetta er ekkert fullyrt hér.

Dragferjan 1903

Sú krafa kom fram meðal Tungnamanna, að þeir fengju auðveldari samgöngur til umheimsins. Þá þegar voru komnar dragferjur á Héraðsvötn (1892) og Eyjafjarðará (1902) og horfðu Tungnamenn til þess, þegar þeir skrifuðu mikið bréf til Sýslunefndar Árnessýslu í apríl, 1903:

Hreppsnefnd Biskupstungnamanna leyfir sér hjer með að beiðast liðsinnis hinnar heiðruðu sýslunefndar Árnessýslu til að koma á dragferju á Hvítá að Iðu.
Tungnamönnum er það mikið áhugamál, að því fyrirtæki geti framgengt orðið nú þegar í vor, enda munu allir, sem til þekkja, játa að það sé mikil nauðsyn.
Tungnamenn eru verst settir allra Árnesinga að því er snertir samgöngur og aðdrætti, þar sem þeir eigi aðeins eiga lengsta leið í kaupstað, heldur hafa og stórárnar Brúará og Hvítá, sína á hvora hlið og þriðja stórvatnið, Tungufljót, skiptir sveitinni að endilöngu. Að vísu er nú góð brú á Brúará, svo að sjaldnast þarf að sundleggja hesta til Reykjavíkur, þó getur það komið fyrir, því að brúin er svo sett, að bæði er þangað mikill krókur fyrir marga sveitarmenn, svo að þeir nota hana ekki nema í brýnustu nauðsyn, og landslagi er svo háttað beggja vegna við hana, að þar er opt ófært hestum úr því snjór er kominn til muna. Þrátt fyrir það hafa þó flestir Tungnamenn til þessa kosið að sækja heldur yfir Brúará til Reykjavíkur, heldur en niður á Eyrarbakka, og er þó vegamunur svo mikill, að munar hjer um bil 2 dögum í hverri lestaferð. Aðalorsökin til þess er sú, að Hvítá er þröskuldur á leiðinni niður á Eyrarbakka. Hún er, eins og kunnugt er, miklu meira vatnsfall en Brúará og auk þess flugmikil dögum saman, bæði haust og vor, þegar ferðalög eru mest, og stundum svo, að hún er engum hesti fær. Eptir því sem miskunnsemi við skepnur fer í vöxt, blöskrar mönnum meir og meir að sundleggja hesta sína yfir hana hvað eptir annað og hvernig sem á stendur.

Um brú yfir hana á hentugum stað getur ekki verið að tala, til þess er áin langt of breið og því hefur nú verið vakið máls á því, að setja á hana dragferju. Með henni er unnið það þrennt, 1) að ekki þarf að sundleggja hestana, 2) ferðamenn þurfa ekki að telja sig þurfa að spretta af hestunum, jafnvel ekki taka ofan klyfjarnar og 3) hvorki væta sig né farangur sinn, sem opt vill verða á hinum ferjunum.

Vitanlega verður dragferja ekki notuð nema á sumrin, en á vetrin er lítið um lestaferðir yfir Hvítá hvort sem er, nema á ís. Það má telja víst, að er dragferjan væri komin, mundu Tungnamenn snúa verzlun sinni miklu meir til Eyrarbakka og Stokkseyrar heldur en nú, til þess að spara sjer Reykjavíkurferðirnar, sem eru svo miklu lengri, eins og áður er sagt.

Máli þessu til undirbúnings hefur verið leitað álits verkfróðra manna. Herra Páll Jónsson vegagjörðamaður, hefur skoðað ferjustaðinn og gjört mælingar þar, er hann taldi nauðsynlegar. Síðan hefur málið verið borið undir verkfræðing landsins, herra Sigurð Thoroddsen og hefur hann lofað að gjöra uppdrátt af ferjunni og áætlun um kostnaðinn. Var svo ráð fyrir gjört, að áætlun sú kæmist til hreppsnefndarinnar nú fyrir sýslufund, en því miður hefur það brugðist, og getur því hreppsnefndin enga vissa hugmynd haft um kostnaðinn. Þar er þó sú bót í máli, að ráðstöfun hefur verið gjörð til þess að áætlunin verði send oddvita sýslunefndarinnar svo að hún verði þar til sýnis er mál þetta kemur til umræðu í sýslunefndinni. Hið eina sem hreppsnefndin getur byggt á, að því er til kostnaðarins kemur, er það, að dragferjurnar á Héraðsvötnum kostuðu önnur rúml. 1300 kr, en hin rúml. 1000 kr og má ætla, að kostnaðurinn yrði svipaður við dragferju að Iðu.

Nú má að vísu segja, að fyrirtæki þetta sje mest fyrir Tungnamenn, og er það satt, þó má benda á það, að margir eiga erindi yfir Hvítá að Iðu úr öðrum sveitum, ekki síst nú, síðan Skálholt varð læknissetur, og allur helmingur umdæmisins verður að sækja til læknisins yfir Hvítá, og þá einmitt helzt á þessum stað. Þar á og prestur yfir að sækja og sóknarfólk til kirkju sinnar.

En þó væntum vjer, að sýslunefndin líti einkum á það, að hjer er að ræða um mikið nauðsynjamál, sem vert er að styðja, bæði vegna manna og skepna. Það er einnig hið fyrsta fyrirtæki þess kyns hjer um slóðir og sýnist mega fremur njóta þess en gjalda.

Þá er og á það að líta að hjer á sá hluti sýslunnar í hlut, sem á örðugra aðstöðu í samgöngumálum en aðrir. Landssjóður hefur tekið ómakið af flestum öðrum hreppum sýslunnar með því að brúa Ölfusá, svo að nú þurfa menn þar hvorki að sundleggja hesta sína, nje tefja sig, nje gjalda ferjutolla. Leggja Tngnamenn þar árlega til sinn skerf eins og aðrir sýslubúar, til þess að losa þá við töf og kostnað og hesta þeirra við sund, en sjálfir hafa þeir brúarinnar svo að segja engin not. Þykir það, sem og er, ekki nema sjálfsagt, því það heimtar allur fjelagsskapur, að hver beri byrðina með öðrum, en hart mundi oss þykja, Tungnamönnum, ef þeir hreppar sýslunnar, er fengið hafa, án sjerstakra fjárframlaga slíka samgöngubót sem Ölfusárbrúin er, vildu lítið eða ekkert styrkja oss til að fá þá litlu samgöngubót, er nú förum vjer fram á.

Ekki kemur oss þó til hugar að fara fram á það að sýslan kosti dragferju þessa að öllu leyti, en vjer leyfum oss að fara þess á leit, að hin heiðraða sýslunefnd vilji veita allt að helmingi kostnaðarins úr sýslusjóði. Vér ætlum, að vísu, að sýslunefndin vilji heldur veita einhverja tiltekna upphæð til þessa fyrirtækis, enda er oss það jafnkært, en með því að vjer höfum eigi fyrir oss áætlun um kostnaðinn, viljum vjer ekki nefna upphæðina, heldur fela það sýslunefndinni, því að, eins og áður er sagt, treystum vjer því, að áætlunin verði komin til hennar, þegar málið kemur til umræðu.

Að því er snertir framkvæmd verksins sjálfs, skal geta þess, að hreppsnefndin hefur ætlað Páli Jónssyni, verkfræðingi, að sjá um það, og munu allir er þekkja hann, telja allvel fyrir því verki sjeð, er hann á að stjórna.

Biskupstungnahreppi 11. apríl 1903

séra Magnús Helgason, Torfastöðum
Björn Bjarnarson, Brekku
Gísli Guðmundsson, Kjarnholtum
Ingimundur Ingimundsson Reykjavöllum
Geir Egilsson Múla
Eiríkur Eiríksson Miklaholti

Sýslunefndin samþykkti að leggja 550 krónur í þessa framkvæmd og dragferjan var sett upp þá um sumarið. Það var Páll Jónsson “vegagjörðamaður” sem sá um uppsetningu hennar.

Skömmu eftir að ferjan hafði verið sett upp, drukknaði bóndinn og ferjumaðurinn Runólfur Bjarnason við notkun hennar. Frá þessu slysi var sagt í Þjóðólfi (greinin er einnig á þessum vef) og Skúli Sæland, sagnfræðingur skrifaði um það grein í Litla Bergþór 1. tbl. og 2. tbl, 2018.

Guðrún Markúsdóttir (fyrir miðju) ásamt börnum sínum, skömmu eftir að hún flutti frá Iðu.

Eftir lát Runólfs hélt ekkjan, Guðrún Markúsdóttir áfram búskap á Iðu og Páll Jónsson, sem hafði sett upp dragferjuna, kom til hennar sem fyrirvinna (starfsheiti í sóknarmannatali). Þau sinntu ferjustörfunum á móti Sigmundi. Ekki er ljóst hvernig þessari skiptingu var háttað, en reikna má með að þarna hafi verið um að ræða einhverskonar vaktaskipulag.

Ferjan var þannig, að strengur var festur sitthvorumegin árinnar og síðan voru ferjubátarnir dregnir eftir strengnum í stað þess að vera róið. Dragferjan var hjá Iðu fram til 1917, en þá var hún flutt að Spóastöðum og notuð þar, þar til brú hafði verið byggð þar árið 1921.

