Ýmsar staðreyndir um brúna

idubru-(9-of-41).jpg

Helstu upplýsingar

Brúin er 109 m. löng hengibrú með steyptu gólfi og er breiddin 4,1 m. innan bríka.
Brúin er reiknuð fyrir 18 tonna vagn dreginn af 9 tonna vagni og einnig 350 kg. þunga á hvern fermetra brúargólfs.

Í hvorri brúarhlið eru 6 strengir er bera brúna. Hver þeirra vegur um 5 tonn og er röskir 6 cm. í þvermál.

Turnstoðirnar eru 16,8 m. háar.

Strengir og stál í yfirbyggingu brúarinnar var smíðað hjá Dorman Long & Co. í Englandi.

Magn efnis sem notað var við brúargerðina:

Fyrir turnstoðum og akkerum voru sprengdir 950 rúmmetrar.
Steyptir voru alls 1760 rúmmetrar.
Í steypuna fóru 570 tonn af sementi.
Notuð voru 70 tonn af steypustyrktarjárni.
Í mót og verkpalla voru notuð 5200 rúmfet af timbri.
Strengir og stál í yfirbyggingu vógu 198 tonn.

Smíði brúarinnar í stuttu máli

1951, um haustið, var byrjað á byggingu brúarinnar, og þá sprengt fyrir turnstoðum og akkerum.

1952 var ekkert unnið við brúargerðina.

1953 voru byggðir turnar og akkeri að sunnanverðu.

1954 lágu framkvæmdir við brúna niðri vegna verkfræðingadeilunnar.

1955 voru turnar og akkeri byggð norðan árinnar.

1956 var ekkert unnið við brúna sökum langs afgreiðslutíma á stáli í yfirbyggingu brúarinnar.

1957 hófust framkvæmdir við uppsetningu brúarinnar í ágústbyrjun.

Fyrsti bíllinn ók yfir brúna 21. nóvember, en vegna vinnu við vegfyllingar við brúna var ekki hægt að opna hana fyrir almenna umferð fyrr 12. desember. Hún var þó ekki opnuð  formlega, eða vígð fyrr en í desember 2017, þegar hún hafði verið í notkun í 60 ár, en sú opnun var að frumkvæði og í höndum íbúa við brúna.

Þeir sem hönnuðu brúna og stýrðu brúarsmíðinni.

Árni Pálsson yfirverkfræðingur teiknaði brúna ásamt Helga H. Árnasyni verkfræðingi. Hafði sá fyrrnefndi yfirumsjón með framkvæmd verksins en daglegt eftirlit á vinnustað höfðu verkfræðingarnir Helgi H. Árnason, Snæbjörn Jónasson og Karl Ómar Jónsson.

Aðalverkstjórar við byggingu turnstoða og akkera voru Sigurður Björnsson frá 1951—55 og síðar Kristján Guðmundsson.

Við uppsetningu brúarinnar haustið 1957 var Jónas Gíslason aðalverkstjóri.

Burðarþolsprófun vorið 1958

Vorið 1958 var brúin burðarþolsprófuð og glöggt má sjá á sveigju brúargólfsins að þarna var um að ræða umtalsvert hlass.  Mynd frá Vegagerðinni.

Vorið 1958 var brúin burðarþolsprófuð og glöggt má sjá á sveigju brúargólfsins að þarna var um að ræða umtalsvert hlass. Mynd frá Vegagerðinni.

Brúin er gefin upp fyrir burðarþol, sem svarar til þess að tveimur vögnum sé ekið samtímis yfir hana, öðrum 18 lesta þungum, hinum 9 lesta, eða samtals 27 lestir.

Í júní 1958 var burðarþol brúarinnar sannprófað, fyrst með því að þrem tækjum var ekið út á hana: bíl með hlassi sem vó 16 lestir, 11 lesta þungri jarðýtu og 9 lesta veghefli, eða samtals 36 lestum.

Að því búnu var ekið sandlagi á alla brúna, rösklega 100 lestum að þyngd, og að því búnu var jarðýtunni og vörubílnum ekið yfir brúna samtímis, þannig að þá mun um eða yfir 130 lesta þungi hafa hvílt á brúnni samtímis.

Alla þessa raun stóðst brúin með hinni mestu prýði og svignaði sáralítið undan þunganum.

Yfirlitsmynd þegar brúarsmíðinni er lokið og búið að ganga frá veginum beggja vegna. Mynd frá Vegagerðinni.

Yfirlitsmynd þegar brúarsmíðinni er lokið og búið að ganga frá veginum beggja vegna. Mynd frá Vegagerðinni.

uppf. 11.2018