Að heilsast, kynnast og kveðjast svo.

Halla, ásamt eiginmanninum Braga Þorsteinssyni 2015 (mynd frá Litla Bergþór)

Halla Bjarnadóttir á Vatnsleysu starfaði í Krossinum sumarið 1956 þegar hún var 18 ára, en þá var forstöðukona þar Guðrún Ólafsdóttir frá Reykjarfirði. Hún hafði ætlað sér að sækja um vinnu í árið áður en var og sein. Það sumar heimsótti hún vinkonur sínar sem þá voru í Krossinum og fór á ball í á Vatnsleysu og það var þá sem hún sá Braga fyrst, en talaði ekkert við hann þá.

Það var svo vorið 1956 að hún sótti um vinnu og fékk. Aftur fór hún ásamt starfsfélögum sínum á ball á Vatnsleysu í boddíi á pallinum á vörubíl Róberts á Reykjum. Þar bað hún Braga um eld og sá eldur logar enn.

Það sem hér fer á eftir er skráð í orðastað Höllu en við hana átti ég viðtal 22. ágúst, 2018.

Börnin

Það voru, að mig minnir, 120 börn í Krossinum þetta sumar frá síðari hluta júní fram yfir 20. ágúst. Þetta voru auðvitað bæði strákar og stelpur á aldrinum þriggja til 9 ára. Börnunum var skipt niður í 4 hópa, 30 í hverjum, en það voru einmitt rúm fyrir 30 börn í hverjum svefnskála. Það voru tvær fóstrur sem sáu um hvern 30 barna hóp á daginn. Við vorum tvær sem sem um 30 stráka á daginn og svo var allt sumarið.

Á morgnana þegar strákarnir voru að fara á fætur var oftast mikill hamagangur í skálanum. Það gekk mikið á. Eftir morgunverð var haldið út í sumarið að þannig gekk þetta fyrir sig á hverjum degi. Auðvitað var farið inn í hádeginu til að borða og einnig var kaffitími. Þegar veður var sérlega gott borðuðu börnin stundum bara úti.

Það var alloft farið með börnin í gönguferðir í nágrenninu, út að Skyrklettum og eftir Höfðaveginum, til dæmis. Þau þurftu alltaf að halda í lykkju á bandi þar sem fóstrurnar héldu í endana.

Hinrik (Bjarnason) fór einusinni með nokkra stráka út yfir á með ferjubátnum, líklega upp í Vörðufell. Þeim þótti mikið til um það að fá veitingar hjá Möggu á Iðu í þessari ferð.

Þegar kom að háttatíma aðstoðuðum við við tannburstun og þvotta. Þá þurfti að athuga hvort föt þyrftu að fara í þvott og ef svo var fórum við með þau inn í þvottahús. Það kom alltaf fyrir að einhverjir höfðu gert í buxurnar og þá þurfti að skola nærfötin oog setja í bleyti yfir nóttina. Þetta var erfiðara verk ef börnin voru í ullarnærfötum. Það virtist talsvert algengara að strákarnir misstu í buxurnar og þá var það Hinrik Bjarnason, sem þarna var eftirlitskennari og eiginlega sérstaklega þarna til að halda utan um strákana og strákamálin, lagði til að þeim yrði fylgt á klósett reglulega yfir daginn og þetta lagaði ástandið. Þarna voru börn með mjög misjafnan bakgrunn, bæði frá fyrirmyndarheimilum og mjög vanrækt börn. Þarna voru börn þekktra einstaklinga í þjóðfélaginu og einnig börn af mjög fátækum heimilum. Mér eru minnisstæðir tveir bræður sem komu frá mjög fátæku heimili, sá yngri þriggja ára. Sá eldri var líklega tveim árum eldri og mig minnir að hann hafi þjáðst af beinkröm, en bringan á honum var framstæð.
Sum barnanna höfðu fengið lítið uppeldi og kennslu heima fyrir, t.d. að borða með hnífapörum eða að fara sjálf á klósett eða búa um rúmin sín. Þetta þurfti þá að kenna þeim.

Þegar við höfðum aðstoðað þau við að þvo sér og hátta fóru þau í rúmið og við lásum fyrir þau. Það var alveg fastur liður. Það var þannig í svefnskálunum, að beggja vegna voru kojur, efri koja og neðri koja, sem snéru gafli að útvegg, Á miðju gólfinu stóðu svo ofnar, en á þeim sátum við við lesturinn. Að því búnu áttu allir að fara að sofa, en við skiptumst á að vera á svokallaðri pissuvakt til 10 og þá tók vökukonan við. Ég man sérstaklega eftir Fanneyju (Jónsdóttur, móður Margrétar á Iðu) í þessu hlutverki. Hún var afar hlý kona og sinnti vel börnunum sem grétu af heimþrá. Fanney hafði herbergi, eða litla íbúð sem var í suðurendanum á staka skálanum, þar sem einnig voru leikfanga- og töskugeymsla. (Þessi skáli kallaðist á einhverjum tíma Líkhúsið og á öðrum Rauða myllan, en þá hafði hann verið málaður rauður).

Mér eru sérstaklega minnistæðir tveir bræður. Sá yngri hét Guðjón og var þriggja ára. Þannig var, að sá eldri átti að sofa í efri koju og Guðjón í þeirri neðri. Hann sætti sig hinsvegar ekki við það og svo fór að ég tók hann upp í til mín og þar svaf hann síðan meira og minna allt sumarið.