Framan af komu upp ýmis vandræði varðandi þessa nýju tegund af ferju. Meðal annarra, sá Skúli Árnason, héraðslæknir, ástæðu til að hvetja sýslunefnd til að semja reglugerð um notkun hennar og setja yfir hana eftirlitsmann. Það sama gerði hreppsnefnd Biskupstungnahrepps árið 1905 í bréfi til sýslunefndar og þar fékk erindið þessa afgreiðslu:

Hreppsnefndin í Biskupstungnahreppi skoraði á sýslunefndina að semja reglur fyrir dragferjuna á Iðu, þar eð hreppsnefndin ekki geti komist að samningum við ferjubændurnar. Sýslunefndin álítur sér ekki skylt, jafnvel naumast heimilt að semja reglugjörð um þetta, sem hafi fult gildi, heyri það beinlínis til hreppsnefndinni, enda hefir sýslunefndin ekki þá staðlegu þekkingu, sem til þess þarf. En með því að sýslunefndin hefir yfirumsjón með þessari ferju, sem öðrum lögferjum, vill hún fyrir sitt leyti kjósa mann til að vera í ráðum með hreppsnefndinni um þetta. Til þessa var kosinn nefndarmaður Hrunamannahrepps. Jafnframt vill sýslunefndin benda á það, að ef viðunandi samningur ekki næst um þetta við Iðubændur, annan hvorn eða báða, þá sé reynt að ná samningum við annan þar nærri, t.d. bóndann í Laugarási.

Áfram var unnið í því að fá einhverja viðunandi lausn á þessu máli en ekki virðist það hafa gengið sérlega vel.

Það virtist verða æ meira aðkallandi að leysa vanda ferjunnar og um hann var fjallað á öllum sýslunefndarfundum. Á fundi sínum 1906 fól nefndin hreppsnefndinni í Biskupstungum “að hafa nákvæmt eftirlit með ferjunni og helzt að hafa sérstakan eftirlitsmann. Ef ekki yrði hægt að koma á viðunandi samningum við Iðubændur, eða þeir ekki stundi og hirði ferjuna sem með þarf, þá skyldi reyna að semja við Laugarásbónda og þá flytja ferjuna þangað.”

Ákall um breytingar

Eftir þessa samþykkt sýslunefndar sá Guðrún á Iðu sér ekki annað fært en bregðast við, bréflega enda hafði hún ekki rödd á fundum nefndarinnar. Eftirfarandi bréf Guðrúnar, sem einnig er undirritað af Páli Jónssyni, er að finna í bréfasafni sýslunefndar, en rétt er að taka fram, að á einstaka stað er að finna ólæsileg orð.
Bréf Guðrúnar:

Iðubæirnir 1906 - teiknað af dönskum mælingamönum

Af sýslufundi Árnessýslu 1904 má sjá, að (kosin?) var maður til að semja við Iðubændur um dragferjuna við Iðuhamar, en með því hann hefur ekki komið að semja við mig um þetta mál, þá varð ég að sleppa ferjurétti mínum sökum svo óaðgengilegra skilmála er tungnahreppsnefnd setti, eða að öðrum kosti leita hans í aðra átt, en hef þó ekki gjört það fyr en nú að ég fer þess á leit. Verð því að skýra þetta mál nokkuð nákvæmar.

Sem öllum sýslubúum mun kunnugt var dragferja sett á Hvítá við Iðuhamar sumarið 1903 af tilhlutan sýslunnar og tungnahrepps. Ferjan kostaði als um 1.000 kr., hún sjálf rúm 800 og strengurinn tæp 200 kr. Enginn getur annað álitið en þetta væri mikil samgöngubót fyrir ferðamanninn á móti því að flytja á róðrarbátum og þá ekki síður þegar skoðað er frá mannúðarlegu tilliti. Því á meðan dragferjan verður brúkuð þarf öngvan hest að sundleggja. Þar á móti verður hún að öllu útgjaldaliður á ferjumanninum og öngvu hægari flutnings aðferð með núverandi fyrirkomulagi því róðrarbáta verður að hafa sem áður, því hún (drf.) verður ekki brúkuð nema að sumarlagi þegar áin er íslaus.

Nú vildi hreppsn. (tungnahr) að ferjan yrði eign ferjubænda með sömu ferjutollum, að öðru en því, að 5 aura skyldi borga fyrir hest hvern er hafður væri í henni, en það var sama gjald og halda í hest á eftir róðrarbát. Að þessum skilmálum gat ég ekki gengið, að minnsta kosti ekki fyr en ég var búin að sjá hvað þessi inntekt hennar næði til að jafna útgjaldalið hennar, sem voru að öllu ný útgjöld, en inntektin að nokkru eða öllu tekin frá róðrarbátnum, en engin sönnun var fengin (í fyrstu) hvort fleiri myndu brúka hana til hestaflutninga en hesta á eftir róðrarbát. Þennan reikning hélt ég sumarið 04 og var það að mjög jöfnu útgjöld og inntekt það árið, en nákvæmur gat hann ekki verið, sem meðfylgjandi skýrslur og athugasemdir sýna. Þessi reikningur var svo sendur til oddvita (t.hr).

Sumarið 1904 samþykti hreppsnefnd að ferjan skyldi vera eign hreppsins, en ég mætti halda hana, með því að borga hana ef hún færist fyrir handvömm, en viðhald hennar og önnur útgjöld – sem hljóta að vaxa með tímanum – var ekki frekar rætt að öðru en lausleg tillaga um að mundi meiga hækka ferjutolla á utanhreppsmönnum – einkum utan sýslu – að jafna á móti útgjöldunum. Þessa samþykt vildi ég ekki gangast undir og get heldur ekki í efnahagslegu tilliti, hvað sem út af bar og fyrir þetta var ég neydd til að sleppa ferjurétti mínum, en skil þó svo 7. gr., að rétti mínum hafi verið misboðið.

Síðan hefur hreppsnefnd haft hana sem eign hreppsins. Hefur hún leitast við að fá aðra að gegna ferjustörfum en ekki komist að aðgengilegri skilmálum – með ferjutolla og annað – en við Sigmund sambýlismann minn, en hverjir þeir eru, veit ég ekki, mér hafa þeir ekki verið (kyntir?), enda álit skilmála frá hreppsnefnd og öðrum en sýslunefnd óviðkomandi gagnvart núgildandi ferjulögum.

Í vetur eða vor tapaði Sigm[undur] bát sínum í ána, en með því hann hafði ekki annan forsvarlegan ferjubát, sem meðfylgjandi vottorð st.st. (séra Stefán Stephensen] vitnar, þá var minn fenginn, en af því mér hefur gengið fremur ervitt að fá útborguð skuldaviðskifti mín hjá Sigm[undi] og hreppsn[efnd], búin að taka ferjubát minn, þá fór ég þess á leit við oddvita í áheirn Jóns bónda í Skálholti og heimilisfólks míns, að hann hlutaðist svo um, að ég fengi um 10 kr. þóknun fyrir bátslánið og færði hann það í tal við Sigmund á heim. Tómasar hreppstjóra og J[ón] bónda í Skálh[olti]., en hann tók þá dauflega undir að greiða neina þóknun og var því þá slept, eða að minsta kosti hef ég ekki orðið vör við hann; þegar ég var orðin vonlaus að fá neinn greiða þá fór ég þess á leit við séra Stefán í Laugardalshólum að hann gæfi mér meðmæli sín til sýslunefndar ef ég vildi krefjast þess og gaf hann þá góðfúslega það meðfylgjandi vottorð sitt, án þess að ég hefði nokkra heimtingu af honum að geta það fremur en öðrum sérstökum ferðamanni (sem?) brúkaði bátinn eftir það.

Þegar fyrst var þröngvað svo að rétti mínum að ég sá mér ekki fært að halda honum, sökum 400-800 kr. ábyrgðar sem ég mátti búast við að borga hvað sem útaf bar, því þó svo væri að orði komist, að mér bæri ekki að borga ferjuna að öðru en ef hún færist fyrir handvömm (og ég af öllum vilja gjörð að láta það ekki ske) þá hafði ég öngva tryggingu fyrir hvort fremur mundi álítast ef óhöpp kæmu fyrir.

Eigi nú einnig að fara að brúka bát minn sem ferjubát eftir þörfum, án nokkurs endurgjalds og eiga á hættu að hann glatist á mína ábyrgð, þar hann er í þess manns höndum er ég get síst treysti til þeirra hluta, þá get ég ekki lengur stilt mig um að snúa mér með þetta mál, er mér virðist að við eiga. Strangri réttarkröfu vil ég þó ekki að sé framfylgt í þessu máli og heldur vil ég gefa eftir bátslánið í þetta sinn, arðleysi hans og viðhaldi í 2 ár og önnur óþægindi sem ég hef orðið fyrir að þessum tíma, en að það þurfi að kosta málarekstur, en vil þar á móti mælast til að þér hr. sýslumaður sem oddviti sýslun[efndar]. hlutist svo um við sýslunefnd að ég hér eftir hafi og haldi ferjurétti mínum óskertum eftir sem áður (þar ég get ekki séð að ég hafi brotið af mér ferjurétt minn) á meðan ég er ábúandi á Iðu og vil þá gangast undir

1. að halda ein ferjuna í 2 ár að jöfnu við það sem sambýlismaður minn hefur haft hana, þar ég hef jafnrétti við hann sjá 5. og 6. gr. með þeim skilmálum er réttsýni þeirra mælir með, er um þetta mál – lögferjumál – eiga að ræða, sjá 3,4,5,6,.... 20 og í heild sinni allar greinar ferjulaganna.

