Bréf Hagsmunafélagsins til hreppsnefndar í september 1991
og svar hreppsnefndar frá nóvember 1991.

Bréf Hagsmunafélags Laugaráss.

Laugarási, 07.09.1991

Hreppsnefnd Biskupstungnahrepps
oddviti Gísli Einarsson
Aratungu, Bisk.

Með bréfi þessu vill stjórn Hagsmunafélags Laugaráshverfis enn benda sveitarstjórn á nokkur þeirra atriða, sem varða umhverfi Laugarásbúa og sem við teljum að úr þurfi að leysa án tafar með fulltingi sveitarstjórnar. Um mörg þessara mála ætti sveitarstjórn að vera vel kunnugt af fyrri bréfum frá hagsmunafélaginu. Afgreiðsla ætti því að geta gengið greiðlega þessu sinni.

Götulýsing

Enn vantar talsvert á að götulýsing megi teljast viðunandi. Viðhald ljósa er ófullnægjandi og nauðsyn ber til að ljúka uppsetningu, m.a. frá Asparlundi að Lyngási. Mikil hætta hefur skapast í skammdeginu þar sem ljósum sleppir á miðri leið í gegnum hverfið. Umferð gangandi fólks er þarna talsverð í skammdeginu, m.a. skólabörn á leið í og úr skólabíl.

Hraðahindranir

Laugarásbúum er kunnugt um, að legið hefur við slysum vegna hraðaksturs í gegnum þorpið. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar, gleyma börn á reiðhjólum sér oft á tíðum, þegar þau koma af heimkeyrslum út á þjóðveginn og víða er mjög takmarkað útsýni til hliðanna vegna trjágróðurs. 50 km hámarkshraði er í gegnum þorpið, en reynslan hefur sýnt, að e.k. hraðahindrun er óhjákvæmileg til að hann verði virtur. Stöðluð merki Vegagerðarinnar hafa ekkert að segja við að draga úr hraðanum.

Laugarásbúar létu gera fyrir sig varúðarskilti fyrir allmörgum árum, en Vegagerðin gerði það upptækt með látum.

Gangstéttir – fegrun umhverfis

Frágangur vegbrúna og annarra svæða utan einkalóða eru síður en svo til fyrirmyndar. Engar gangstéttir er með aðalveginum gegnum laugarás og vegbrúnir eru ógreiðfærar. Vegna síaukinnar umferðar gangandi fólks verður að telja nauðsyn á að beina henni út fyrir akveginn. Stjórnin telur eðlilegt að sveitarstjóður standi straum af kostnaði við frágang og viðhald vegbrúna og opinna svæða, á svipuðum nótum og gert er í Reykholti.

Leikvöllur

Leikvöllur barna í Laugarási krefst talsverðrar umhirðu, meiri en svo að hægt sé að ætlast til að sinnt sé í sjálfboðavinnu og er þar að auki ekki nægilega búinn leiktækjum. Við óskum eftir því, að sveitarstjórn leggi sitt af mörkum til að aðstaða til leikja og íþrótta verði gerð fullnægjandi og greiði starfsmanni fyrir að slá völlinn nokkrum sinnum á sumri.

Malargryfjur

Við undirbúning sumarbústaðalands í Laugarási var tekin möl í s.k. Rauðakrosslandi. Ekki hefur verið gengið frá malarnáminu svo viðunandi sé. Þar eru m.a. djúpir pyttir, sem hætta stafar af og ljót flög hafa myndast, sem þarf að lagfæra og græða upp.

Lokun skurða

Byrjað var á lokun skurðar með Ásvegi (Dungalsvegi), en verkið hefur legið niðri um langt skeið. Margoft hefur verið bent á nauðsyn þessarar framkvæmdar, vegna slysa- og smithættu sem stafar af opnum skurðum. Virða ber það, að gengið hefur verið frá skurðinum milli Varmagerðis og Sólveigarstaða og teljum við að gera mætti áætlun um frekari framkvæmdir og fylgja henn síðan eftir.

Stjórn hagsmunafélagsins hvetur sveitarstjórn til að gaumgæfa ofantalin atriði og til að stuðla að úrlausn þeirra með því að beita áhrifum sínum við viðkomandi, opinberar stofnanir og með því að hefjast handa við úrbætur á því sem hlýtur að teljast í verkahring sveitarstjórnar.

Stjórnin óskar jafnframt eftir fundi með sveitarstjórn strax að lokinni umfjöllun um erindi þetta. Ennfremur er hreppsnefndin velkomin að líta hérna niðureftir til að líta á aðstæður.

Virðingarfyllst,

í stjórn Hagsmunafélags Laugaráshverfis
Páll M Skúlason, formaður (sign.)
Kristín Sigurðardóttir, gjaldkeri (sign.)
Ingólfur Guðnason, ritari (sign.)


Svarbréf Hreppsnefndar Biskupstungnahrepps

Aratunga, 19. nóvember, 1991

Hagsmunafélags Laugaráss
Páll Skúlason
Kvistholti, Bisk
801 Selfoss

Svar við bréfi dags. 7. september 1991.

1. Þjóðvegurinn í gegnum Laugarás flokkast undir stofnbraut og er þvi alfarið í umsjá Vegargerðar ríkisins. Þar með uppsetning lýsingar og gangstétta. Nú fyrripart vetrar er ákveðinn fundur með forsvarsmönnum vegagerðarinnar og hreppsnefnd. Þar verða þessi mál sem nefnd eru í bréfinu tekin fyrir. Nú gæti verið lag, þar sem einhver fjárveiting er merkt Skálholtsvegi 1992.

2. Götulýsing: Nú er verið að leggja kapal fyrir þá lýsingu sem vantar að Asparlundi.
Viðhald ljósa er á hendi RARIK. Ef það er ófullnægjandi, telja þeir sig þurfa að hafa tengilið á staðnum til að segja frá bilunum þegar þær verða.

3. Hraðahindranir: Vegagerð ríkisins (Sigurður) telur hraðahindranir í formi upphækkana útilokaðar á þjóðvegi í þéttbýli. Óljóst er hvaða aðgerðir munu koma að bestum notum og duga í þessu sambandi. Óskað verður eftir tillögum frá vegagerð.

4. Leikvöllur: Samþykkt var, að á næstu fjárhagsáætlun yrði Hagsmunfélagi Laugaráss veittur styrkur til reksturs leikvallarins.

5. Malargryfjur: Fyrirhugað er að taka meira efni þerna í haust og ganga síðan frá jarðraskinu.

6. Lokun skurða: Ákveðið er að loka skurði með Ásholtsvegi nú í haust. Hreppsnefnd tekur undir að þörf sé á að gera áætlun um áframhaldandi framkvæmdir við lokun skurða í samráði við íbúana. Skurði milli lóða sjá lóðarhafar um, nema um stærri affallsskurði sé að ræða.

Hreppsnefnd er tilbúin að ræða við íbúa Laugaráss um þessi mál og einnig hestahald, umhverfi og framtíð sláturhússins, skógrækt í Laugarási og fleira.

Hreppsnefnd Biskupstungnahrepps
Gísli Einarsson (sign.)
oddviti

Uppfært 07/2024