Þetta sumar voru börnin vistuð í Krossinum allt sumarið, en árið eftir held ég að hafi verið byrjað að opna á styttri tíma, ekki síst vegna þess að ásókn í þessar sumardvalir var mikil.

Foreldraheimsóknir voru bannaðar en það mátti koma þegar börnin voru sofnuð og það var þó nokkuð um að fólk nýtti sér þetta. Þá var heilmikið um pakkasendingar og þá fylgdu bréf sem voru lesin fyrir börnin. Sælgætinu var þó safnað í sameiginlegan pott sem öll nutu góðs af.

Það var skrítið að verða svo náin þessum börnum sem raun bar vitni og kveðja þau síðan og sjá þau aldrei aftur. Þessu fylgdi nánast sorg um haustið.

Það kom stundum fyrir að börn meiddust. Man eftir einu tilviki þar sem stúlka hafði klemmt eyrað á sér og það þurfti að sækja lækni. Ég þótti talsvert frá á fæti og var send yfir holtið eftir lækni, en þá var læknirinn Jón Hallgrímsson. Þessi tilvik voru nokkur, en aldrei bauð Jón mér að sitja í með sér til baka. Það kom fyrir að þegar hann þurfti að sauma einhvern skurðinn, bað hann mig að halda í endann.

Lífið í Krossinum

Mér fannst þetta sumar í Krossinum hreint ágætt. Mig langaði að vinna utandyra og þarna fékk ég sannarlega þá ósk uppfyllta. Þetta var hinsvegar mikil vinna frá morgni til kvölds.

Það var ekkert rafmagn á heimilinum nema það sem ljósavél framleiddi á daginn. Rafmagnið frá henni var aðallega notað til eldunar og þvotta. Á kvöldin þegar búið var að slökkva á vélinni á ég skýra mynd af vökukonunni sem gekk um með olíulampa.

Oft komu pakkar með rútunni, en hún átti ekki leið um Laugarás og því þurfti að fara í veg fyrir hana að Spóastöðum. Alloft vorum við sendar þangað, sem er um 5 km. gangur. Þar biðum við oft lengi eftir að rútan kæmi og síðan þurftum við að bera pakkana í Laugarás og þeir gátu verið ansi þungir.

Það komu líka nokkuð oft pakkar með mjólkurbílnum og þá þurfti að fara til móts við hann niður á veg þar sem Asparlundur er nú. Ég man sérstaklega eftir einu skipti þegar ég þurfti að hitta á mjólkurbíl sem var að koma með pakka. Þar sem ég er á leið niður brekkuna sé ég einhvern koma gangandi eftir Höfðaveginum (nú Ferjuvegur). Þar sem við nálguðumst vegamótin sá ég að þarna var á ferð pelsklædd kona með stígvél á fótunum. Þegar hún var komin á vegamótunum dró hun af sér stígvélin og dró fram hvíta strigaskó sem hún fór svo í. Mér fannst þessi klæðaburður mjög sérstakur. Mér var sagt síðar að þarna umi hafa verið á ferð Rúna í Höfða, Guðrún Víglundsdóttir, en hún mun hafa átt pels, sem hún notaði aðallega sem ábreiðu heima fyrir. Svona getur þetta verið.

Það var útvarp í eldhúsinu og þar var safnast saman á kvöldin, ekki síst á þriðjudagskvöldum, eftir tíufréttir, en þá sá Jónas Jónasson um „Þriðjudagsþáttinn“ ásamt Hauki Mortens.

Í frítímum fórum við oft í gönguferðir, heilmikið í átt að Skálholti og þar minnist ég þessað hafa sest í á klapparsæti sem var nánast að lögun eins og hægindastóll, sem mér var síðar sagt að hefði líklegast verið Þorlákssæti. Við gengum einnig oft um veginn að Höfða og aðra vegi í Laugarási. Ég man eitt sinn þegar við vorum á gangi í áttina að brekkunni að á moti okkur kom kona sem fussaði og sveiaði og yfir þessu Reykjavíkurpakki sem við vorum.

Við tókum okkur nú stundum til og skelltum okkur á ball í einhverju af samkomuhúsunum í nágrenninu. Við vorum nú á ballaldrinum. Þegar við fórum á ball á Vatnsleysu kom Róbert á Reykjum til skjalanna á vörubílnum sínum, en hann hafði þá komið fyrir boddíi á pallinum og flutti og flutti okkur þannig fram og til baka. Ef böllin voru á Brautarholti eða Flúðum þurftum við að komast yfir ána. Ingólfur á Iðu sótti okkur á ferjubátnum, flutti okkur á ballið og síðan eins til baka. Þetta voru oft ágætar skemmtanir, en ekki man ég til þess að nokkur okkar hafi bragðað áfengi, utan einu sinni og ein stúlkan var bara orðin talsvert drukkin, svo mjög að við þurftum að styðja hana síðasta spölinn heim. Hvernig það gerðist að hún komst í þetta ástand veit ég ekki en samt er nánast öruggt að einhver á ballinu hefur veitt henni að veigum sínum.

Þetta sumar í Laugarási var bara ljúft og hafði, eins og hver maður sér, mikil áhrif á líf mitt. Við Bragi fórum að hittast og úr varð hjónaband sem stendur enn, rúmum sextíu árum síðar. 

Bragi lést þan 12. september, 2018.

Uppfært 12/2018