2. Með því að semjendur núgildandi laga hafa ekki haft neina hugmynd um dragferju, né tilkostnað við hana, sjá 14, 15 og 19. gr. þá að sá tilkostnaður verði tekin til greina, eða samið við mig um hann.

3. Þá eru og um nokkrar lagagr. sem mér virðist að verði að koma sér saman um við sýslunefnd, þar til önnur, ný lög verða samin og mun ég benda á þær á sínum tíma.

Iðu 29. okt. 1906

Guðrún Markúsdóttir
-------------------
Páll Jónsson

Vottorð sr. Stefáns:

Bréfi Guðrúnar fylgdi vottorð séra Stefáns Stephensen í Laugardalshólum. Hann hafði verið prestur á Mosfelli, en hætti prestskap árið 1900. Hann lét sig talsvert varða samgöngumál í uppsýslunni, skrifaði meðal annars greinar í blöð og lenti í ritdeilum.

Sr. Stefán Stephensen (1832-1922)

Af gefnu tilefni vottast hjermeð það, sem nú skal greina:

22. apríl þ.á. [1906] kom ég á Iðuhamar fyrir ofan ána, ásmt oddvita Biskupstungnahrepps Birni Björnssyni á Brekku og kölluðum við ferju. Eftir nokkra bið – jeg man ekki hvað langa – kom ferjumaður á litlum bát og víst um það leyti hálfum af vatni og sá ég þó að hann þurrjós hann áður en hann lagði frá landi. Jeg spurði því ferjumann (Sigmund) hvort hættulaust væri að fara út í þessa fleytu og svaraði hann því svo, að varlegra væri að við Björn færum sinn í hvorri ferð, einkum þegar hestar væru hafðir á eptir.

Það varð því samkomulag að Björn fór á undan með reiðveri okkar beggja og hjelt í hesta okkar, 3 að tölu. Yfir ána ætla ég að þeir ekki hafi verið lengur en svarar þrem mínútum í allra mesta lagi, en þótt báturinn væri orðinn þurausinn áður en þeir lögðu frá landi, stóð ferjumaður lengi í austri áður en hann færi að sækja mig.

Jeg játa að mjer þótti ekki fýsilegt að fara útí þetta hrip, og spurði jeg því ferjumann hvort hann áliti það hættulaust, hann taldi það víst, en áminnti mig þó jafnframt um að stíga sem varlegast í bátinn, hann væri fúinn og gæti stígvélið því farið niður úr væri ekki því varlegar farið. Jeg komst þó slysalasut yfir um, enda var veður lygnt og gott.

27. apríl um kl. 3 e.m. kom jeg framan af Eyrarbakka og falaði ferju upp yfir. Þá var stormur og æði mikið frost og nokkurt ísskrið í ánni. Þá var áin talin ófær og mun það hafa verið rjett. Seinna um kvöldið lægði storminn og bað ég þá Ásmund, son ferjumanns að skoða ána og taldi hann vel fært. – Jeg fór því með hest minn niður að ánni ásamt ferjumanni og syni hans. Þá var, að mínu áliti vel ferjandi vegna storms og eins lítið ísskrið við framland og vel leggjandi hestur í ána, hefði ferja verið í nokkurri mynd og það skildist mjer einnig á Ásmundi, syni ferjumanns. Hitt kom okkur öllum saman um, að sem báturinn, sem Sigmundur hafði ráð á, og áður hefur verið lýst, væri alls ekki leggjandi í ána. Jeg varð því að hverfa frá og náttaði mig á Iðu, „hjá sambýliskonu“ Sigmundar.

Morguninn eptir var sami stormur; gekk jeg þá niður að ánni og var hún þá alþiljuð af ísskriðs hroða á ferjustaðnum og fyrir framan hann stórar íshroða (hrannir?) hingað og þangað, sem auðsjáanlega stóðu botn á grynningunum, auð sund voru í milli, nema nema hvað stöku sinnum braut stærri og smærri jaka úr þessum hroða ís. Það var því auðsjeð að áin var vel fær hvenær sem dúraði, væri til ferja er nokkurnveginn mætti treysta. Jeg fann þá álitlegt ferjuskip á hvolfi, skammt frá ferjustaðnum og spurði Sigmund hver það ætti og var það Guðrún, sambýliskona hans. Jeg skoraði fast á Sigmund að fá skip þetta ljáð, þar eð fúa skrifli hans var alls ekki leggjandi í ána, en því þverneitaði hann. Jeg fór því til Guðrúnar, sambýliskonu Sigmundar og fjekk hjá henni leyfi fyrir ferjuskipi hennar, með því skilyrði að hún fengi hæfilega þóknun fyrir notkun þess og stakk jeg upp á hálfum ferjutollinum við hana og síðar við Sigmund og fannst mjer þau bæði taka því vel.

Þegar ferjan þannig var fengin, fór jeg fram á við Sigmund, að hann þá þegar pjakkaði skipið upp – það hvolfdi og var frosið niður – og setti skipið niður að ánni svo allt væri tiltækt hvenær sem dúraði, en hann neitaði því. Þetta var þó ekki lítið verk og Sigmundur ekki fær um það nema með hjálp sambýlisfólksins.

Líðandi að middegi fjekk jeg því framgengt að skipið var sett niður að ánni og allt búið til að ferja hvenær sem dúraði. Eptir það fór að smá draga niður veðrið, en þegar jeg áleit ferjandi vegna storms, nálægt kl 6 e.m., var annar aðalferjumaðurinn (sonur Sigmundar) genginn til fjár, en Sigmundur ófær að ferja einn. Sigmundur vildi þá láta mig bíða næsta morguns og taldi víst að þá yrði logn. Svo fór þó að smalinn náðist seint um kvöldið fram við Vörðufell og jeg komst uppyfir nálægt sólarlagi. Björn á Brekku kom að ánni þegar ég var nýfarinn og átti það mínum undirbúningi að þakka, að hann komst yfir tafalaust. Morguninn eptir var óferjandi vegna storms.

Ferjuskip Guðrúnar á Iðu mun síðan hafa verið notað eingöngu nálægt ½ mánaðar tíma og als engin þóknun komið fyrir, og svo nokkuð, ásamt dragferju, eptir að hún komst út.

Þess má einnig geta, að Sigmundur missti ferjubát sinn, allgott skip, í flóði á útmánuðum. Skipið mun hafa náðst, óskemmt, á Kiðjabergi og því von bráðar komið að Árhrauni, en þar ljeði Sigmundur það, þótt hann vissi sig svo gott sem bátlausan heima, og þar mun það vera enn.

Í sambandi við það sem nú hefur verið tekið fram, álít jeg rjett að geta þess, að síðan 28. apríl, hef jeg nokkrum sinnum notað Iðuferju. Eitt skifti varð jeg að bíða fyrir ofan rúman klukkutíma. Tvö skifti, sem jeg kom framan að var dragferjan fyrir ofan og Sigmundur með hana, annað sinni, hitt skiftið hafði hann ljeð hana. Í bæð skiftin varð að sækja hana uppeftir og tók það vitanlega mikinn tíma.

Allt það, sem jeg hef nú tekið fram, virðist mjer bera svo ljótan vott um það, hvernig ferjan á Iðu er stunduð, að óþarfi sje að fara enn fleiri orðum; enda furða að slíkt háttalag skuli líðast.

Laugardalshólum 25. ágúst, 1906
S Stephensen.

Áskorun Skúla:

Skúli Árnason, læknir, var iðinn við að berjast fyrir samgöngubótum, enda treysti hann, starfs síns vegna, mjög á viðunandi samgöngur. Hann sendi erindi til sýslunefndar vorið 1907 varðandi Iðuferju:

Ég hefi nokkrum sinnum skrifað sýslunefndinni útaf dragferjunni á Iðu, en hún ekki tekið umkvartanir mínar til greina, en að sögn látið það í ljósi að Biskupstungnahreppi einum kæmi hún við.

Ég er hinni háttvirtu sýslunefnd ekki samdóma í því, með því ég veit ekki betur en hún heimti árlega álit hreppstjóra um allar lögferjur, og undir lögferjur finst mér dragferjan hljóti líka að heyra.

Að því er dragferjuna á Iðu snertir, þá verð ég að segja það, að með hana hefur verið farið svo illa sem frekast hefur verið unnt að fara með nokkurn hlut. Viðhald hennar hefur  verið lítið, bikuð einusinni eða tvisvar. Skjólin á hástokkum ferjunnar hafa ekki hreyfst, að minnsta kosti ekki 2 seinastliðin ár, svo strengurinn hefur étið þau svo að stutt er orðið inn að miðjupunkti hjólanna. Við þetta hefur strengurinn slitnað mest og þar ekki að búast við góðri endingu á strengnum meðan hjólin eru þannig. Hreppsnefndin ætlaði seinastliðið ár að fá ný hjól, en mér vitanlega eru þau ekki komin ennþá og ætti þó ekki að þurfa heilt ár að útvega þau. Þó er ótalið það sem verst er, og er það það, að dragferjan hefur í allan vetur setið í ánni og verður það að teljsat trassaskapur ferjubóndans Sigmundar Friðrikssonar á Iðu, sem 2 seinastliðin á hefur haft allan flutning yfir ána bæði sumar og vetur.

Þegar ég sá að  Sigmundur ætlaði ekki að koma ferjunni á land, skrifaði ég oddvita Biskupstungnahrepps 2var sinnum og skoraði á hann að hlutast til um að ferjan yrði sett á land, en árangurslaust. Seinsat bar ég það upp á almennum hreppsfundi og var ég þá beðinn að sjá um að ferjan yrði sett upp. Ég fór strax til vegagerðarmanns Páls Jónssonar á Iðu og bað hann að hafa einhver ráð með að ná henni upp og lét hann þá það álit sitt í ljósi, að það væri orðið um seinan, með því að ferjan væri bæði full af klaka og frosin svo í ís að þýðngarlaust væri að reyna það. Ferjan hefur því verið niðri í ánni síðan í fyrra vor, að hún var sett fram.

Ég vil því enn á ný skora á hina háttvirtu sýslunefnd að hún semji reglur fyrir dragferjuna eða feli hreppsnefnd Biskupstunganhrepps að gera það og ennfremur að hlutast til um að ferjan verði rækt betur en gert hefur verið  til þessa, bæði séð um að menn bíði ekki við ferjuna og hún sé það vel mennt að flutningur geti gengið tafarlaust.

Sagt er, að  Sigmundur ferjubóndi hafi tekið ábyrgð á dragferjunni að hún fari ekki í ána fyrir handvömm, en ég fyrir mitt leyti geri ekki mikið úr þeirri ábyrgð þó ferjan hafi ekki farið í ána þennan vetur.

Sýslunefndin lét seinastliðið ár lúður til þess að kalla ferjuna með, en ekki er farið að setja hann upp enn. Hvort á ferjubóndi eða hreppsnefnd að sjá um skýli fyrir hann?

Þetta dragferjumál er að mínu áliti svo miklivægt, að sýslunefndin má ekki ganga framhjá því.

Virðingarfyllst
Skálholti 11. apríl 1907
Skúli Árnason

Afgreiðsla sýslunefndar:

Á sýslunefndarfundi árið eftir var bókað í gjörðabók sýslunefndar: Út af umkvörtunum um margfalda vanrækslu og vanhirðu á dragferjunni við Iðuhamar, skoraði sýslunefndin á hreppsnefndina í Biskupstungum að bæta úr þessu með nýjum, glöggum og haganlegum samningum við þá sem ferjan verður falin, svo og að ganga stranglega eftir því að ferjan verði betur hirt og stunduð eftirleiðis. Jafnframt skoraði sýslunefndin á oddvita sinn að vera til aðstoðar við samningana, ef með þarf og hafa strangt eftirlit með því, að þeir sem ábyrgð og umsjón ferjunnar verður falin, gæti skyldu sinnar í því efni.


Í framhaldinu kvað sýslumaður síðan upp úrskurð, sem fól í sér, að ferjan var tekin af Sigmundi og færð Guðrúnu.

Í umboði sýslunefndar Árnessýslu hefi ég undirritaður oddviti nefndarinnar 17. f.m. gjört þá ráðstöfun um lögferjuna að Iðu, að annaar ábúandinn á nefndri jörð, ekkjan Guðrún Markúsdóttir, skal ein hafa ferjuna á hendi eptirleiðis samkvæmt lögum þeim sem gilda um lögferjur hjer í sýslu.
Að því er snertir dragferju þá, sem hreppsnefnd Biskupstungahrepps hefur komið upp á nefndum ferjustað, ráða um viðheld hennar og notkun, samningar milli ferjubónda og hreppsnefndarinnar, sem samþykktir voru á manntalsþingi að Vatnsleysu 17. f.m. af báðum málsaðilum og eru á þá leið:
1. að ferjubóndi skal gæta ferjunnar vandlega, hirða vel og annast um, að hún sje jafnan í góðu standi, en tekur að öðru leyti enga ábyrgð á henni.
2. Tekjur af dragferjunni teljast að eins flutningagjald fyrir lausa hesta, 5 aur. fyrir hvern og skal ferjubóndi gera reikning á ári hverju fyrir þeim tekjum.
3. Tekjum skal varið til árlegs viðhalds ferjunni, en hrökkvi þær ekki til, skal hreppsnefnd Biskupstungnahrepps bæta ferjumanni hallann. Verði aptur á móti tekjuafgangur, skal ferjumaður standa hreppsnefndinni skil á honum.
4. Verði ágreiningur um ferjuna eða viðhald hennar, milli ferjumanns og hreppsnefndarinnar, sker sýslunefndin úr í þeim ágreiningi.

Skrifstofu Árnessýslu, 2. júlí, 1907
Sigurður Ólafsson

Tími breytinga

Sigmundur lést í nóvember, árið eftir að hann missti ferjuna. Í febrúar það sama ár lést dóttir hans, Elín úr berklum, 22 ára að aldri. Sonur Sigmundar, Ásmundur (32) tók við búinu og var á Iðu fram á næsta ár, en hvarf þá á braut. Hann er sagður hafa verið sjúklingur í Reykjavík árið 1910 og lést 1918. Ekki er ólíklegt að hann hafi náð í berkla eins og systir hans.

Í hans stað fluttu á vesturpartinn, árið 1909, þau Sigurður Sigurðsson (1879-1946) og móðir hans Margrét Þorláksdóttir (1849-1926). Þrem árum síðar kom kona Sigurðar, Jórunn Ásmundsdóttir frá Efstadal (1880-1970) til liðs við þau.
Árið 1914 fluttu Sigurður og Jórunn í Efstadal, en Margrét bjó áfram á Iðu með dóttur sinni Jónínu Margréti Jónsdóttur (1888-1971) til ársins 1917, þegar Jóhann Guðmundsson og Bríet Þórólfsdóttir komu til skjalanna, en afkomendur þeirra hafa búið á Iðu síðan.

Vandræði áfram

Með því ferjan hafði verið tekin af Sigmundi og rekstur hennar afhentur Guðrúnu var bara við einn aðila að eiga um málefni ferjunnar og segir ekki af neinum átökum um ferjumálin næstu ár - í það minnsta ekki neinum sem gögn hafa fundist um, utan kröfu erfingja Sigmundar um að fá ferjuréttinn til sín að sínum hluta:

Margrét Sigmundsdóttir (1870-1935) og Einar Eiríksson (1861-1909)

Eins og yður er kunnugt, hr. sýslumaður, var dragferja tekin af tengdaföður mínum Sigmundi sál. fyrir tveimur árum.
Nú viljum við, erfingjar, fá ferjuna aptur að okkar parti, því það er ekki svo lítil tekjugrein fyrir ábúandann, en ég er ekki vel fróður um hvert ég á að snúa mér í þessu máli, hvort það er beint til yðar, eða til sýslunefndar. Er það því vinsamleg bón mín til yðar, að þér leiðbeinið mér þessu viðvíkjandi, og ef það á að ganga til sýslunefndar, þá að þér vilduð – fyrir mína hönd og erfingjanna, láta það ganga inn á sýslufund þann sem nú á að fara að halda.

Virðingarfyllst
Einar Eiríksson

Einar Eiríksson var tengdasonur Sigmundar, kvæntur Margréti (1870-1935) og þau bjuggu á Helgastöðum. Hann lést nokkrum dögum eftir að hann ritaði bréfið til sýslumanns og ekki verður séð að erindi hans hafi fengið einhverja afgreiðslu.

Páls þáttur Jónssonar

Erfingjar Sigmundar Friðrikssonar gerðu kröfu um að það þeir fengju ferjuréttinn “aptur að [sínum] parti”, eins og segir í bréfi þeirra til sýslumanns hér fyrir ofan. Það má draga þá ályktun af því, að ferjurétturinn hafi legið hjá báðum, eða öllum ábúendum á Iðu á hverjum tíma.
Í ljósi þessa var ekki von á öðru, en þegar nýr ábúandi kom á jörðina eftir að tíma Sigmundar og fjölskyldu hans lauk, hafi hann sóst eftir að fá ferjuhaldið að sínum hluta, en það hafði Margrét alfarið, samkvæmt samningi þar um, með dyggri aðstoð Páls Jónssonar.

Þessi staða leiddi síðan til nokkurra átaka næstu árin, eða þar til Guðrún lét af búskap á Iðu og flutti burt.

Fyrstu merkin má finna í bréfasafni sýslunefndar, en þar er um að ræða bréf, sem Páll skrifaði sýslumanni, fyrir hönd Guðrúnar, þar sem hann gerir grein fyrir þróun og stöðu ferjumálanna.

Um ferjuhaldið á Iðu

Það er fyrir hönd húsmóður minnar, Guðrúnar Markúsdóttur, að ég skrifa um þetta mál, sem nú mun eiga að leggjast til umræðu á sýslufundi af tilhlutan Biskupstungnahrepps, sem ekki hefir látið sér þetta mál afskiftalaust síðan hún kom þar upp dragferjunni, sem þó er ekki samrýmanlegt við núgildandi ferjulög, miklu fremur hið gagnstæða, sambr. 7. gr. Það mun þó eigi hafa verið hugsun hennar í fyrstunni að gjöra lagabrot á ferjubónda með þessari afskiftasemi sinni með ferjuhaldið, heldur hinu, að dragferjan var betra flutningstæki – einkum fyrir hesta – heldur en róðrarbátur, en svo vildi hún, að ferjubændur tækju hana sem eign sína, eða þá að taka ábyrgð á henni. Þessar tillögur hennar voru svo óaðgengilegar að þeir sáu sér ekki fært að gangast undir þær, því ferjan kostaði rúm 1.000 kr. sem þeir áttu að taka að sér til ábyrgðar, auk annarra lögskipaðra ferjubáta, sem einnig þurfa að vera, sökum vetrarflutninga. Þá kom hreppsn. með þá tillögu – eða öllu heldur hótun á ferjubændur, að hún sjálf tæki að sér ferjuhaldið eða útvegaði ferjumann og semdi við hann. Þetta gjörði hún líka þannig, að hún samdi við annan ferjubóndann á Iðu, Sigmund Friðriksson, en um þá vissi ég ekkert, mér voru þeir ekki sýndir, en ferjan var tekin af mér, án þess ég vissi af nokkrum lögmætum ástæðum. Undan þessari ólögmætu aðgerð hreppsnefndar kvartaði ég þó ekki fyr en í því sambandi, að bátur minn var einnig tekinn sem ferjubátur án endurgjalds og ábyrgðar, en þá bað ég yður sem lögreglustjóra, að hlutast um að réttindum mínum væri ekki þannig misboðið hvað eftir annað.

Um þetta sama leyti kom hver umkvörtunin á aðra til Sigmundar sem ferjumanns gagnvart lögum. Svo mun hreppsn. ekki hafa þótt hann halda samninga við sig. Af þessum ástæðum var ferjan tekin af honum samkv. lögum, en þér í umboði sýslun. veittuð mér hana aftur 17. júní, 1907 án þess þó að rétta hluta minn að öðru leyti, gagnvart hreppsn. sem ég fór heldur ekki fram á. Sama dag gjörðist lauslegur samningur á millum mín og hreppsnefndar um dragferjuhaldið, sem höfðu þó ekki formlegt gildi fyr en með bréfi yðar dags. 2. júlí, 1907, undirskrifaðar af yður og báðum málsaðilum.

Þessi samningur var svo réttsýnn og óhlutdrægur á báðar hliðar, að ég skrifaði undir hann með fúsu geði og hef líka leitast við að halda hann, enda hafa ekki komið neinar verulegar umkvartanir, svo ég viti, frá hreppsnefnd né öðrum um ferjuhaldið, utan miður sæmandi aðdróttanir, helst frá oddvita, sem ég vil helst álíta að hafi ekki stafað af öðru en ókunnugleika hans og er það leiðrétt af mér.

Síðan 1907 hefi ég því haldið ferjuna, án nokkurs ágreinings eða umkvörtunar, það hefur heldur ekki verið öðrum til að dreifa, fyr en næstl. vor. Enginn hefir viljað halda hana að þeim tíma og mætti hreppsn. vera mér þakklát og það því fremur, sem mér hefir ekki komið til hugar að þröngva að samningunum, enda álít ég það heimildarlaust að öðru leyti en beggja málsaðila.

8. þ.m. var hreppsfundur haldinn að Vatnsleysu og tjáði þá nefndin mér að sambýlismaður minn, Sigurður Sigurðason vildi taka ferjuna þannig að tekjur og gjöld mættust, að strengnum meðtöldum. Þessum boðum hlyti ég að sinna ef ég vildi halda hana að hálfu við hann, að öðru leyti bæri honum ferjan öll, þar ferjurétturinn fylgdi jörðinni en ég væri búinn að hafa hana lengi (á meðan enginn fékkst). Þessu áliti hreppsn. gat ég ekki verið samþykkur, hvorki af því að ég álít hún hafi ekki komið, né komi nú löglega fram í þessu máli gagnvart mér. Svo efast ég um að hún hafi leyfi – þegar henni sýnist – að lítilsvirða ferjurétt þann og samninga sem áður er á minnst.

Í sambandi hér með, má geta þess, að ég hefi borgað 55,16 kr til oddvita sem tekjumismun af ferjureikningum.

Væri um nokkurn ágreining að ræða í þessu máli frá minni hlið – sem ekki er – þá mundi ég eiga að leggja hann fyrir sýslun. samkv. 4. gr. í áður nefndu bréfi yðar, en í tilefni af því, að hreppsn. mun ætla að leggja þetta mál til umræðu á sýslufundi, sem minst er á í byrjun þessa bréfs, þá hefi ég skrifað þetta bréf til yðar – sem skýringu á málinu frá minni hlið – en ekki til sýslun. þar ég hafði skrifað undir áðurnefndu samninga en ekki hún, enda ber ég það traust til yðar, að ég mundi helst ganga að þeim breytingum með ferjuhaldið – ef þörf þykir að breyta – sem þér munduð vilja gjöra, án þess að halda þessu máli frekar til streitu.

Virðingarfyllst
Iðu 15. apríl, 1911
Páll Jónsson

Sigurður skrifaði sýslunefnd einnig þetta vor og gerði kröfu um að fá ferjuhaldið til umráða að hálfu eða öllu leyti.

Úr bréfi Sigurðar Sigurðssonar til sýslunefndarmannsins í Biskupstungum.

Úr bréfi Sigurðar Sigurðssonar til sýslunefndarmannsins í Biskupstungum.

Með því ég tel víst að ágreiningur sá, sem risið hefur um dragferjuna á Yðuferjustað, verði lagður fyrir næstkomandi sýslufund Árnessýslu, þá vildi ég hér með leyfa mér að láta í ljósi afstöðu mína gagnvart því máli.
Í fyrsta máta geri ég ótvíræða kröfu til þess að mér verði fegnið til umráða að hálfu leyti, ferjuhald á Yðuferju, eða að því, sem lög ákveða gagnvart eignar og ábúðarjörð minni.
Hinsvegar er það framboð mitt, að taka dragferjuna að mér, með þeim skilmálum sem hér segir:
Að ég taki að mér viðhald dragferjunnar að mínum hluta, að svo miklu leyti sem hægt er að halda henni við, þó ekki svo: að skylda mín sé að koma henni upp ef hún færist, fyrir ófyrirsjáanleg atvik.
Einnig að ég leggi til ferjustrenginn að mínum hluta, þegar sá strengur bilar sem nú er. Yfir höfuð, annist um allan kostnað ferjunni viðkomandi, þann tíma sem ég hef hana til umráða, gegn því að mér beri allar tekju hennar.
Vilji sambýliskona mín, Guðrún Markúsdóttir, eigi ganga að sömu skilmálum að sínum hluta, er ég fús að taka ferjuna að öllu að mér.

Yðu 19. apríl, 1911
Sigurður Sigurðsson

Á fundi sýslunefndar skömmu eftir þessar bréfasendingar ábúendanna á Iðu, er bókað að “Sýslunefndin treysti sér ekki til þess að taka málaleitan þessa til greina, þar eð gjörður hefir verið fastur samningur við hinn ábúandann á Iðu af réttum hlutaðeigendum um ferjuhaldið, og virðist sá samningur verða að standa meðan ferjubóndi ekki brýtur hann af sér, nema því að eins að hlutaðeigendur komi sér saman um að breyta honum á þá leið sem fram á er farið.”

Nefndin sér ennfremur ástæðu til að átelja ferjuhaldarann: “Af gefnu tilefni leyfir sýslunefndin sér að taka ferjubóndanum vara við því að ferja á bát fyrir ofan dragferjustrenginn.”

Páll brást við ávirðingum sýslunefndar og útskýrir hvernig það kom til þegar báti var róið yfir ofan strengs og fer síðan yfir ýmis mál tengd ferjunni:

Upphafið á bréfi Páls Jónssonar

Ég skrifaði yður nokkrar línur 15/4 þ.á um ferjuhaldið á Iðu, en hefi síðan langað til að finna yður að máli og fá frekari upplýsingar um ferjuhaldið.

Þegar hreppsnefndaroddviti og sýslun.maður [Björn Bjarnason á Brekku] kom af sýslufundinum í vor, sagði hann mér, að töluverðar umræður hefðu verið á fundinum um það, hvort ég ætti að halda ferjuna framvegis, þó hann ætti að skila því – lauslega – til mín, að ég ætti að halda hana, en stranglegt bann lægi við að fara með róðrarbát fyrir ofan strenginn. Aðrar aðvaranir eða athugasemdir kom hann ekki með og tók ég það sem samþykki sýslunefndar um að ekkert væri aðfinnsluvert við ferjuhald mitt. Fór þó að hugsa um hvaða ástæður hefðu þá verið fyrir nefndum umræðum, að halda ferjuna og gat ég til nokkra sem mér þótti líkastar, svo sem:

1. Hvort þetta munnlega boð um stranglegt bann gæti verið sem frávikningarsök, en gat þó ekki hugsað að svo væri, hvorki gagnvart lögum, né samningi, því aldrei hefir fyrr verið minst á það við mig. Það var því ekkert brot þó ég færi (áður) vanalegast fyrir ofan streng – því þar var skemmra yfir – þar ég sá öngva hættu geta stafað af því hjá mér, þó eitt sinn lægi nærri hætta af því hjá öðrum – síðan ég tók við ferjunni. Stafaði það af því að sá sem bátinn fékk sagði mér ekki rétt til með það að hann kynni að róa og gat því ekki álitið það mína skuld. Engu að síður hefi þó haldið – því nær undantekingarlaust – þessum boðum, að fara fyrir neðan streng. 8/10 þ.á. lá þó mjög nærri hættu, því þegar ég kom að ferjunni var bátur Sigurðar fastur á strengnum með 2 manneskjum í, en sökum þess hvernig alt var, þá tók mjög langan tíma að bjarga, en of mikil ónærgætni – með vægstu orðum – sýndist mér koma hér fram frá Sigurðar hlið, á ekki við að fara lengra hér, vona að þeir sem til þekkja og rétt vilja dæma, gefi mér þetta ekki að sök.

2. Þá hefur Sigurður sagt, að sér væri bygð og seld jörðin með ferjuréttinum og því bæri mér ekki ferjan, utan að hálfu leyti, eða jafnvel enginn, þar ég væri búinn að hafa hana svo lengi og sem hreppsn. gaf einnig í skyn, frá þessari hlið get ég þó ekki haldið að hafi stafað tölverðar umræður, því
1) er ekki nefnt í lögunum að ferjuréttur fylgi jörðinni, miklu fremur er svo að skilja á 6. gr. að svo sé ekki.
2) Í bréfi frá oddvita sýslun. d.s. 17. júní 1907, stendur meðal annars: „skal ein hafa ferjuna á hendi eftirleiðis samkv. lögum þeim sem gilda um lögferjur hér í sýslu“. Hér skilst mér, að enginn sé að selja ferjurétt sinn með jörðinni, og það því síður sem seljandi (hér Sigmundur) var frá og hafði þá öngvan ferjurétt, en væri svo að rétturinn fylgdi jörðinni, þá gæti það naumast átt sér stað með vesturpartinn – nú Sigurðar part – því að kunnugra sögn hefir hún lengst af verið á austurpartinum eingöngu, fá ár sem Sigmundur hafði hana í félagi með Runólfi.
3) Þá var að sjá að hreppsn. – áður en hún samdi við Sigmund – áliti ekki ferjurétt mikils virði, því hún mun fyrst hafa farið þess á leit við Laugarásbóndann – þá Magnús Halldórsson – að taka að sér ferjuna (án tillits til nokkurs réttar Iðubænda eða jarðar) en þegar hann var ófáanlegur þá var Sigmundur fenginn og var þar til honum var vikið frá sem ferjumanni og hreppsn. þá líka ásátt að losna við hann. Um ferjurétt vesturpartsins á Iðu get ég því ekki haldið að hafi komið talsverðar umræður.

Eftir að Sigmundi var vikið frá og ég tekinn við, fékk ég fyrst að heyra samningsgjörð hans um ferjuhaldið og átti hann þá að fullnægja þeim hvað viðhald ferjunnar snerti, en hann þverneitaði nokkri borgun og nafni sínu að það væri síðar gjört, þó mun(?) hreppsn. hafa tekið þá ábyrgð á sig, að taka borgun þar til af búi hans að honum látnum.

3) Sökum þess hvað langt er á ferjustað og bærinn snýr illa við honum og þar af leiðandi ilt að sjá eða heyra til ferðamanna (einkum í stormi eða dimmviðri) þá hefir það stökusinnum komið fyrir að þeir hafa biðið yfir ½ tíma og hefir sú bið verið goldin samkv. lögum eða að ferðamenn hafa skilið sáttir við mig að því leyti. En það hefir og komið fyrir að þeir hafa kallað, farið svo strags til bæja – þar á meðal tF og tS (??) - og látið mig bíða yfir ½ á ferjustaðnum þar til þeir hafa komið aftur.

4) Þá hefir það komið fyrir að ég hefi orðið að snúa mönnum frá ferjunni eða sagt þeim að bíða þegar ég hefi álitið ána óframkomulega(?) eða viðsjárverða. 16/4 þ.á. stóð þannig á að hún var óframkomuleg (?) til flutninga á ferjustaðnum. Dvöldu þá hér 3 ferðamenn – J. bóndi á Vatnsleysu, S. bóndi í Torfastaðakoti og [Guðjón] Rögnvaldsson kennari – bauðst ég þá að fylgja þeim yfir á ís því ég áleit hann gangsterkan, en þeim þótti hann vera of veikur. Vildu heldur bíða að hann styrktist, þar útlit var fyrir að það yrði ekki lengi; bauðst Sigurður bóndi á Iðu þá að gjöra tilraun að koma þeim einhversstaðar yfir á ferju og lánaðist það hjá svo nefndri Þengilseyri. Löngu síðar (í haust) frétti ég að hann bað þessa menn að gefa vottorð um að ég neitaði þeim um flutning og munu þeir 2 fyrsttöldu hafa gefið það, en Guðjón ekki, hvort þessi tveggja mann vottorð hafi átt að bera það með sér að ég neitaði ferðamönnum að jafnaði og ástæðulausu um flutning og út af því hafi risið tölverðar umræður á sýslufundi gagnvart mér, veit ég ekki, en get þó naumast hugsað það ef rétt hefir verið frá sagt.
Ég skil lögin svo, að ferjuskyldan hvíli á ferjunni, á lögboðnum ferjustað, en ekki utan hans – ótakamarkaða lengd – hvar sem vera skal. Þá skil ég svo lögin, að ferjum. eigi að segja um hvort ferjufært sé eða ekki.

5) Dragferjunni hefi ég leitast við að halda í því ástandi sem áskilið er í 1. gr. samningsbréfsins d.s. 3. júlí, 1907, að svo miklu leyti sem mér hefir verið hægt – sjá meðfylgjandi vottorð – skilað til gjaldkera tungnahr. 55,16 kr sem tekju (?) en sökum vanrækslu hreppsins með að fá strenginn í tíma, árið 1910 þá hefir tapast þar rúmar 30 kr. sem hún varð þá að standa upp arðlaus. Þegar miðað er við tíma og hestafjölda á þeim tíma 1909 og 1911 þá tel ég að hafi tapast 16 kr. af sömu ástæðum og sem skýrt er frá í þessa árs ferjur. 30/11 þá tapaðar tekjur af þeim ástæðum 30+16 = 46 kr. Þar á móti hefi ég ekki borgað timburreikning til ferjunnar samtals

Frá þessari hlið get ég því ekki skilið að hafi komið ágreiningur, sjá 3. gr. samningsins.

6) Þá hefir mér komið til hugar að ágreinigurinn hafi stafað af umræðum oddvita og sýslunefndar Biskupstungnahr. þar hann – sem annar málsparturinn – hafði leyfi til að ræða um málið frá sinni hlið, en ekki hinu – ferjunni.- hvort þessi aðferð er lögum samkvæm veit ég ekki um. Læt hér staðar numið að geta til um ástæður fyrir nefndum ágreiningi.

Yfirlit:
1. Stranglegt bann
2. Tekjuréttur jarðar
3. Bið á ferjustaðnum
4. Ekki ferjufært
5. Dragferju haldið samkv. samningnum
6. Frá umræðum oddvita.

Iðu 10/11 1911
Páll Jónsson

Með bréfi sínu lét Páll fylgja vottorð fjögurra manna til staðfestingar máli sínu.

Vottorð

Vér undirritaðir vottum hér með, að það var á takmörkum með flutning sökum krapa og ísframburðar í Hvítá þann 17. þ.m. þar sem Páll Jónsson flutti okkur yfir um, en gjörsamlega ófær á lögferjustaðnum.

st. Iðu, 10. nóvember 1911
Bjarni Þorsteinsson
Þórður Þorsteinsson
Þorgeir Þorsteinsson
Bergur Jónsson

Ekki var þarna lokið bréfaskriftum Páls vegna ferjunnar, því þann 22. nóvember skrifaði hann aftur bréf til sýslunefndar og þá í tengslum við hugmyndir sem upp voru komnar um að setja straumferju á hjá Iðu. Þetta bréf er ekki alveg auðskiljanlegt og hafa ber í huga að nokkur orð eru ill- eða ólæsileg.

Eftir fundargjörð Biskupstungnahr. 23/12 f. ár er að sjá sem tillaga hafi komið frá oddv. um að koma straumferju á Iðuhamri, þannig að hafa sama skipið – dragferjuna – en breyta um nafn hennar.  . . . .  J. Sigurður á Iðu býðst til að taka hana að sér 1/2 , þannig að tekjur og gjöld mætist, eða alla, ef Guðrún vill ekki ganga að sömu kjörum . . . . Ferjutollar þeir sömu sem áður.

Af samtali við Skúla lækni í Skálh. þá hefir hann sagt mér, að hreppsn. vilji á ný taka ferjuna af Guðrúnu og veita Sigurði, en menn vilja fara á bak við mig með þessa fyrirætlan sína.  En(?) kærur á mig gagnvart samningi eða lögum vissi hann ekki um. Hann (Skúli) vill framvegis hafa mig sem ferjumann og með því hann fer lang tíðast um (á ferjustaðnum) sem bóndi – auk læknisferða sinna, þá bað ég hann um að segja álit sitt um hvernig ég hafi rækt stöðu mína sem ferjumaður og gaf hann mér þá góðfúslega meðfylgjandi vottorð sitt.
________________________________________________
Hefir hreppsn. – ein eða önnur – heimild til að taka ferjurétt af ferjuhaldara – hér Guðr., sem henni er veittur af sýslum. (7/6 07)? og getur hún ónýtt gjörðan samning (2/7 07) með að breyta nafni á ferjunni /sjá lög um vegi  22/11 07. 39-40 grein?________________________________________________
straumferju, sé það hægðarauki fyrir ferjumann að breyta frá dragferju í straumferju. Þá vildi ég taka hluttekningu í þeim kostnaði ef þess væri farið á leit.
________________________________________________
Flytja þá sem honum sýnist í orði kveðnu.

Að kvöldi þess 17. nóvember, þ.á. kom Jóhannes Erlendsson frá Torfastöðum með öðrum manni og vildi fá flutning, helst hvernig sem á stóð, þar sem hann sagðist þurfa að komast að Torfastöðum um kvöldið, en með því ég áleit á takmörkum með flutning á meðan birtan var, þá mæltist ég undan flutning, þar ég sá að aldimma var komin á meðan á flutningnum stóð. Hann bað mig þá um að lána sér ferjubátinn, ef hann fengi Sigurð til að flytja sig og gaf ég honum það eftir, með því að Sigurður tæki að sér ábyrgð hvernig sem færi. Það var einkum sem mér þótti víðsjárvert að bátinn myndi hrekja lengri leið í krapinu, áður en land næðist, þegar ekki sást til að rekja sig eftir vökum. Kæmi svo maður í lífsnauðsyn að vitja læknis þá gat orðið dráttur á koma honum yfir um, þar ég áleit ekki fært að komast annarsstaðar yfir um, en Sigurði lánaðist að koma bátnum á sama stað aftur, án þess að kæmi í neinn bága.
Síðar frétti ég, eftir nefndum Jóhannesi að það hefði verið „hægðarleikur“ að flytja um kvöldið. Ég geng að því sem vísu að Sigurður hafi fengið þetta vottorð hans gagnvart mér og af þeim ástæðum læt ég hér með fylgja vottorð þeirra manna sem ég flutti sama dag.

Iðu 22/11 1911
Páll Jónsson

Páll sendi síðan vottorð þriggja manna til til að byggja undir málflutning sinn. Þetta voru þeir Skúli Árnason, læknir í Skálholti, Magnús Halldórsson fyrrverandi bóndi í Laugarási og Guðmundur Ófeigsson, fyrrverandi húsmaður í Laugarási. Þeir tveir síðarnefndu vottuðu að oddviti hefði boðið þeim ferjuhaldið á Hvítá.


VOTTORÐ
Herra Páll Jónsson vegfræðingur á Iðu í Biskupstungum hefur í dag beðið mig að gefa sér vottorð um hvernig ég telji hann rækja ferjuna á Iðu sem ferjumaður, og er því auðsvarað, að hann hefur rækt hana mjög vel.
Ég hef í hvert skifti, sem ég hef þurft að fara þar yfir á ferju, komist þar hiklaust yfir og aldrei þurft að bíða.
Hann hefur meir að segja á þessum vetri í marga daga, flutt á öðrum stað yfir ána, þegar enginn kostur var á að ferja á vanalegum ferjustað, sem ég veit ekki til að neinn af fyrirrennurum hans hafi notað fyr undir sömu kringumstæðum og á hann lof skilið fyrir það.

Skálholti 17. febrúar 1912
Skúli Árnason

VOTTORÐ
Ég undirritaður votta hér með, að þegar Iðubændur vildu ekki taka dragferjuna að sér til eignar og ábyrgðar, að þá átti ég (bóndi í Laugarási) kost á því hjá oddvita Biskupstungnahr., að frá ferjuhaldið frá Iðu.
Reykjavík 21/2 1912
Magnús Halldórsson

Ég, sem húsm. í Laugarási hafði einnig kost á að fá ferjuna hjá oddvita Tungnahr. frá Iðubændum um sama leyti sem Magnús Halldórsson.
Brúnavöllum 26/2 1912
Guðmundur Ófeigsson

Bréfum Páls, sem finna á í bréfasafni Sýslunefndar Árnessýslu lauk ekki með þessu. Síðasta bréf hans er til reikningshaldara Biskupstungnahrepps, sem mun hafa verið Björn Bjarnarson á Brekku, oddviti hreppsnefndar. Sú ályktun er dregin, vegna þess að Páll vísar til þess í bréfinu að hann hafi verið “vinnumannsmynd” reikningshaldarans, en Páll var einmitt vinnumaður hjá Birni um tveggja ára skeið, áður en hann fór að Iðu. Um það má lesa í Óðni árið 1936, en þar er heilmikil grein um ævi Páls eftir Gunnar Árnason frá Skútustöðum.

Bréf til reikningshaldara Biskupstungnahrepps

6. mars 1912

Kæri vinur! Þökk fyrir viðtökurnar síðustu á heimili þínu, altaf þótt gott að heyra ykkur og sjá, hjónin frá því ég var vinnumannsmynd ykkar, þó skiftar skoðanir – mín og þín - hafi verið um ferjuhaldið. Ég vil helst álíta, að komi af því, að hver vill þar vera sínum húsbónda trúr. Ég hefi einnig viljað reynast þínum – hreppnum – það líka og skil því ekki vel í þessum skiftu skoðunum okkar, þó ýmsar misfellur kunni að finnast þar í fari mínu, sem víðar, en svo mun og vera hjá okkur báðum ef vel er að gáð. Í mesta bróðerni og besta tilgangi þér og hreppnum til handa, vil ég benda á örfáar í þessu máli.

Ég gat þess (við þig) að hafa haldið ferjunni við, eftir því sem mér var hægt og skilaði henni af mér í góðu standi ef ég hætti ferjuhaldinu í vor. Þessu svaraðir þú þannig, að það hefði Sigm. einnig gjört með því að borga það tillag sem álitið var að hún hefði gengið úr sér við hans ferjuhald. Þetta er ekki með öllu rétt sagt, því ég og fl. vorum heyrnarvottar að því, að hann þverneitaði að borga þar einn eyrir eða gefa nafn sitt því til samþykkis að það væri gjört. Hvað gjört hefir verið með að taka þetta gjald af dánarbúi hans, var því ekki af honum goldið eða hans samþykki. Þá ætti að skila því aftur, því þeir erfingjar hans sem nú dvelja í sjúkrahúsinu í Laugarnesi kalla eftir því – við einnig í þeirra kringumstæðum.

Þá hefir borið fyrir eyru mín, að hreppsn. vilji á ný taka ferjuhaldið af Guðr. og fer það að mestu eða öllu á bak við tjöld mín, svo ekki er gott til varnar, þegar ekki er að vita hvar á er leitað og var það ekki einusinni talin sæmileg aðferð.

Það helsta sem ég veit um, er, að þú sýndir mér í fundar gjörðarbókinni í haust, en þar ekkert að sjá um af hvaða ástæðum hreppsn. vill frá Guðr. frá – ekkert fært til saka.

Helsta hugsaða sókn (hreppsn.) hefi ég getið mér til og sent til sýslum., því hann mun hafa rætt á móti þér og þínum málspörtum næstl. vor og ég tel vísara að hann muni enn gjöra það – ef til kæmi – ef eitthvað væri við að styðjast, að öðru leyti skil ég ekki í þessari afskiftasemi hreppsn. í þessu máli og hafa þó ekki við meira að styðjast gagnvart lögum og sem ég hefi sagt henni og hún veit, og vil ég því ráðleggja þér, sem vinur, að leggja hér ekki frekar til mála, á meðan ekki eru betri ástæður og ég hangi við ferjuhaldið hjá Guðr., því svo má brýna deigt járn að bíti.

Viðhaldsleysi

Vorið 1913 flutti Guðrún Markúsdóttir frá Iðu með börn sín og með henni Páll. Eftir það verður ekki vart ósættis um ferjuhaldið. Það var þó ekki þannig að allt væri í góðu lagi, eins og bréf Skúla Árnasonar ber með sér, en það skrifaði hann til sýslunefndar í apríl 1915:

Nú er svo komið, að dragferjan á Iðu er orðin svo lúin, að engin tiltök eru að nota hana nema með mikilli aðgerð. Fúinn er mestur í umgerðinni að ofan og báðum stöfnum. Aðgerðin verður svo kostnaðarsöm, að sveitin, Biskupstungnahreppur, getur ekki af eigin rammleik staðist þann kostnað ásamt kaupum á nýjum streng, því strengur sá, sem nú er til er orðinn svo gallaður, að framan af sumrinu, meðan leysing er til fjalla, getur verið áhætta að nota hann.
Eftir því sem haft er eftir mannvirkjafræðing landsins, verður veginum yfir Grímsnesið og brúnni yfir Brúará, ekki lokið fyrr en eftir þrjú sumur með sama fjárframlagi og að undanförnu, en þangað til er aðalhluti Biskupstungnahrepps neyddur til að fara yfir Hvítá á Iðu, ef hann á að geta notað kerrur, sem er óumflýjanlegt.
Út af þessu hef ég látið gjöra áætlun um hve mikið timbur mundi þurfa til þess að gjöra svo við dragferjuna, að hún entist þangað til brúin yrði komin yfir Brúará og vegurinn kominn inn í sveitina.
Samkvæmt framanskráðu leyfi ég mér að skora á hina háttvirtu sýslunefnd, að hún á fundi sínum í ár, taki þetta má til umræðu og veiti ríflegan styrk til viðgerðarinnar og kaups á streng á móti framlagi frá hlutaðeigandi hreppi.

Hér með fylgir listi yfir það, sem útheimtist til ferjunnar.

Virðingarfyllst
Skálholti 10. apríl, 1915
Skúli Árnason

Til dragferjunnar á Iðu þarf:
1. Streng yfir ána
2. Í klæðningu og umgerð 7 plankar 6 álna 2 ½“ x 7“. 7 plankar 5 álna 2 11/2“ x 7“
3. Í stefni 1 planka 6 álna 6“-7“ x 3“
4. Í innviði 1 tré 6 álna 6“x6“
5. Til setning 6 tré 6 álna 4“x4“
6. Í spil 2 tré 5 álna 3“x 3“
7 6 borð 6-7 álna 7“-8“ x 5/4“
8. Saumur

Skálholti 10. apríl, 1915
Skúli Árnason.

Ferjan flutt

Það varð svo úr, eftir vegabætur upp Grímsnes og væntanlega brú á Brúará hjá Spóastöðum, að dragferjan var flutt í Reykjanes, vorið 1917. Frá þessu er greint í bréfi hreppsnenfndar Biskupstungna 1918:

Iðu-dragferjan var flutt síðastliðið vor frá Iðu á Reykjanesferjustað vegna þess að mönnum þókti orðið hentugra að fara Grímsnesveginn en Skeiðaveginn og eins vegna hins, að lengur var hægt að nota hana fram eptir vetri á Brúará en Hvítá, vegna ísskriðs, sem svo snemma kemur í Hvítá, en seint og stundum aldrei í Brúará.
Hugmynd Tungnamanna var svo að flytja ferjuna upp á Spóastaðaferjustað jafnskjótt og vegurinn kæmi þangað.
Til þess að geta notað ferjuna s.l. sumar og framvegis þar til brú væri komin á Brúará, keypti sveitin nýjan streng og ljet að öðru leyti gera við hana.  – En nú í vetur hefur ferjan brotnað svo, að til þess að gera hana nothæfa aptur, hefur verið áætlað að myndi þurfa að kosta upp á viðgerð á henni fyrir allt að kr. 350 – 400.00.
Þar sem nú að ferja þessi getur heitið ómissandi farartæki fyrir þessa sveit, sem svo illilega er umlukt stórvatnsföllum, en sveitin þó ekki fær um að kosta miklu til viðgerðar henni, og þar sem ennfremur að hún er þarna í Reykjanesi á sýsluvegi, eins og hún var á sýsluvegi á Iðu – þá leyfir hreppsnefndin sjer, virðingarfyllst, að fara þess á leit við hina heiðruðu sýslunefnd Árnessýslu, að henni mætti þóknast að styrkja Biskupstungnahrepp til viðgerðarinnar sem svaraði helmingi kostnaðarins.

Virðingarfyllst
f.k. Hreppsnefndar
Eiríkur Þ. Stefánsson
p.t. [pro tempore] oddviti

Wium í austurpartinn

Jón Hansson Wium, bóndi á Iðu - mynd frá 1927

Í stað Guðrúnar og Páls, fluttu í austurpartinn á Iðu árið 1913, hjónin Jón Hansson Wium (1871-1949) f. á Keldunúpi í Hörgslandshreppi í V-Skaft. og Jónína Bjarnadóttir (1879-1947) f. á Efri-Ey í Leiðvallahr. í V-Skaft. Þau höfðu þá búið á nokkrum bæjum í Árnessýslu. Lengst bjuggu þau á Iðu, eða til ársins 1929, en þá fluttu þau til Reykjavíkur og áttu þar heima síðan. Að Iðu komu þau frá Miðdal í Laugardal.
Börn þeirra Jóns og Jónínu voru Þórarinn, (1900-1961), Sigrún, (1903-1984), Guðrún (1904-1994), Hansína, (1906-1991), Kristín, (1913-1998).

Foreldrar biskups

Einar Sigurfinnson og Ragnhildur Guðmundsdóttir

Árið sem Jón Wium og Jónína Bjarnadóttir fluttu frá Iðu, komu þangað þau Magnús Kristinn Einar Sigurfinnson (1884-1979) og Ragnhildur Guðmundsdóttir (1895-1990). Með þeim voru tveir synir Einars og fyrri konu hans, þeir Sigurbjörn (1911-2008) og Sigurfinnur (1912-2004) og sonur þeirra á fyrsta ári, Guðmundur (1929-2004) Þau bjúggu á Iðu til 1950, en þá tók Guðmundur sonur þeirra við búinu, síðast með konu sinni Sigfríð Valdimarsdóttur (1933-2020). Einar og Ragnhildur voru þó áfram á Iðu til 1955.
Síðustu ár tvö þessarar fjölskyldu voru þar einnig Steinunn Friðborg Sigurðardóttir (1904-1979) ásamt tveim sonum sínum Helga Stefáni (1967-1988) síðar bónda á Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi og Sigurði Kristjáni Jónssyni (1941-), sem nú býr á Flúðum. Eiginmaður Steinunnar Jón Stefánsson, lést 1946.

Innkomnir í Torfastaðasókn árið 1929. Úr prestþjónustubók sóknarinnar.
Fyrri kona Einars og móðir Sigurbjörns og Sigurfinns var Gíslrún Sigurbergsdóttir (1887-1913)

Iða 1 1927

Endanlegt á vesturbænum frá 1917

Eftir að Margrét Þorláksdóttir og dóttir hennar Jónína Margrét fluttu frá Iðu 1917, komu í vesturbæinn þau Jóhann Kristinn Guðmundsson (1889-1928) og Bríet Þórólfsdóttir (1891-1970). Árið eftir eignuðust þau fyrsta barn sitt, Ámunda (1918-1997), ári síðar fæddist Ingólfur (1919-2005), þá fæddist Gunnar 1920 (1920-2005) Sigurlaug Guðrún (1922-2011) og loks Unnur (1923-2004).

Bríet var fædd á Efrigröf í Villingaholtshreppi. Foreldrar hennar voru Ingveldur Nikulásdóttir og Þórólfur Jónsson. Efnin voru ekki að þvælast fyrir því fólki og því munu börn þessara hjóna fljótt hafa orðið að leita að heiman til vinnu hjá öðrum. Hugur hennar mun hafa stefnt til náms og því fór hún til Reykjavíkur, en meiriháttar menntun var á þessum árum var munaður, sem aðeins efnaðra manna börnum gat hlotnazt, og voru allar slíkar leiðir lokaðar almenningi að heita mátti. Víst var, að þetta hlutskipti sitt, að fá lærdómisþrá sinni eigi fullnægt, tók Bríet sér mjög nærri, og er trúlegt, að þau vonbrigði hafi orðið þess valdandi, að hún festi eigi yndi í Reykjavík til lengdar, en fluttist þaðan árið 1909. Lá þá leið hennar austur í Biskupstungur, þar sem hún dvaldist síðan til æviloka.” (Eyþór Erlendsson - minningargrein).

Í Biskupstungum var hún lengst í vinnumennsku hjá þeim Sigurlaugu Erlendsdóttur og Eiríki Þ. Stefánssyni á Torfastöðum, en þar kynntust þau Jóhann Kristinn Guðmundsson frá Sandlæk. Þau giftust árið 1917 og hófu búskap á vesturbænum á Iðu og eignuðust börnin fimm á næstu sex árum. Jóhann lést 1928 og þar með ekki augljóst hvernig haldið skyldi áfram. Síðar þetta ár varð það úr, “fyrir milligöngu annarra” að Loftur Bjarnason frá Skarði í Eystrihrepp kom til skjalanna og þau Bríet bjuggu saman síðan.

Þegar sá tími kom fóru börn Bríetar að tínast að heiman og árið 1945 voru ein eftir, þau Sigurlaug og Ingólfur, sem þá hafði náð sér í konu, Margréti Guðmundsdóttur, sem hafði verið í vist hjá frænku sinni í Laugarási, Sigurlaugu Einarsdóttur og manni hennar, Ólafi Einarssyni lækni. Árið 1946 voru heimili á Iðu talin vera þrjú, en þá höfðu þau Ingólfur og Margrét stofnað eigin heimili.

Iða, um svipað leyti og brúarbygging hófst. (mynd frá Iðu)

Uppfært 12/2021